19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

95. mál, almannatryggingar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að hafa um þetta örfá orð. — Hv. 10. þm. Reykv. tilkynnti áðan, að hann ætlaði að sneiða að mér sem formanni sjútvn. Nd. í þeim orðum, sem hann átti eftir að tala. Ég hlýddi eins nákvæmlega á orð hans og ég gat, en gat ekki fundið neina sneið, sem alvarleg gat talizt, nema þá kannske ef hann hefur átt við, að það væri mér að kenna, að þetta mál lá svo lengi fyrir sjútvn. í fyrra. Hann veit það fullt eins vel og ég og aðrir nm., að ég hafði fullan áhuga á því allan tímann, að þetta mál kæmist áfram. Það voru aðrir, sem settu fótinn fyrir, að þetta yrði afgreitt eins fljótt og ég hafði sjálfur haft hug á.

Hann minntist einnig á atriði, sem gæti kannske verið hægt að kenna mér um í þessu sambandi, og það var varðandi umsögn, sem senda átti eða samþ. var að senda Landssambandi ísl. útvegsmanna. Þetta frv. var sent allmörgum aðilum til umsagnar, eins og venja er til, þegar mál koma til n., og það var gert. En einhverra hluta vegna fór samt svo, að Landssambandið fékk ekki senda umsögn, og um það vissi ég ekki fyrr en miklu síðar og gekkst þá fyrir því, að það væri gert.

Hins vegar beld ég, að störf n. hefðu ekki þurft að tefjast svo ýkjalengi, þó að þessi umsögn hafi ekki legið fyrir, þrátt fyrir það að þessi samtök séu hin allra mikilvægustu og auðvitað góðra gjalda vert að hlusta á þeirra álit. Við gátum ósköp vel sagt okkur sjálfir fyrir fram, hvað þeir mundu segja. Þeir gátu búizt við mjög auknum útgjöldum varðandi þetta ákvæði í tryggingal., og við reiknum með því, að þeirra umsögn yrði neikvæð, sem og — varð. Það er auðvitað sjálfsögð kurteisi að leita umsagnar þessara aðila, eins og gert var, en því miður urðu þarna mistök, að einn aðili fékk ekki þetta mál sent til umsagnar á þeim tíma, sem aðrir fengu það. Það má kannske kenna mér um það, en það var vissulega ekki viljandi gert.

Álit útvegsmanna kom nú greinilega fram, þar sem þeir sögðu, að með þessari ábyrgðartryggingu gætu útvegsmenn alveg eins lagt skipum sínum. Ég var út af fyrir sig alveg sammála um, að það væri nauðsynlegt að leggja skipunum, en það var bara á dálítið öðrum forsendum. Ég held, að útgerðarmenn í þessu landi ættu ekki að vera að fikta við að gera út skip, ef þeir hafa ekki efni á því að tryggja sjómenn sína við vinnu eins og annað fólk. Það á ekki að liðast í þessu þjóðfélagi að líta á sjómenn sem 2. eða 3. flokks fólk.

Þegar talað var um þetta mál á síðasta þingi, bar á góma mál, þar sem kom í ljós, að sjómenn höfðu farið illa út úr málaferlum varðandi slys um borð í skipum, þegar svo stóð á, að engum var um að kenna. Eins og allir vita, geta við svo hættulegan atvinnurekstur eins og veiðar hér við Ísland eru, einkum að vetrarlagi, átt sér stað slys, án þess að hægt sé að kenna nokkrum um, hvorki yfirmönnum, útbúnaði né sjómanninum sjálfum.

Ég sá líka umsagnir ýmissa tryggingafélaga. Það var svo sem vitað mál, að þar yrði allt á eina bókina lært. Þær voru sem sagt allar á þá lund, að framkvæmdin við að tryggja sjómennina, sem afla fisksins úr sjónum, sem stendur undir þessu þjóðfélagi, yrði allt of dýr. Af slíkum reiknimeisturum tók ég ekkert mark, tek ekkert mark og mun aldrei taka neitt mark á slíkum mönnum. Slíkir menn hafa algerlega slitnað úr sambandi við lífið, sem þeir lifa í þessu landi. Álit eins tryggingafræðings vakti þó sérstaka athygli mína og var á þá lund, að ekki væri ástæða til að tryggja sjómenn á neinu hátt umfram aðra menn, jafnvel þótt hverjum einasta hugsandi manni sé ljóst, að um mun hættulegri atvinnuveg er að ræða heldur en aðra, nema þá kannske þessum skrifstofukomma, sem hér átti hlut að máli.

Farmanna- og fiskimannasambandið hefur lýst ánægju sinni yfir þessu máli, sem lagt hefur verið fram, og í trausti þess, að sjómenn hafi fengið þá bót, sem þeir áttu sannarlega rétt á, mun ég styðja þetta mál.