06.03.1972
Efri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim orðum, sem hér féllu áðan, að það væru ekki sérstakar ástæður til þess að flytja till. um, að námskeið fyrir 1. bekk stýrimannaskóla yrði haldið á Suðurnesjum, þá vil ég aðeins taka það fram, að þessi till. er ekki flutt vegna þess, að þær ástæður séu fremur fyrir hendi í Keflavík en á ýmsum öðrum stöðum á landinu, og með þessari till. er á alls engan hátt útilokað, að það yrði gert víðar. Ég er þeirrar skoðunar, að ef slíkt nám. bæði undirbúningsnamið og nám 1. bekkjar, færi fram á Suðurnesjum, þá mundu fleiri ungir menn hefja nám til þess að öðlast þau réttindi, sem Stýrimannaskólinn veitir, miklu fleiri en þegar þeir þurfa að sækja til Reykjavíkur. Það eru núna líklega um 10–15 ungir menn frá Suðurnesjum. sem sækja nám í Stýrimannaskólanum. Ég er í engum vafa um, að þeir yrðu miklum mun fleiri, ef fyrir hendi væri að stunda þetta nám eða hluta af því, eins og þarna er gert ráð fyrir, á staðnum sjálfum. Og það er aðalástæðan fyrir því, að þessi till. er flutt, en ekki sú, að þarna séu fyrir hendi aðstæður, sem ekki kunna að vera til annars staðar. Á fáu er meiri þörf nú í sambandi við nám en það, að fleiri ungir menn hefji einmitt þetta nám, sem varðar sjómennskuna, og ef till. gæti orðið til þess, að fleiri hefji þetta nám en ella mundi vera, þá álít ég, að hún eigi á sér fyllsta rétt. Ég læt mér ekki til hugar koma annað en að áður en langt um líður komi fleiri staðir til greina, og það er ekki annað en berjast gegn þróuninni og því, sem hún krefst, að hafa á móti því, að þessi till. verði samþ. Það vill nú oft verða svo í skólanámi hér í Reykjavík sem annars staðar, að dagurinn er slitinn í sundur meira og minna. Því verða menn sunnan af Suðurnesjum að dveljast hér allan daginn við þetta nám, en ef þeir ættu kost á því heima, mundu miklu fleiri hefja þetta nám. En ég legg áherzlu á, að þessi till. þýðir ekki það, að ekki komi aðrir staðir jafnt til greina, og bendi enn fremur á, að framkvæmd þessarar till., ef samþ. yrði, er að sjálfsögðu háð því, að næg þátttaka fáist, og ég efast ekkert um það, að hún mundi fást.