17.11.1971
Neðri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

74. mál, bann við losun hættulegra efna í sjó

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er um það að banna öllum íslenzkum skipum að losa í sjó hættuleg efni, sem gætu valdið mengun sjávar. Tiltekið er í 1. gr. frv., að þetta bann eigi að ná til, í fyrsta lagi torleysanlegra, lífrænna efna eða efnasambanda, sem leysast hægt í sundur, hvort sem er í lifandi verum eða við efnabreytingar, og í öðru lagi til úrgangs, sem hefur að geyma ofangreind efni eða efnasambönd, lífræn eða ólífræn, þungra málma eða eitraðra málma. Síðan er ákveðið í frv., að sett skuli reglugerð, þar sem talið sé upp á tæmandi veg, til hvaða efna hannið nær, en hér er að sjálfsögðu um mjög þýðingarmikið mál að ræða fyrir okkur Íslendinga, sem látum okkur það miklu skipta að reyna að koma í veg fyrir mengun sjávar og þær hættur, sem af slíkri mengun gætu leitt, einmitt fyrir fiskistofnana við landið.

Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðlegar samþykktir, sem varða þessi mál. enda verði slíkar reglugerðir gefnar út í C-deild Stjórnartíðinda.

Tildrög þess, að þetta mál er hér flutt á þann veg, sem hér er gert, eru þau, að samkomulag,hefur orðið um það með Norðurlandaþjóðum, að þær settu lög í þessa átt hver hjá sér, þar sem þær bönnuðu sínum þegnum að valda slíkri mengun á hafsvæðum, sem hér er rætt um. Það er að vísu alveg augljóst, að þótt Norðurlandaþjóðir komi sér saman um að banna sínum þegnum að losa hættuleg eiturefni í sjó, þá nær það ekki nema takmörkuðum tilgangi. Því var það, að samkomulag Norðurlandaþjóðanna varð einnig um það, að þær skyldu jafnframt beita sér fyrir því að fá aðrar þjóðir til þess að fallast á að setja slík lög fyrir sig eða verða aðilar að eins víðtæku samkomulagi eða samþykktum varðandi þessi mál og tök væru á. Norðmenn hafa þegar fyrir nokkru sett lög í þessa átt hjá sér, og hér er aðeins um það að ræða, að við Íslendingar stígum hliðstætt skref í þá átt, eins og Norðmenn hafa þegar gert, að við bönnum okkar þegnum að losa í hafið þessi hættulegu eiturefni eða mengunarefni.

Það, sem hefur síðan gerzt í þessum málum, er það, að haldin var í Osló, dagana 19.–22. okt. s.l., ráðstefna, sem þátt tóku í ekki aðeins fulltrúar frá Norðurlöndum, heldur einnig frá allmörgum öðrum löndum, sem hagsmuna eiga að gæta á því hafsvæði, sem við eigum mestra hagsmuna að gæta á. Þar var lagður grundvöllur að samþykkt milli þessara þjóða varðandi þessi efni, og er því áfram unnið að því að reyna að fá sem víðtækust samtök um að koma í veg fyrir mengun sjávar af völdum þess, að skip láti frá sér í hafið hættuleg úrgangsefni. En þessi samþykkt hefur auðvitað ekki enn verið staðfest. Vantar þar samþykkt margra aðila, sem miklu máli skipta, en unnið er að því að reyna að fá þarna sem víðtækasta samvinnu. Einnig er síðan stefnt að því, að þetta mál verði tekið upp á fundum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, og það mun verða gert á næsta fundi hennar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mál fleiri orð að þessu sinni. Ég tel sjálfsagt, að við stigum það skref að banna okkar þegnum það, sem þetta frv. fjallar um, banna þeim að losa í sjó frá skipum hættuleg úrgangsefni, sem geta valdið mengun. Þar með höfum við sýnt á ótvíræðan hátt okkar vilja til þátttöku í þessum efnum. Okkar vald nær að sjálfsögðu ekki lengra en banna okkar þegnum þetta á þessu stigi málsins, en síðan getum við unnið áfram að því með öðrum að reyna að fá sem flesta til þess að fallast á það að banna sínum þegnum að halda þannig á málum, að sjórinn verði hættulega mengaður vegna úrgangsefna, sem skip losa sig við á höfum úti.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til athugunar.