20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

131. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl. ræddi hér dálítið um benzínverð í nágrannalöndunum, og niðurstaða hans í þeim samanburði var sú, að við stefndum að því með þessu frv., að benzínverð hér yrði hærra en í þessum löndum. Ég er nú með þessar tölur líka fyrir framan mig og miðað við gamla gengið, því að þetta mundi raskast mjög líkt, — ég miða bara við hækkun frv., sem mundi verða sennilega eitthvað um 2.33 kr. eða innan við 2.40 kr., þá mundi benzínverðið hér verða 18.40 kr. (Gripið fram í: Verður það það?) Já, það mundi verða það miðað við gamla gengið, miðað við frv., og þá eru þær tölur, sem hv. þm. var að lesa upp, sambærilegar, því að þær eru líka allar miðaðar við gamla gengið. Benzínverðið t. d. í Noregi var í febrúarmánuði s.l. 19.20 kr., Svíþjóð 18.60 kr., í Belgíu 18.30 kr., í Frakklandi 19.20 kr., og sambærilegt verð hjá okkur, miðað við áhrif þessa frv. einvörðungu, væri innan við 18.40 kr. Ég vil koma þessari leiðréttingu hér á framfæri.

Ég er alveg sammála hæstv. samgrh. um það, að við verðum auðvitað að halda áfram vegaframkvæmdum og það er dálítið einkennilegur málflutningur hjá hv. stjórnarandstæðingum, sem deila á miklar lántökur í öðru orðinu, en deila svo í hinu orðinu á það, að við skulum ekki vilja taka lán til vegaframkvæmdanna. Þetta vill rekast á. Hitt er svo annað mál, að það er rétt, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að miðað við þær verðhækkanir, sem nú blasa við á erlendum mörkuðum, vegna þess að flutningsgjald hækkar, er líklegt, eins og nú horfir, að benzínverð hér verði tæpar 20 kr. En þessar hækkanir hljóta líka að koma á það verð, sem við báðir höfum verið að lesa hér upp, þannig að við verðum að vera með sæmilegar tölur, þegar við erum að bera þær saman, en ekki allt annan grundvöll í það og það sinn.

Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, er ég hins vegar engan veginn ánægður með 4. og 5. gr. Ég tók það fram, að af því að ég er sammála hæstv. samgrh. um, að þetta frv. verði að samþykkja nú fyrir jólin, þá verði að taka upp þessar gr. og athuga þær. Ég er ekki sammála honum um það t.d., að það geti verið, að vöruflutningar út á land með bifreiðum séu ekki jafnnauðsynlegir og flutningar bæði með skipum og flugvélum. Ég er hræddur um, að þeim mundi bregða við á Vestfjörðum, ef allt í einu væru teknir af þeim vöruflutningar með bílum, og aðstöðumunur þessa fólks, sem er úti á landsbyggðinni, vex, eftir því sem þessi flutningskostnaður er meiri, og ég veit, að hæstv. ráðh. er mér sammála, að það á að minnka þennan aðstöðumun með einhverjum hætti. Ég t.d. álít, að það hafi ekki verið nógu vel athugað um snjóbifreiðar og aðrar bifreiðar þarna, sem nú virðist eiga að láta borga þungaskatt af. Ég held ekki, að það sé meiningin, heldur þurfi að athuga þetta. Ég held líka, að þeir, sem hafa jeppabifreiðar, hafi yfirleitt margir hverjir langtum minni þjónustu frá hinu opinbera í sambandi við vegamál. langtum minni t.d. í sambandi við snjómokstur. Þeir búa við verri vegi, og það er höfuðástæðan fyrir því, ásamt því, að þeir nota þessa bila við bústörfin, — það er sú hugsun, sem hefur legið á bak við, að þeir þurfa ekki að borga þessi gjöld. Þeir hafa minni þjónustu frá hinu opinbera, og það er meiri tilkostnaður fyrir þá einmitt vegna þess, hvernig þeir eru settir. Ég geri mér vonir um það, að þetta verði allt athugað síðar, og í þessari trú mun ég greiða fyrir því, að þetta frv. verði samþ. nú óbreytt, vegna þess að ef samþ. verða brtt., þá er hætt við því, að málið nái ekki fram að ganga nú fyrir jólin.