16.03.1972
Neðri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er nú væntanlega komið að lokum þessara umr. um hin nýju skattafrv. ríkisstj. og skammt í það, að þessi frv. verði að lögum. Miklar deilur hafa orðið um áhrif þeirra og sýnist sitt hverjum. Skal ég ekki orðlengja þær deilur frekar hér að sinni og sýnist mér, að skattseðillinn verði sá dómari, sem einn geti kveðið upp hinn endanlega dóm í því máli og í þeim ágreiningi, hvort skattar hækki eða lækki. Frá því að frv. komu fyrst fram, hafa litlar breytingar orðið á þeim. en þó hefur það verið viðurkennt af hæstv. ráðh., að ekkert væri óeðlilegt við það, þó að viss gagnrýni kæmi fram og tillit væri tekið til hennar, enda sjást þess a.m.k. einhver merki á þessum frv., því að breytingar hafa átt sér stað í meðförum og a.m.k. að óverulegu leyti tekið tillit til ýmissa þeirra aths., sem fram hafa komið hjá stjórnarandstöðu.

Í því sambandi var í fyrstu gert ráð fyrir því, að útsvar yrði lagt á brúttótekjur án nokkurra undanþága, og var sú regla algerlega fortakslaus í upphafi, en í meðförum hefur síðan verið hliðrað til, væntanlega þá vegna réttmætrar gagnrýni og ábendinga, og af sanngirnisástæðum tekin nú inn í frv. heimild til þess að draga frá útsvari eða frá tekjum, áður en útsvar er lagt á, skyldusparnað og eigin húsaleigu. Hvor tveggja þessi atriði sýnast vera mjög sanngjörn undanþáguákvæði, sem ég tek vissulega undir. Þetta var gert, það var fallizt á þessar breytingar, án þess að mér vitanlega miklir útreikningar hafi farið fram á því, hversu mikið tekjur sveitarfélaga minnkuðu við það, að þessir frádrættir væru teknir til greina.

Nú hefur verið lögð fram till. hér, brtt., á lokastigi þessa máls frá hv. 3. þm. Sunnl. og mér um eina frádráttartillögu til viðbótar eða frádráttarpóst, þ.e. vexti af lánum til fasteigna. Fram til þessa og í núgildandi lögum er mögulegt að draga frá, áður en lagt er á útsvar og tekjuskatt, draga frá vexti af skuldum, ótiltekið vexti af skuldum, og þá er það ekki bundið við það, að þeir vextir séu af lánum, sem tekin eru til fasteigna eða fasteignakaupa. Þessi regla hefur oft og tíðum verið gagnrýnd og sú gagnrýni hefur átt rétt á sér af þeim sökum, að ýmsir þeir, sem hafa lagt út í byggingar og reist sér stór hús eða keypt sér miklar eignir, hafa getað sett á þessar eignir miklar skuldir og þar af leiðandi mikla vaxtabyrði, sem aftur hefur leitt af sér, að þeir hafa sloppið við að greiða nema mjög litla, jafnvel stundum enga skatta til hins opinbera. Stundum er sagt, að þeir, sem jafnvel eru efnaðastir í þjóðfélaginu, sleppi með þessum hætti, því að þeir hafi þá gjarnan um leið beztan aðgang að lánastofnunum, og skal ég ekki leggja neinn dóm á það, en vissulega er ástæða til þess að taka undir þessi sjónarmið. Staðreyndin er tvímælalaust sú, að menn hafa of oft sloppið við opinber gjöld í skjóli þessa ákvæðis. Þess vegna fannst mér eðlilegt nú, þegar verið er að skoða og endurskoða skattalög og útsvör, að einmitt þessi frádráttarliður væri tekinn til athugunar og reynt einhvern veginn að festa hann betur og skerða þessa möguleika. Kom mér alls ekki á óvart, þó að honum yrði breytt. Hins vegar verð ég að játa það, að mér urðu það mikil vonbrigði, þegar í þessum frv. er algerlega skorið á þennan möguleika og ekki tekið tillit til vaxtagreiðslna eða vaxtabyrði einstaklinga að einu eða neinu leyti. Staðreyndin er auðvitað sú, að þó að einstakir menn og einstaklingar hafi getað notið góðs af þessu frádráttarákvæði í núgildandi lögum, þá er allur þorri fólks, sem hefur á sér vissa vaxtabyrði, stærri eða smærri, hann hefur ekki getað skotið sér undan því að greiða skatta og er mjög eðlilegt, að þetta fólk fái frádrátt vegna slíkra vaxtagreiðslna. Á það var bent hér í ágætri ræðu hv. 5. þm. Reykv., að þetta lenti einkum og sér í lagi á ungu fólki, ungu fólki, sem er að stofna heimili, kaupa íbúðir eða reisa sér hús oft af vanefnum, og þá hefur það verið opinbert leyndarmál og öllum ljóst, að þetta unga fólk hefur í og með einmitt treyst sér til þess að ráðast í slíkar fjárfestingar vegna þeirra möguleika að geta dregið frá sínum opinberu gjöldum vaxtagreiðslur. Nú er með þessu frv. algerlega skorið á þennan möguleika, og þykir mér það mjög miður.

Í þessum umr. hafa menn lagt mikið upp úr því að greiða fyrir einstökum hópum í þessu þjóðfélagi. Menn hafa borið fyrir brjósti hér hag launþega, öryrkja, gamals fólks og yfirleitt allra þeirra, sem njóta t.d. bóta hjá almannatryggingum, og jafnvel sjómenn hafa fengið hér samþ. sérstök ákvæði sér til hagsbóta. En hvað um unga fólkið? Hefur enginn séð ástæðu til þess að taka upp hanzkann fyrir þetta unga fólk, sem er að stofna heimili, og er engin ástæða til þess að reyna að greiða götu þess í baráttu þess í þjóðfélaginu og í ilfinu? Er ekki vissulega fullt tilefni til þess að taka tillit til ... (Gripið fram í: Æ, það er að koma matur bráðum, Ellert, hættu þessu.) Já, það er stundum, sem menn hugsa meira um sitt magamál heldur en hagsmuni unga fólksins, og kemur mér það ekki á óvart, þótt það komi einmitt úr þessari átt, en því miður held ég, að hv. þm. verði að líðast það að sitja undir þessum umr. örstutta stund áfram, og ég held, að það sé ekkert of gott þessari ágætu d. að hlýða hér á nokkur orð, sem eru til þess að taka upp hanzkann fyrir unga fólkið í þessu þjóðfélagi. Það væri maklegt fyrir þm. og þessa d. og væri henni til sóma, að hún tæki tillit til þeirrar till., sem hér er lögð fram og samþykkti hana. Og ég hef staðið hér upp í lok þessara umr. til þess að leggja áherzlu einmitt á þetta sjónarmið, og vildi nú skora á þessa d. að sýna lit á því að samþykkja þessa mjög hóflegu till. Í henni er gert ráð fyrir því, að hægt sé að draga frá tekjum, áður en lagt er á útsvar, vexti, sem fólk þarf að greiða, vexti af lánum úr lífeyrissjóðum eða Byggingarsjóði ríkisins. En það eru þessi lán, sem fólk yfirleitt og nánast alltaf tekur, þegar það ræðst í byggingar eða húsakaup. Þetta eru þau lágmarkslán, sem hver maður þarf á að halda, og þarna er komið í veg fyrir, að menn séu að hleypa sér í frekari skuldir eða búa sér jafnvel til skuldir til þess að geta dregið ótakmarkað vexti af lánum frá sínum tekjum.

Það er líka gert ráð fyrir því, að þessi lán hvíli á íbúðarhúsnæði viðkomandi gjaldanda, íbúðarhúsnæði, sem hann notar til eigin afnota. Með því er fyrirbyggt líka, að þarna sé um einstakling, gjaldanda að ræða, sem á fleiri en eitt íbúðarhúsnæði, jafnvel notar það ekki, leigir það út, og slíkir aðilar geta ekki skotið sér á bak við þessa reglu.

Mér sýnist einsýnt og ég er sannfærður um, að allir geta tekið undir þessa till. og eru í hjarta sínu áreiðanlega sammála um það, að hún sé nauðsynleg. Þetta er ekki neitt nýmæli. Þetta hefur verið í lögum og þarna er eingöngu um að ræða takmörkun á ákvæði, sem fyrir er í lögum.

Ég vil að lokum segja það, að þegar við stjórnarandstæðingar vorum að deila á of há fjárlög hér fyrr í vetur, þá sögðu stjórnarsinnar: Ja, hvað viljið þið skera niður? Hvað er það í þessum frv., sem ykkur finnst vera of mikið gert af? Og ég t.d. sjálfur svaraði því svo, að vitaskuld er kúnstin við að stjórna að velja og hafna og taka ákvarðanir um, hversu langt megi ganga hverju sinni, því að vitaskuld er það svo, að flestar till. eiga rétt á sér og eru sanngjarnar, ef þær eru skoðaðar einar sér. Á sama hátt get ég sagt núna, víl segja við stjórnarsinna, hér er komin fram sanngirnistillaga, og ég beini þeirri samvizkuspurningu til þeirra: Vilja þeir sitja undir því að fella slíka till., sem er til réttlætis og sanngirni fyrir unga fólkið sérstaklega í þessu þjóðfélagi?