19.10.1971
Efri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

5. mál, áfengislög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta litla frv. á þskj. 5 inniheldur tvö atriði. Hið fyrra er það, að með því er gert heimilt að flytja til landsins öl, sem hefur inni að halda minna en 21/4% af vínanda að rúmmáli. Annað atriði er það, að felld eru niður þau ákvæði í áfengislögunum, sem enn segja, að áfengissektir og andvirði upptæks áfengis skuli renna í menningarsjóð.

Um fyrra atriðið er það að segja, að frá því að áfengislögin nr. 58 1954 voru sett, hefur með öllu verið óheimilt að flytja inn öl til landsins. En áður en þau áfengislög voru sett, gilti hins vegar sú regla samkvæmt áfengislögunum frá 1935, að heimilað var að flytja öl til landsins, ef það hefði ekki inni að halda meiri vínanda en hér er gert ráð fyrir. En ástæðan til þess, að þetta ákvæði er nú flutt og till. gerð um að skjóta þessu ákvæði á ný inn í áfengislög, er eingöngu vegna EFTA-aðildar. Það er talið nauðsynlegt að taka þetta ákvæði inn í áfengislöggjöf, til þess að hægt sé að fullnægja samkomulagi sem gert hefur verið á grundvelli EFTA-aðildar og nánari grein er gerð fyrir í aths. með frv.

Um síðara atriðið er það að segja, að lengi vel var það svo í áfengislögum og í lögum um menningarsjóð, að áfengissektir og andvirði upptæks áfengis rann í menningarsjóð, en þessu var breytt með lögum nr. 35 frá 14. apríl 1971, um breyt. á lögunum um menningarsjóð. Þá er fellt niður, að þessar áfengissektir og andvirði þess áfengis renni í menningarsjóð, heldur er þar gert ráð fyrir því, að menningarsjóður fái fé með beinni fjárveitingu. Það þótti af einhverjum ástæðum ekki viðeigandi eða eðlilegt, að hann byggði afkomu sína á þessum tekjustofnum lengur. En þegar þessi lög nr. 35 frá 1971 voru sett og afgreidd hér á Alþ., var þess ekki gætt, að í áfengislögunum voru ákvæði um þetta efni, sem mæltu svo fyrir, að áfengissektir o.s.frv. skyldu renna í menningarsjóð. Þessi ákvæði standa því enn í áfengislögunum, þrátt fyrir það að búið sé að fella þau niður í lögum nr. 35 1971, sem eiga að öðlast gildi nú 1. jan. n.k. Þetta er eingöngu leiðrétting, breyting formlegs efnis, sem rétt þótti að leggja hér til um leið.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég held, að skýring á því sé gefin nokkuð glögg í aths., og ég leyfi mér að óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.