20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

131. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú auðséð á öllu, að það er alveg ákveðið að keyra þetta frv. í gegn hér í kvöld, hvaða rök sem færð eru fram gegn því. Ég mun þess vegna ekki verða langorður að þessu sinni eða fara að deila hart við hæstv. samgrh. að þessu sinni út af þessu máli.

Hæstv. ráðh. endurtók það, sem hann sagði hér fyrr í kvöld, að ef þetta frv. verður ekki samþ., þýðir það samdrátt í vegagerð á næsta ári. Þetta er dálítið einkennilegur málflutningur hjá hæstv. ráðh. Ég held, að ég verði að gera hlé á máli mínu, þangað til hæstv. ráðh. kemur inn aftur, því að það er hann sem ég ætla að tala við. Ég vona, að forseti telji það eðlilegt. (Forseti: Já, ég vænti þess, að það verði ekki löng stund.) — Ég vildi nú mælast til þess, að hæstv. forseti athugaði, hvort hæstv. ráðh. hefur aðeins skroppið fram. Slíkt getur alltaf skeð, að það sé óhjákvæmilegt. — Ég taldi eðlilegt að hafa hlé á máli mínu, meðan ráðh. var úti. Ég vildi segja, að það er undrunarefni, að hæstv. ráðh. boðar, að hæstv. ríkisstj. ætli ekki að standa við vegáætlun, sem samþ. var á s.l. vori, ef hún getur ekki aflað fjár með þessum hætti. Það var þó ekki á s.l. vori, þegar gengið var frá vegáætluninni, gengið út frá því, að fjár yrði aflað á þennan hátt. (Gripið fram í.) Þegar vegáætlunin var afgreidd, var ekki minnzt á hækkun á benzíni vegna vegáætlunarinnar, ekki minnzt á hækkun á þungaskatti vegna vegáætlunarinnar. Þá var gengið út frá því, að hæstv. ríkisstj. aflaði fjár með lántökum og framlagi úr ríkissjóði. En hæstv. ríkisstj. hefur guggnað á því, og hæstv. ráðh. er hér með hótanir, sem mér finnst óviðeigandi. Það er óviðeigandi að vera með hótanir hér í hv. Alþ. og segja við þm.: Ef þið samþykkið þetta ekki, þá bara drögum við úr framkvæmdum, sem Alþ. hefur áður samþ. á lögmætan hátt. — Þetta er ekki viðeigandi og ég vil benda hæst. ráðh. á það. (Félmrh.: Þetta eru engar hótanir.) Jæja, það er gott, en ég hef bara fyrir mér orð hæstv. ráðh. (Félmrh.: Vertu ekki að afbaka þau.) Afbaka þau, nei, það vil ég ekki gera. Ég vil ekki afbaka þau. En hæstv. ráðh. sagði áðan: Þeir, sem vilja ekki samdrátt í framkvæmdum, samþykkja þetta frv. (Félmrh.: Vegna þess að það þarf fleiri krónur nú en þá var reiknað með.) Já, ég hef enga löngun til að afbaka orð hæstv. ráðh. Ég hef enga löngun til þess að hefja illdeilur við hæstv. ráðh., en ég er aðeins að tala um málið á þeim forsendum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið tilefni til. Hvort það þyki ástæða til að tala um, að það séu hótanir, þegar sagt er, að það verði samdráttur í framkvæmdum, ef þessi leið verður ekki farin til fjáröflunar, — menn geta metið það hver fyrir sig, hv. þm., hvað þetta þýðir. Ef það þykir óviðeigandi að kalla þetta hótanir, þá skiptir það ekki miklu máli. En hv. alþm. skilja alveg mælt mál. (Félmrh.: Það ættu þeir að gera.) Það er enginn vafi á því, þeir gera það.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði borið fram oft og tíðum frv. lík þessu. Það er nú eftir því, hvernig á það er litið, hvort þau frv. hafa verið lík þessu. Ég held, að það hafi verið við allt aðrar aðstæður. Þau tekjuöflunarfrv., sem ég bar fram fyrir vegasjóð, voru ævinlega gerð í sambandi við gerð vegáætlunar eða endurskoðun vegáætlunar. Nú er ekki um það að ræða, hvorki gerð vegáætlunar né endurskoðun vegáætlunar. Þetta frv. er borið fram aðeins nokkrum mánuðum eftir að gengið hefur verið frá vegáætlun.

Í öðru lagi, svo að vitnað sé til þess, þegar síðast var hækkað benzín og þungaskattur, þá hafði rétt áður verið stórlækkað innkaupsverð á bifreiðum með því að fella niður skatta og ýmis gjöld, sem á bifreiðunum hvíldu. Og ég hygg, að það hafi verið þess vegna, sem hv. Alþ. sameinaðist um að hækka benzínið 1970 og hækka þungaskattinn, m.a. vegna þess, að ýmsum gjöldum af bifreiðum hafði áður verið af létt.

Dýrtíðin hefur magnazt s.l. tvö ár, segir hæstv. ráðh., og það er alveg rétt, hún hefur magnazt. En kostnaður við útgerð bifreiðanna hefur hækkað, enda þótt ekki væri nú komið með þennan skatt, og þá ekki sízt vegna þeirrar gengislækkunar, sem núna er verið að boða, og vegna verðhækkana á innfluttum varahlutum til bifreiða, og síðast, en ekki sízt vegna þeirra skatta, sem lagðir voru á bifreiðar á s.l. vori af núv. hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að benzín hafi verið undanfarið nokkru lægra hér en í nágrannalöndunum. Þar munar ekki miklu, en það var þó aðeins lægra en í ýmsum löndum. Nú fer benzínið upp í 20 kr. eða nákvæmlega reiknað 19.87 kr., eftir því sem upp er gefið og gæti fljótlega farið upp í 20 kr. Það er matsatriði, hvað sölulaunin verða hækkuð. Og þá er benzínverð orðið hærra en í flestum nágrannalöndunum. Ég hef hér lista yfir benzínverð í nágrannalöndunum, en það er miðað við gengi 13. des., og þess vegna má hækka þetta verð um gengislækkunina eða nálægt 11%. Ef við tökum Danmörk, þá munar ekki miklu eftir hækkunina, ef við bætum 11% við. Það var með gamla genginu 17.30 kr. Finnland 15.70 kr., það verður allmiklu lægra, Írland 14.60 kr., Vestur-Þýzkaland 15.80 kr., Bretland 15.10 kr., Sviss 15.80 kr. Það verður a.m.k. 2 kr. lægra benzínverð í þessum löndum heldur en hjá okkur eftir þessa hækkun. Það var sagt hérna, þegar við hækkuðum þungaskatt og benzín síðast, að benzínverðið þyrfti að vera lægra hér en í nágrannalöndunum, vegna þess að við hefðum enn ekki eins góða vegi og kostnaðarverð bifreiða væri miklu hærra, vegna þess að þær væru hærra tollaðar hér en þar. Þetta var sagt, eftir að skattarnir höfðu verið felldir niður 1970, og þetta má miklu frekar segja nú, eftir að nýjir skattar hafa verið lagðir á innkaupsverð bifreiða af núv. hæstv. ríkisstj.

Ég sagði áðan, að flutningur svona frv. bryti jafnvel í bága við vegal., ef bókstaflega væri á það litið. En örugglega brýtur það í bága við anda l., vegna þess að það er ætlazt til, að tekjuöflun til vegáætlunar sé ákveðin í vegáætluninni. Það var ákveðið í vegáætluninni á s.l. vori að fara ekki þessa leið, því að það var aldrei á hana minnzt.

Lán til vegagerða höfum við tekið. Við höfum tekið erlend lán til hraðbrauta, og við höfum farið þar sömu leið og fjölmennari þjóðir hafa gert, eins og Finnar og Norðmenn og sjálfsagt margar fleiri þjóðir. Þetta hljótum við að gera áfram. Alþjóðabankinn lánar til vegagerðar, þó ekki yfir 40–50% af vegagerðarkostnaði. Þetta hljótum við að gera áfram, og þessara 230 millj. kr., sem ætlað er, að þetta frv. gefi, hefði ríkisstj. átt að geta aflað innanlands, vegna þess að ég ætla, að þessar fjárhæðir, sem hér er um að ræða, fari aðallega í Norðurlands- og Austurlandsáætlunina, sem ekki eru hraðbrautir.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að ég ætti að hætta að vera með harmagrát fyrir hönd bænda og bændur væru ekkert þakklátir fyrir, að það væri verið að sníkja ölmusu fyrir þá, eins og hæstv. ráðh. gaf í skyn. Það hef ég ekki gert, og ég hef ekki heldur grátið fyrir hönd bænda, en ég hef hins vegar talað þeirra máli. Ég held því eindregið fram, að af notkun jeppabifreiða í sveitum, þar sem strjálbýli er og vegalengdir miklar milli bæja, eins og raun ber vitni, þar sem jeppinn er mikið notaður við framleiðslustörf og jafnvel jarðyrkju, þá sé ekki eðlilegt að greiða skatt af jeppanum við þær aðstæður. En það er fleira í 4. gr. en jeppaskatturinn. Það eru skólabifreiðarnar, sem ég hljóp nú reyndar yfir í minni fyrri ræðu, — það eru skólabifreiðar og slökkvibifreiðar, sjúkrabifreiðar og önnur tæki, sem hingað til hafa verið skattfrjáls, en nú á að skattleggja. Og ég tek undir það með hv. frsm. minni hl., að þetta er íhugunarefni og þetta er ekki réttlátt.

Hæstv. ráðh. talar um, að það sé n, að athuga, hvernig eigi með flutningana að fara, flutninga á sjó og flutninga á landi. Það hagar þannig til í mörgum byggðarlögum, að sjóflutningum verður tæplega komið við í mörgum tilfellum. Það verður að flytja þungavörur á landi kannske 100, 200–300 km vegna hafnleysis. Þar verða landflutningar ákaflega dýrir. Þegar talað er um jöfnun á flutningskostnaði, eins og hér hefur verið gert í hv. Alþ., og till. eru um að koma því í verk, þá hygg ég, að það þurfi að endurgreiða ýmsum þeim, sem flytja með bifreiðum nauðsynjavörur langa leið, svo að hundruðum km skiptir.

Vegna þess að hæstv. ráðh. var í flestum greinum í ræðu sinni hógvær og af því að ákveðið er, að þetta frv. eigi fram að ganga, hvað sem tautar, þá tel ég ekki mikla ástæðu til að orðlengja þetta meira. Hæstv. ráðh. hnykkti við, þegar ég talaði um, að í orðum hans hefðu falizt hótanir, og vildi alls ekki samþykkja það. En hæstv. ráðh. sagði: Þeir, sem greiða atkv. á móti þessu frv., vilja ekki, að framkvæmdirnar allar samkv. vegáætlun verði gerðar, heldur að það verði samdráttur í framkvæmdum. Stjórnarliðið hv. virðist vera alveg á einu máli og neglt saman í þessum atriðum, m.a. því að afnema undanþágurnar af skólabílum, af jeppum að hálfu leyti, snjóbílum, slökkvibílum og lögreglubílum, ég man ekki, hvort það er fleira, — og gera ráðstafanir til þess, að benzínverð verði nú hærra en í flestum nágrannalöndum okkar, og gera ráðstafanir til þess að hækka skatta á umferðinni langt umfram það, sem verjandi er.