05.04.1972
Neðri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

33. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur athugað þetta frv., sem nú liggur fyrir Alþ. um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Eins og þm. vita, hefur þetta frv. þegar verið rætt og fjallað um það í Ed., og sú hv. d. afgreiddi málið á þá lund að gera tvær breytingar á frv. Önnur var við 6. gr. og hin við 14. gr. Í 6. gr. var breytingin fólgin í því, að fellt var niður ákvæði um tímalengd skólans, þannig að það er óbundið, hversu lengi hann stendur. En í 14. gr. var gerð sú breyting að auka á skólalýðræðið í þeim skilningi að veita nemendum Stýrimannaskólans aukna þátttöku í stjórn skólans, og er það í samræmi við nútímahugmyndir um skólalýðræði. Þessar breytingar eru án efa til bóta, og menntmn. Nd. hefur orðið einhuga um það að afgreiða þetta frv. óbreytt og leggur til, að það verði samþ., eins og það nú liggur fyrir.