19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

95. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Jafnvel þótt hæstv. ráðh. hafi dregið þessa till. sína til baka, vil ég leyfa mér að ræða hana nokkuð nú þegar. Ef hæstv. forseti telur það ekki vera samkv. þingsköpum, mun ég einfaldlega leyfa mér að taka upp till. ráðh., flytja hana sem mína og ræða á þeim grundvelli. Hér er auðvitað um miklu meira mál að ræða heldur en kemur fram í þessum fáu orðum hæstv. ráðh.

Það kom nokkuð fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. í sambandi við mál, sem við vorum að ræða á undan þessu um breyt. á siglingal., eins og löngum hefur skeð hér á landi voru, að menn vilja ekki kannast við krógann. Jú, hann sagðist eiga nokkra hlutdeild í þessum lögum. Mikið rétt, og átti ekki aðeins hlutdeild í þessum l., sýslumaðurinn og dómarinn, heldur var hann 1. flm. að þeim, en ég meðflm. En hvað um það, ef hann sver af sér króga þennan, þá skal ég gangast við honum, vegna þess að ég álít, að með þessari löggjöf hafi náðst fram það, sem sjómannasamtökin á Íslandi hafa barizt fyrir um áratuga skeið. Það er fyrst og fremst að fá viðurkenningu á því, að þeirra atvinna falli undir það að vera hættulegur atvinnurekstur, það sé jafnhættulegt fyrir þá að stunda sitt starf eins og þá menn, sem ganga um stræti höfuðborgarinnar eða stræti kaupstaða eða bæjarfélaga. Það er nefnilega svo og hefði átt að liggja ljóst fyrir í sambandi við þetta mál og auðvitað þá grg., sem lá fyrir í sambandi við frv., það sem ég ásamt nokkrum þm. Sjálfstfl. flutti í framhaldi af þessu máli á síðasta þingi, þar sem við í grg. bentum m.a. á slysatilfellin hjá íslenzkri sjómannastétt. Við bentum á það, hvert dauðahlutfallið hefði t.d. verið í þessari atvinnugrein. Það kom þar í ljós, að um það bil 5 af þúsundi hefðu látizt af slysum í starfi sínu á árunum frá 1960–1970. Þetta eru um það bil 20 á ári. Ég veit ekki til þess, að það sé nokkur stétt hér á landi, sem getur bent á hið sama, hvorki sýslumenn, prófessorar, strætisvagnabílstjórar né aðrir.

Fjandinn lái okkur það, sjómönnum, — og ég tala þá sem slíkur enn þá, þótt ég sé búinn að vera í landi nokkuð lengi, — þótt við viljum fá þjóðfélagið til þess að viðurkenna, að þetta sé hættulegur atvinnuvegur. Ég veit að það farast öðru hverju menn af slysförum vegna starfa við tæki í landbúnaði, en fjöldi þeirra, sem þar farast, er auðvitað ekki nema brot af því, sem skeður í sambandi við okkar fiskútveg. Það er þess vegna hlálegt, þegar maður heyrir það, sem hefur komið fram í sambandi við þá löggjöf, sem samþ. var hér á s.l. vori, ekki aðeins frá samtökum okkar ágætu útgerðarmanna, heldur og öðrum. Ég mínni sérstaklega á aðila, sem komu fram í ákveðnum útvarpsþætti, en þar kom fram týpískt dæmi um það, hvernig ekki á að nota hljóðvarpið. En kommúnisti nokkur úr útgerðarmannastétt frá Húsavík, ásamt einum af þessum „þröstum“, sem alls staðar er hægt að grípa til, þegar þeir félagar þurfa á að halda, og þeim kommúnista, sem ræður þeim umrædda þætti, — þeir töluðu um það, að hér væri um pólitískt áróðursbragð að ræða í sambandi við flutning þessa frv. Um leið lá náttúrlega fyrir, að frv., sem hafði verið flutt á sínum tíma, að vísu enn þá vitlausara heldur en það var gert af okkur, af núv. hæstv. sjútvrh., að ég tali nú ekki um „den farende svend“ meðal okkar þm., af Jónasi Árnasyni, var líka pólitískt áróðursbragð.

En hvað um það, frvgr., eins og hún kom fram frá okkur, mér og hinum barnsföður þess, Friðjóni Þórðarsyni, var ekki samin af lakari manni en þeim, sem. hefur mótað bæði siglinga- og sjómannalög okkar. Kannske hefur ekki verið höfð í huga sú fyrirmynd, sem hefur verið höfð áður, að það ætti einfaldlega að þýða upp sambærileg lög frá Norðurlöndum, t.d. í sambandi við tryggingalöggjöfina. Þetta tvennt getur ekki átt saman. Það getur ekki átt saman að leggja til grundvallar í tryggingalöggjöf fiskimanna okkar það, sem á að nægja til að tryggja fiskimenn í innsjónum í Norðursjó eða innsjó þar innaf við Norðurlöndin, eða hins vegar hér í Norður-Atlantshafi að vetrarlagi. Það er alveg útilokað að leggja þetta tvennt að líku. Þetta hefur hins vegar veríð gert í gildandi löggjöf.

Þegar við vorum að ræða um, hvernig þetta mætti verða, höfðum við í huga, eins og hinir fyrri flm., að við þurfum að ná fram þeirri viðurkenningu þjóðfélagsins, og hún hlýtur að koma eftir á, um það hver eigi að borga kostnaðinn af þessum tryggingum. Að því skal ég koma síðar. Við verðum að hafa í huga, að þetta er hættulegur atvinnurekstur. Þetta er hættulegasti atvinnurekstur, sem við stundum, Íslendingar. Ég skal ekki þreyta ykkur á því að segja um leið, að hann sé nauðsynlegur fyrir okkur hér á Íslandi. Það má vel vera, að við getum bara leigt fleiri hús við Rauðarárstíg og allir farið í Framkvæmdastofnunina og sagt: Við skulum stjórna hver öðrum, raka hverjir aðra, allan hringinn, — og lifa á því. En slíkt er náttúrlega misskilningur, þótt núv. hæstv. ríkisstj. virðist álíta, að svo sé.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. brosir að þessu, en hann átti hugmyndina að þessu á sínum tíma. Það væri hægt að leysa vandamálin með þvílíkum aðgerðum.

Um leið og við komum að þeirri staðreynd og viðurkennum bana, en ég held að enginn leyfi sér að mótmæla, að fiskveiðar okkar séu hættulegur atvinnurekstur, eins og ég hef þegar sagt, þá vitum við líka, að það verður að tryggja menn við þennan hættulega atvinnurekstur. Eftir að sú löggjöf, sem hér er m.a. til umr., var samþ. af Alþ. á s.l. vori, vantaði ekki, að íslenzkir útgerðarmenn segðu: Ja, hún er dæmalaust vitlaus þessi löggjöf, en við viljum tryggja sjómennina okkar vel. Ég er búinn að vera nærri þrjá áratugi í mínu stéttarfélagi og í samningum fyrir það í a.m.k. tvo áratugi, og hefur í hverjum einustu samningakröfum, sem við höfum lagt fram, verið farið fram á að fá bættar og hækkaðar tryggingar okkar manna. Ég hef aldrei heyrt það frá útgerðarmönnum, að þeir tækju undir, að þær ætti að hæta sérstaklega, eða að Stefán Pétursson á Húsavík né aðrir útgerðarmenn byðu okkur að fyrra bragði að tryggja sjómennina betur. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd, sem ég drap á, að það er ekki „vitlausa frv.“ frá sýslumanninum eða dómaranum og sjómanninum, sem veldur því, að þeir hrista sig nú, íslenzkir útgerðarmenn, heldur hrista þeir sig yfir því, að það er búið að viðurkenna hér á Alþ. þá staðreynd, að íslenzk fiskimennska er hættuleg atvinna, og frá því verður ekki snúið.

Ég vil benda á það, sem kom fram í grg. þessa frv., og þá er auðvitað rétt um leið að benda á frv. efnislega nokkru nánar, því að það varð að lögum. Allir ættu að vita efnislegt innihald þessara laga, en kannske er færri mönnum ljóst það, sem kom fram í grg. frv., og enn fremur það, sem kom greinilega fram í framsögu 1. flm. frv., hv. 4. þm. Vesturl., en það gekk ítarlega út á það, að flutningur frv. ætti, eins og segir í grg., „að geta orðið til þess, að tryggingamál sjómanna yrðu endurskoðuð vandlega í heild og síðan yrði reynt að marka skynsamlega stefnu með vaxandi heill og öryggi sjómanna í huga“, og fleiri orð voru þar um höfð. Að sjálfsögðu var með þetta mál eins og önnur, sem flutt eru hér á Alþ., að reynt er að ná fram ekki aðeins skoðunum og áliti einstakra þm., heldur og stofnana, félagssamtaka og sérfræðinga, vegna þess að með flutningi slíkra frv. er hægt að krefjast þess af þinginu, að látin sé fara fram könnun á því, hvað slíkur frv: flutningur þýði fyrir heildina. En það var nú eitthvað öðru nær með þetta blessað frv. okkar, og nú skulum við koma aðeins nánar að því.

Mér þykir vænt um, að formaður sjútvn. í Nd. skuli vera hér viðstaddur, vegna þess að ég verð að sneiða að honum í þessu máli. Málið lá í þessari n. okkar í nokkra mánuði, en svo þegar kom fram á vorið, var allt í einu lögð mikil áherzla á að drífa það fram og láta það ná framgangi. Það lá svo mikið við, að það mátti ekki bíða einu sinni eftir umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég þurfti ítrekað að ganga hér á fund hæstv. forseta Nd. til þess að biðja um frestun á umr. þessa máls, þangað til umsagnir kæmu frá Landssambandi ísl. útgerðarmanna um málið. Það þýddi ekki, að ég stæði ekki með málinu og vildi ekki, að það næði fram að ganga. Ég lagði einnig til, fyrst L.Í.Ú. var ekki reiðubúið og hafði aldrei fengið óskir um að senda umsögn, að þá væri það sjálfsögð kurteisi að verða við þeirra óskum, þegar þær komu, að geyma málið um sinn. Hitt er svo annað mál. sem ég skal persónulega taka undir með mörgum, sem þar hafa um talað, að ef þeir og aðrir, sem áhuga og bagsmuna höfðu að gæta á málinu, hefðu sýnt því áhuga gátu þeir auðvitað komið öllum sínum aths. á framfæri. Það var annað mál. En þetta eru auðvitað nokkuð önnur vinnubrögð en þessir aðilar eru vanir frá Alþingi, og því má vera, að þeir telji sig vera einhverju sviptir í sínum viðskiptum við Alþ., alla vega við bv. sjútvn. Nd.

En það er auðvitað ekki ástæðan til þess að frv. okkar Friðjóns var samþ., heldur hitt, að hæstv. sjútvrh, hafði samið um það um áramótin í sambandi við lausn bátakjaradeilunnar, eins og formaður sjútvn. Nd. upplýsti mig, og aðra um, a.m.k. einn eða tvo aðra nm., og reyndar hefur verið staðfest annars staðar frá. Þetta var samningsatriði á milli hæstv. ráðh. og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, enda hefur það komið berlega í ljós hjá þeim aðilum, þegar þeir ræða um málið eftir á. Það er kannske þess vegna, sem málið er látið fara í gegn án þess, sem við flm. einmitt vildum fá fram, að fram færi skoðun málsins með það í huga, að heildartryggingamál sjómanna væru endurskoðuð, svo að heill þeirra og öryggi væri tryggt tryggingalega séð. Þar fyrir utan tel ég, að með samþykkt þessa frv. séum við einmitt búnir að ná þessu fram, og ég gleðst yfir því fyrir hönd íslenzkra fiskimanna og annarra sjómanna, að svo hafi til tekizt. Um þær breytingar, sem fram hafa komið, skal ég ræða síðar, en ætla að koma að öðru atriði áður.

Í framhaldi af frv. þessu fluttum við nokkuð margir þm. Sjálfstfl. frv. um líf- og örorkutryggingar sjómanna, sem voru byggðar á frjálsum grundvelli og áttu að vera á útboðsgrundvelli tryggingafélaga, um það, að til viðbótar við samningsbundna tryggingu kæmi trygging, sem yrði boðin út fyrir heildina, þ.e. allan fiskiskipastólinn, en iðgjaldið yrði hins vegar greitt af sameiginlegu aflafé þessara tveggja stétta, útvegsmanna og sjómanna, fyrst og fremst, og um leið þá þeirra aðila, sem hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við, að hér sé róið fiskiskipum á mið. Þar á ég auðvitað við fólkið bæði í frystihúsum og hinum ýmsu stöðum úti um land. Það er auðvitað alveg útilokað fyrir það fólk að láta þetta stóra atriði fara fram hjá sér, tryggingar þessara manna, hafandi það líka í huga, kannske fyrst og fremst nú í dag, að það fást ekki menn á skipin okkar, vegna þess að það er svo miklu betur boðið í þá í landi. Ef þeir verða fyrir bíl og bíða bana í landi, þá geta þeir eða ættingjar þeirra fengið allt að 6 millj. kr. fyrir skrokkinn á sér, en ef þeir eru til sjós fá þeir 750 þús. kr.

Áður en ég kem að brtt. hæstv. ráðh., vil ég aðeins draga fram eitt atriði til viðhótar, en það er út af þessu harmakveini útgerðarmanna í sambandi við tryggingamálið sjálft, og leyfi ég mér þá að henda á, að iðgjöldin fyrir tréð og járnið, sem er í skipunum, munu líklega nema hátt á fimmta hundrað millj. á s.l. ári, ef ekki meira. En fyrir skrokkana, karlana og konurnar, sem um borð í skipunum vinna, nema þau innan við 100 millj., þegar allt er tiltekið. Það er ekki nema eðlilegt, að bæði alþm., atvinnurekendur, útgerðarmenn og aðrir reki upp ramakvein, þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, að tréð og járnið er hægt að tryggja og kosta til iðgjalda upp á 500 millj. kr., en fyrir hið lifandi fólk, sem um borð er, má ekki eyða 100 millj. kr. Ég hefði álitið, að þessi hlutföll ættu frekar að snúast við. En það er saga, sem kemur á dagskrá síðar.

Hæstv. ráðh. bað um, að málinu yrði vísað til 3. umr., en ég sagði, að það væri rétt að ræða það hér og tók upp till. hans sem mína, ef hann ætlaði að draga hana algerlega til baka, sem ég veit, að hann gerir ekki. Ég veit, að hann er hreykinn af því að hafa flutt hana, og það verður staðið með honum að henni. Ég ætla að skýra nokkuð frá aðdraganda, að ég var kallaður til og skipaður af Sjómannasambandi Íslands til þess að taka þátt í umr. í þessari viðræðunefnd, sem hæstv. ráðh. beitti sér fyrir, að tæki til starfa. Ég skal staðfesta, að a.m.k. fram á síðasta snúning var algert samkomulag í viðræðunefndinni. Hins vegar, eins og ég hef skýrt frá, hefur einhver misskilningur orðið um það, að á þeim fundi, sem okkur var skýrt frá innihaldi frv., þá var ekki rætt um, að í því ákvæði þess efnis, að hinar samningsbundnu tryggingar mundu falla þar inn í. Hins vegar kom það fram á seinni fundi. Ég skýrði ráðh. síðar og ráðuneytisstjóra á fundinum frá því, að þetta hefði ekki verið minn skilningur, vegna þess að mér var falið að ræða við stjórnarmenn í Sjómannasambandi Íslands um þetta atriði og taldi eftir þau viðtöl, að þeir mundu ekki fella sig við þetta, án þess að einhverjar breytingar yrðu gerðar á því. Í framhaldi af þessu hefur komið inn nýtt atriði í brtt., sem hæstv, ráðh. Magnús Kjartansson flytur, þess efnis, að nú á að rjúfa gildandi kjarasamninga viðkomandi sjómannafélaga og atvinnurekenda um líf- og örorkutryggingar, þeir eiga að falla niður og þetta frv., ef að lögum verður, að koma í staðinn.

Nú vil ég taka það fram, að persónulega held ég, að vandamálið muni leysast í þessum höfuðlínum, og ég tek það fram, að ég er því fylgjandi, að það verði gert, og hef reyndar lýst því yfir áður. Ef við náum þarna fram skynsamlegum og mannsæmandi tryggingum fyrir þá menn, sem eru kannske í 60–70 sinnum meiri hættu en maður, sem er í atvinnu, sem telst hættulegur atvinnurekstur í landi, tel ég mig vel geta sagt það við mína félaga, að við skulum segja já við þessu. Hins vegar er bara sá hængur á, um leið og við rjúfum samningana, að þá er það auðvitað hlutverk hvers stéttarfélags fyrir sig að fjalla og ákveða þar um. Hins vegar er ég ekkert hræddur við það, ef við náum samstöðu innan stjórnar okkar heildarsamtaka, að mæla með einhverju skynsamlegu, sem gert verður til lausnar vandanum.

En í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum í sambandi við, að þarna er aðeins farið út yfir það, sem um var rætt á viðræðufundunum með ráðuneytisstjóra, hæstv. ráðh og fleiri góðum mönnum, sem þar voru, m.a. frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna o.fl., vil ég til þess að tryggja framgang málsins, leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við brtt. hæstv. ráðh., þess efnis, að dánarbæturnar hækki úr 1 millj. í 11/2 millj., og bendi þá á, að í samningsbundnum tryggingum þessara manna nú hafa þeir samkv. samningum 750 þús. kr. við dauða. Ég tel, þrátt fyrir mikið, sem þeir fá fram við samþykkt a-, b- og c liða þessarar till., og sérstaklega þó ekkjur, ekklar og börn, sem í hlut eiga, að til þess að málinu verði tryggður framgangur, ætti að breyta þessari upphæð úr 760 þús., sem er samningshundið í dag, ef það á að falla niður samkv. þessari till., og við hækkum þá upphæð í 11/2 millj. Ég held, að með samþykkt þeirra brtt. muni flestallir af forustumönnum sjó mannasamtakanna ekki aðeins taka undir og mæla með samþykkt, heldur og þakka hæstv. trmrh. fyrir forgöngu hans í því að leysa þetta vandamál.