19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur rætt þetta mál á 2 fundum í dag. Bankastjórar Seðlabankans og hagrannsóknastjóri mættu á þessum fundum og svöruðu fyrirspurnum frá nm. og veittu ýmsar upplýsingar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins.

Þetta frv. er efnislega samhljóða fyrri frv., sem flutt hafa verið við slík tækifæri, þó með einu fráviki. Það felst í 3. gr. þessa frv., þar sem fyrir er mælt um, að það frávik, sem leyfilegt er frá stofngengi, skuli framvegis vera 21/4% yfir eða undir, í stað þess að það hefur áður verið í lögum ákveðið 1%. Að öðru leyti en þessu er frv. þetta í öllum efnisatriðum alveg samhljóða þeim frv., sem flutt hafa verið við slík tækifæri sem nú er. Þessar breytingar, sem þarna er lagt til að gera, er verið að gera m.a. til samræmis við háttu margra helztu viðskiptaþjóða okkar Íslendinga, og er það í samræmi við óskir Seðlabanka Íslands.

Ég sé enga ástæðu til þess, að ég fari að ræða efnislega um þetta frv, að öðru leyti en minna á þetta frávik þess frá öðrum skyldum frv., né heldur að gera gengisbreytingu þá, sem þegar er orðin, að sérstöku umtalsefni hér. Það var gerð mjög ítarleg grein fyrir þessum málum hér í hv. d. í gær af hæstv. ráðh., og það væri raunar ekki annað en endurtekning, ef ég færi að rekja það á ný. Ég vil hins vegar leyfa mér að leggja áherzlu á það, að varðandi meðferð þessa frv. hér í hv. d. og væntanlega á hv. Alþ., þá er hún í engu frábrugðin því, sem tíðkast hefur um slík frv., þegar gengi hefur verið breytt. Ég minni á það, að t.d. fyrir 4 síðustu gengisfellingar voru slík frv. afgreidd samdægurs frá viðkomandi n. eins og nú er raunar gert og eins og segja má, að leiði raunar af eðli þessa máls, sem hér er til meðferðar.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.