21.12.1972
Efri deild: 43. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

137. mál, kaupgreiðsluvísitala

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal fyrst taka það fram, að það er hvort tveggja vilyrði og loforð af hálfu míns flokks að standa ekki í vegi fyrir því, að þetta frv. nál fram að ganga nú á síðasta degi þingsins fyrir jólahlé. Í því vilyrði og loforði felst hins vegar ekki afstaða með þessu frv., heldur er það ákvörðun okkar, að við munum ekki taka afstöðu til þessa frv. Mér skilst, að það hafi verið talið nauðsynlegt af forsvarsmönnum kauplagsnefndar að fá slíka lagaheimild til þess að ákveða nýja kaupgjaldsvísitölu nú 1. jan. Ég hef ekki haft tíma til þess að kanna, hvort það hefur við rök að styðjast eða ekki, enda skiptir það ekki höfuðmáli, öðru en því, að við eyðum nokkrum tíma hér í kvöld að fjalla um þetta frv.

Ég ætla mér ekki að fara út í svo flókið mál sem útreikningur kaupgreiðsluvísitölu er og hlýtur að vera, en ég get þó ekki stillt mig um að lýsa þeirri skoðun minni, að vísu ef ekki að lítt athuguðu máli, þá a.m.k. að athuguðu máli í mjög stuttan tíma, að hafi vöruverð landbúnaðarvöru verið greitt niður sem svarar einu kaupgreiðsluvísitölustigi og því verði haldið áfram, en annað sé óbreytt frá því, sem nú er, þá muni kaup launþega eiga rétt á 11/2 kaupgjaldsstigi eða hækkun, sem því svarar. Það má vel vera, að hér sé um svo flóknar reglur að ræða, að útreikningar segi fyrir um annað. Það er kauplagsnefndar að segja til um það, og við væntum þess, að svo sé um hnútana búið, að með eðlilegum hætti verði frá þessu máli gengið. En því tek ég þetta fram, að mér finnst flutningur þessa frv. á síðasta degi þingsins bera vitni um þau slæmu vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur, að því er snertir ráðstafanir varðandi efnahagsvandann. Ég beindi sérstakri fsp. fyrir 2—3 dögum til hæstv. ríkisstj, um, hvernig yrði farið með greiðslu 21/2 kaupgjaldsvísitölustigs nú 1. jan, n.k. Ég veit, að flokksbræður mínir í Nd. báru fram sömu fsp. Í hvorugri d. var þessi fsp. svarað. Þetta er slíkt meginmál við lausn efnahagsvanda og ráðstafanir, að ég hefði talið, að ábyrg ríkisstj. hefði e.t.v. fyrst af öllu átt að gera sér grein fyrir, hvernig því máli reiddi af.

Ég skal ekki lengja tímann og efna til deilna á þessu stigi málsins, en tel mig hafa gert grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna til málsins.