07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

162. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um frv. að ræða, sem gerir ráð fyrir nokkurri hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Sú breyting, sem felst í þessu frv., er aðeins sú, að svonefnt magngjald af tilteknum sjávarafurðum er hækkað úr 1900 kr. á tonn í 2300 kr. á tonn. Eins og fram kemur í grg. frv., hefur þótt eðlilegt að hækka þetta magngjald, eins og hér er lagt til, þannig að útflutningsgjald af þeim sjávarafurðum, sem hér er um að ræða eða sem lagt hefur verið á ákveðið magngjald til þessa, verði í svipuðu hlutfalli eins og það hefur verið gagnvart útflutningsgjaldi af öðrum sjávarafurðum miðað við verðlag. En síðan þetta gjald var sett sem magngjald hafa orðið allverulegar verðhækkanir á þessum sjávarafurðum, þannig að þó að þessi hækkun færi fram, þá væri hér aðeins um sambærilegt útflutningsgjald að ræða miðað við aðrar sjávarafurðir og áður var. Þessi hækkun er talin munu nema í tekjum fyrir tryggingasjóðinn, — en það er gert ráð fyrir því, að öll þessi útflutningsgjaldahækkun renni í Tryggingasjóð fiskiskipa, — í kringum 45 millj. kr. á ársgrundvelli. Nú er það svo, að staða Tryggingasjóðs fiskiskipa er þannig, að hann þarf í rauninni á jafnvel enn þá meira fé að halda en hér er lagt til að aflað verði, en vegna þess að reglurnar um þennan vátryggingasjóð eru nú allar í endurskoðun og þar sem að því er stefnt að reyna að draga úr útgjöldum sjóðsins frá því, sem verið hefur, þá þykir ekki ástæða til þess að leggja fram till. á þessu stigi málsins um frekari fjáröflun til sjóðsins en felst í þessu frv.

Hér er um að ræða frv., sem er mjög svipað frv., sem hér hafa verið á ferðinni æðioft áður, og ég tel því ekki þörf á því að hafa hér fleiri orð um efni þessa frv. á þessu stigi málsins. Ég skal taka það fram, að það er mín skoðun, að það beri að reyna að standa gegn því eins og tök eru á að hækka útflutningsgjald af sjávarafurðum frá því, sem verið hefur, og ég hef ekki viljað fyrir mitt leyti fallast á það, að þessi gjöld yrðu hækkuð umfram það, sem felst í þessu frv., en ég játa, að ekki er óeðlilegt, að það hlutfall, sem hér var í lögum og reglum varðandi þessi mál á milli hinna einstöku vörutegunda, haldist, en vegna þess að þarna er um magngjald að ræða, þar sem er um verðmætisgjald beinlínis að ræða á öðrum tegundum, þá eigi þessi breyting sér þó stað.

Þetta eru sem sagt meginástæðurnar fyrir því, að frv. er flutt. Það er bæði tekjuþörf sjóðsins og það að halda þessu samræmi, sem þarna var orðið á útflutningsgjaldi af hinum ýmsu tegundum sjávarafurða.

Að lokinni 1. umr. um frv. legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til fjhn. (Gripið fram í.) Hefur þetta alltaf verið í sjútvn.? Nú, mig minnti nú, að þetta hefði verið í fjhn. ævinlega hjá okkur í Nd., en sem sagt það skiptir mig ekki máli. Ef uppi eru till. um það, að málið fari til sjútvn., þá get ég einnig stutt þá till., að frv. gangi til sjútvn. til frekari athugunar.