20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

131. mál, vegalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv, síðasti ræðumaður tók fram, að okkur hefur unnizt mjög naumur tími til að skoða þetta frv., og við í minni hl. höfum ekki haft tíma til að skila skrifl. nál. En það kemur fram af nál meiri hl. á þskj. 239, að við leggjum til, að frv. þetta verði fellt. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög mikið, en vil þó fara örfáum orðum um frv., eins og okkur hefur borizt það í hendur og eins og það liggur fyrir.

Það fer varla á milli mála, þegar frv. er skoðað, að samþykkt þess mun hafa í för með sér mjög miklar auknar álögur á bifreiðaeigendur og raunar alla landsmenn. Það er tekið fram í aths., að með frv. þessu sé stefnt að því að auka fjármagn til framkvæmda vegáætlunar og draga úr lántökuþörf vegna vegaframkvæmda. Að vissu leyti er þetta sjálfsagt rétt. En það hefði þó mátt ímynda sér, að með hinum gífurlega auknu og háu tekjum og gjöldum, sem runnið hafa eða verið innheimt til ríkissjóðs og lýsa sér bezt í stórhækkandi fjárl. frá ári til árs, hefði tekizt að klípa einhverja ögn af til þessara mála. En svo virðist nú ekki vera.

Ef við rennum augunum yfir frv., þá er í 1. gr. gert ráð fyrir Því að innheimta sérstakt innflutningsgjald af benzíni og skal gjaldið nema kr. 9.87 af hverjum lítra og tekið fram, að það taki einnig til benzínbirgða, sem til eru í landinu.

Í 2. gr. er talað um að innheimta sérstakt innflutningsgjald af hjólbörðum, notuðum og nýjum, gúmmíslöngum á bifreiðar og bifhjól, og skal gjaldið nema 45 kr. af hverju kg.

Í 3. gr. er svo um að ræða mikla hækkun á þungaskattinum, bæði af bifreiðum, sem nota benzín eða eldsneyti, og eins af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega út í Þær tölur, sem frv. nefnir í hinum ýmsu greinum. Það er svo, eins og við þekkjum bezt, sem höfum setið fundi hér á hv. þingi nú síðustu daga, að það eru allar tölur meira og minna á hverfanda hveli í hinni miklu óðaverðbólgu, sem nú geisar og ýtt er undir og kynnt undir af hálfu hæstv. ríkisstj.

Í 4. gr. þessa frv. hefur þó semjendum þess dottið það snjallræði í hug að minnka um helming endurgreiðslu á skatti, sem hingað til hefur verið heimilt að greiða til eigenda jeppabifreiða eða eins og þar stendur:

„Eigendur jeppabifreiða eiga rétt á endurgreiðslu á helmingi skatts samkv. a-eða b-liðum 87. gr., ef þeir sanna með vottorðum frá hlutaðeigandi skattstjóra eða umboðsmanni hans, samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, er fjmrh. setur, að bifreiðarnar hafi verið notaðar næstliðið ár að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðyrkjustörf.“

Í aths. við þessa gr. er tekið fram, að nú sé ætlunin að draga nokkuð úr heimildum til endurgreiðslu og undanþágu þungaskatts, og tekið fram, að ekki verði séð, að vegasjóður eigi samkv. tilgangi sínum að styðja fjárhagslega þá starfsemi, sem til grundvallar þessum undanþágum og endurgreiðslum hefur legið. Tekið er fram, að vagnar á spori muni engir vera til hér á landi, og eru það ekki mikil spádómsorð, og í öðru lagi, að diplómatar njóti þeirra réttinda samkv. exterritorialrétti, sem þeim nú eru veitt með 88. gr. vegal. Ég sé ekki betur en ætlunin sé með þessari 4, gr. frv. að fella úr gildi undanþágur eigi allfáar, sem hafa staðið í lögum undanfarin ár og er nú að finna í 88. gr. vegal. frá 1970. En þar er talað um, að undanþegnar gjaldi samkv. 87. gr., þ.e.a.s. undanþegnar þungaskatti, eins og þar er nánar tilgreint, séu m.a. skólabifreiðar, bifreiðar erlendra sendisveita og erlendra ræðismanna, ef þeir eru eigi íslenzkir ríkisborgarar, slökkvibifreiðar, sjúkrabifreiðar, snjóbifreiðar og vagnar, sem renna á spori. Og samkv. þessari gr. hafa eigendur jeppabifreiða enn fremur átt rétt á endurgreiðslu á þungaskatti að fullu samkv. 87. gr., ef þeir hafa sannað það með viðhlítandi vottorðum, eins og ég gat um áðan.

Ég vil vekja athygli á því, að þarna er um verulegar breytingar að ræða, og mættum við a.m.k., fulltrúar hins svokallaða dreifbýlis, líta ögn á þetta atriði, því að ég verð að segja það, að ég tel almennt séð, að við þurfum töluvert að gæta okkar, því að þrátt fyrir þær miklu og öru framfarir, sem hafa orðið í sveitum undanfarin ár, þá er það svo, að þegar á allt er litið, er það einhvern veginn þannig, að það hallar að ýmsu leyti meira og minna á dreifbýlið. Mættum við gjarnan vera þess minnugir og a.m.k. taka eftir, þegar till. eru gerðar um að skerða rétt þess fólks, sem við erum fulltrúar fyrir. Vænti ég þess og vona, að meiri hl. n. hafi einnig komið auga á þetta atriði. Það má segja, að allar svona undanþágur séu að vissu leyti umdeilanlegar. En hitt veit ég, að þeir, sem eitthvað hafa fengizt við rekstur bifreiða af þeirri gerð, sem ég nú las upp, muni finna fyrir því, ef þessum lið er skyndilega kippt út úr þeirra bókhaldi. Við höfum verið að fjalla í þessari sömu hv. n. undanfarna daga um styrki til snjóbifreiða til þess að létta fólki úti um landið að draga að sér nauðsynjar að vetrarlagi, leita læknis og annarra lífsnauðsynja. Og þetta setur strik í þann reikning líka. Ég leyfi mér að vekja alveg sérstaka athygli á þessu.

Hitt má svo segja almennt um þetta frv. og álit okkar á því, að við í minni hl. teljum, að það hafi þegar veríð gengið svo langt í skattálagningu á bifreiðanotkun og bifreiðakaup, að ekki sé verjandi að ganga öllu lengra í því efni. Við vitum það, og það hefur margoft verið tekið fram, m.a. í þessum umr., að bifreiðin er orðin svo mikilvægt þjónustutæki í þágu alls almennings í landinu, að við getum ekki látið slíkt sem vind um eyru þjóta. Við minnum á það, að ríkisstj. hefur nýlega hækkað innflutningsgjald af bifreiðum og sá skattur rennur beint í ríkissjóð, og auk þess munu bifreiðar hækka enn í stofnkostnaði vegna þeirrar gengislækkunar, sem nú er nýlega um garð gengin. Þannig má segja með fullum rétti, að umferðin gefi meiri og meiri tekjur í ríkissjóð og meiri tekjur en nokkru sinni fyrr. Að sjálfsögðu erum við allir sammála um, að bæta þurfi vegakerfi landsmanna, bæði þar sem margir bílar fara og eins úti um strjálbýlið. En þar sem svo miklar tekjur renna í ríkissjóð af bifreiðum og rekstri þeirra, bæði beint og óbeint, þá teljum við kominn tíma til þess, að ríkissjóður láti nokkuð til þessara mála renna og það ríflegan skerf beint úr sjóði sínum.

N. hafa borizt a.m.k. tvær umsagnir um þetta mál. sem ég ætla að leyfa mér að minnast örlítið á. Það verður að segjast eins og er, að ég hef ekki haft góðan tíma til að kryfja þessi mál til mergjar. En ég get ekki stillt mig um það, þó að kvöldið haldi náttúrlega áfram að líða, að vekja athygli á þessum tveimur umsögnum.

Annað er bréf frá Félagi sérleyfishafa, og þar er svo tekið til orða m.a., með leyfi hæstv. forseta, — þeir lýsa undrun sinni yfir því í upphafi bréfsins, að nú skuli enn gert ráð fyrir að hækka verulega þungaskatt samkv. km-gjaldi af sérleyfisbifreiðum og strætisvögnum og halda svo áfram: „Þessi afstaða okkar byggist ekki á því, að við teljum óeðlilegt, að slík starfsemi sé skattlögð í hliðstæðum mæli og svipaður atvinnurekstur, heldur af þeim ástæðum, að umræddur skattur af sérleyfisbifreiðum hefur hækkað á s.l. tveimur árum miklu meira en lagabreyting í des. 1970 gerði ráð fyrir. Ástæðan fyrir þessari umframhækkun, sem í mörgum tilvikum nemur tvöfalt því, sem gert var ráð fyrir, stafar af því, að þegar gjaldskrá fyrir disílbifreiðar, 5 tonn eða meira að eigin þyngd, var sett, sbr. auglýsingu samgrn. 1971, voru taxtar ákveðnir svo háir, að skattur varð í ósamræmi við þá lagasetningu, sem gaf þessu innheimtufyrirkomulagi gildi. Margsinnis hefur verið kvartað yfir þessu við samgrn., endurskoðun hefur verið lofað, en jafnframt haldið fram, að nægilega haldbærar skýrslur lægju ekki fyrir hjá Vegagerðinni, úr því mundi hins vegar rætast eftir næstu áramót. Í þessu sambandi skal tekið fram, að verðlagsyfirvöld hafa synjað um hækkun fargjalda í samræmi við aukinn rekstrarkostnað.“ Síðan ein setning eða svo: „Öllum mun kunnugt, í hve miklum rekstrarerfiðleikum ýmis sérleyfis- og strætisvagnafyrirtæki eiga nú, sem gleggst hefur komið fram í umr. um rekstur Strætisvagna Reykjavíkur. Samtímis aukast stöðugt kröfur um þjónustu.

Má í því sambandi nefna nýlega samþykkt bæjarstjórnar Húsavíkur, sem rædd hefur verið í dagblöðum, svo og mörg hliðstæð erindi.“

Ég læt þetta nægja um þetta bréf, en vík aðeins að bréfi frá Landfara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum. Ég les nú ekki nema aðeins stuttan hluta úr þessu bréfi rétt til að kynna það. Þar segir svo m.a.:

Stjfrv. það, sem nú liggur fyrir Alþ. um breytingar á vegal., gerir m.a. ráð fyrir 25% hækkun þungaskatts og gúmmígjalds og jafnframt því nýmæli, að þungaskatt skuli greiða af festi- og tengivögnum. Ef þetta frv, er svar hæstv. ráðh. við beiðni Landfara um endurskoðun þungaskattsinnheimtunnar, þá er auðsætt, að þeir vilja þá veigamiklu þjónustu, sem félagsmenn veita landsbyggðinni, feiga. Því er svo til orða tekið, að flm. frv. er fullkunnugt um þá erfiðleika, sem atvinnuvegur félagsmanna á nú við að etja. Rekstrarkostnaður vöruflutningabifreiða á langleiðum hefur hækkað gífurlega undanfarin tvö ár. Verðlagsyfirvöld hafa ekki sinnt kröfum bifreiðaeigendanna um sanngjarna hækkun flutningstaxta, og er því svo komið, að ef ekki verður skjótt gripið til þeirra úrræða að minnka opinberar álögur, þungaskatt, gúmmígjald, aðflutningsgjöld o.fl. á þessa aðila eða heimila sanngjarna taxtahækkun, þá mun ekki unnt að halda útgerð bifreiðanna lengur áfram. Það er von Landfara, að þér, hv. alþm., íhugið, hvílíka atlögu hér á að gera að hagsmunum landsbyggðarinnar og að þér reynið með breytingum á frv. eða öðrum ráðum að koma í veg fyrir samþykkt þess í núverandi mynd.“

Það mætti fara mörgum fleiri orðum um þetta frv., bæði um stærri atriði og smærri. Það er t.d. tekið hér fram, og það er kannske eðlilegt, að ríkisvaldíð teygi sig til að taka þungaskatt af festi- og tengivögnum, sem ekki hefur hingað til verið tekinn. En þess er getið í aths. við 3. gr. frv., að í gr. þessari sé heimilað „að ákveða, að gjalddagar þungaskatts af dísilbifreiðum megi vera allt að fjórir á ári í stað þriggja. Með lögum nr. 98 frá 1970 varð m.a. sú breyting á 87, gr. laga nr. 23 frá 1970, að gjalddögum þungaskatts samkv. ökumæli var fækkað úr fjórum í þrjá. Þykir rétt að færa þessa heimild í upprunalegt horf, enda gerir reglugerð um innheimtu bifreiðagjalda, nr. 94/1970, 5. gr., ráð fyrir 4 gjalddögum. „Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á vaxandi ákefð ríkisvaldsins og hæstv. ríkisstj. í að fjölga árlegum gjalddögum á ýmsum tekjustofnum, sem renna í ríkissjóð. Skyldi þetta benda til þess, að það sé yfirleitt tómahljóð í þeim stóra kassa? Við munum eftir því, að hér áður fyrr var söluskatturinn, sem er nú að sönnu mikill tekjustofn og mjög mikilvægur fyrir ríkið, innheimtur fjórum sinnum á ári. Síðan var þeim gjalddögum fjölgað, þannig að hann var innheimtur á tveggja mánaða fresti, og nú síðast er hann innheimtur mánaðarlega. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir því, hvað slík ákvæði auka fyrirhöfn og kostnað við innheimtuna og þar með óþægindi svo að segja allra annarra en kannske þeirra, sem eiga að taka á móti peningunum í kassann.

Það mætti nú kannske segja, að ég sé þegar búinn að fara nægilega mörgum orðum um þetta frv., en ég get ekki látið hjá líða að minna aðeins á það, þó að ég hafi ekki haft tíma til að kynna mér það í þingtíðindum, að ég man greinilega, að hæstv. fjmrh. hefur iðulega vakið máls á því á undanförnum árum í sambandi við umr. um fjárlög og annað, að það ætti að stefna að því, að gjöld af umferðinni, — af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra, — rynnu til þess að bæta vegakerfið í landinu. Ég man ekki neina tilvitnun um þetta efni orðrétta, en ef ég renni huganum aftur í tímann, þá er sem rödd hæstv. ráðh. suði mér fyrir eyrum einmitt í þessa átt, að það eigi að stefna að því að verja sem mestum tekjum af umferðinni beint í þágu vegamála og umferðarinnar sjálfrar. En eins og kom fram fyrr í þessum umr, í dag, mun vera svo nú, að ef litið er á þessar tekjur sem heild, þá renna líklega um það bil eða allt að 50% þeirra til vegamála. Þetta er að vísu lausleg tala, sem ég hygg, að sé þó ekki fjarri lagi, en hún sýnir þó, hvað hæstv. fjmrh. og ég ætla hæstv. ríkisstj. í heild á langt í land með að koma þessu hugsjónamáli sínu í framkvæmd.

Af því, sem hér að framan hefur lauslega verið rakið, má glöggt sjá, að hér er enn á ferð frv., sem boðar aukna skattpíningu og stórhækkandi álögur á þjóðfélagsborgarana. Mundu þó margir segja, að mælirinn hafi þegar verið fullur eftir gengislækkun og fjárlagaálögur, sem við höfum fjallað um þessa dagana. En það virðist ekkert hik vera á hæstv. ríkisstj. að leggja auknar álögur á þjóðina. Ég ítreka því, að minni hl. samgn., en þann milli hl. skipa ég og hv. 4. þm. Austf., leggur til. að frv. þetta verði fellt. En fari svo, að frv. verði samþ., eins og allt bendir til eftir þá órjúfandi samstöðu, sem við höfum orðið vitni að hjá hv. núv. stjórnarflokkum undanfarnar klukkustundir og dægur, þá viljum við leyfa okkur að leggja fram og lýsa hér með skriflegri brtt. Okkur hefur ekki unnizt tími til að láta prenta hana, en hún er á þessa leið:

Brtt. við frv. til laga um breyt. á vegal. nr. 23 16. apríl 1970, sbr. lög nr. 98 frá 28 des. 1970. Flm.: Friðjón Þórðarson, Sverrir Hermannsson.

Við 4. gr. Greinin falli niður.“