24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

31. mál, rekstur hraðfrystihúsanna

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Af hálfu opinberra aðila hefur ekki verið framkvæmd athugun á afkomu frystihúsanna, þannig að við það væri miðað, að það, sem í ljós kæmi, væri sérstaklega hagnýtt til þess að gera rekstur húsanna hagkvæmari. Eins og kunnugt er, eru svo til öll frystihús í landinu í tveimur meginsölusamtökum, annars vegar í samtökum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og hins vegar í samtökum Sambands ísl. samvinnufélaga. Mér er kunnugt um það, að á vegum þessara heildarsamtaka hefur athugun af þessu tagi farið fram og talsvert verið gert af því að koma í framkvæmd ýmiss konar endurbótum varðandi rekstur húsanna, en að mínum dómi hefur þessi athugun þó verið allt of lítil og starfsemin engan veginn nægileg. Það hefur að sjálfsögðu farið fram af hálfu opinberra aðila allýtarleg athugun á rekstrarafkomu frystihúsanna í allmörg ár, og það liggja fyrir býsna fróðlegar tölur varðandi það. En sú athugun hefur ekki verið á þeim grundvelli, sem greinilega er átt við með þessari fsp.

Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það væri vissulega mjög gagnlegt, ef hægt væri að gera ýtarlega samanburðarrannsókn á rekstri frystihúsanna í landinu með það fyrir augum að reyna að koma því fram, sem helzt hefur reynzt í hverju tilfelli. En til þess að það verði gert af opinberum aðilum, þá þarf auðvitað að veita fjármagn til slíks. Það þarf að ráða ákveðna menn til slíkrar starfsemi. Ég vil sem sagt fyrir mitt leyti undirstrika það, að ég tel, að það væri mjög þýðingarmikið atriði að gera þetta, en til þess þyrfti þá að veita nokkurt fé, ef þetta ætti að geta borið árangur. — Þetta er sem sagt svar mitt við þessari fsp.