29.01.1973
Efri deild: 47. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

120. mál, meðferð opinberra mála

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um meðferð opinberra mála og hefur að geyma nokkrar lagfæringar á núgildandi ákvæðum, einkum þeim ákvæðum, þar sem vísað er til verðlags. Lög um meðferð opinberra mála eru að stofni til frá árinu 1951, er sett voru í fyrsta sinn heildarlög um meðferð opinberra mála. Þau lög hafa að stofni til að mestu staðið óbreytt síðan, ef frá eru skildar þær breytingar, sem leiddi af stofnun sjálfstæðs embættis saksóknara ríkisins á árinu 1961. Á þessum tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar verðlagsbreytingar orðið. Eru af þessum sökum úrelt orðin ýmis þau ákvæði l., sem vísa til verðlags. Ef miðað er við verðlagsbreytingar frá 1. júlí 1951, til þessa dags, hefur vísitala framfærslukostnaðar 5.4– faldazt, vísitala vöru og þjónustu 7.8-faldazt og vísitala byggingarkostnaðar 9.6-faldazt, lágmarkstímakaup hjá Dagsbrún 10.6-faldazt. Árið 1966 var breytt ákvæði 112. gr. l. um sektarvald lögreglumanna og Iögreglustjórum veitt sektarheimild með sérstökum hætti. Frá þeim tíma hefur vísitala framfærslukostnaðar og vísitala vöru og þjónustu tvöfaldazt, vísitala byggingarkostnaðar 2.4-faldazt og lágmarkskaup Dagsbrúnarmanna þrefaldazt. Þegar þessar tölur eru virtar, þykir tímabært að leggja til hækkun á þeim ákvæðum l., sem vísa til verðlags.

Í 13. gr. frv. er lagt til, að heimild Lögreglustjóra til að ljúka málum með sektargerð verði hækkuð úr 5 þús. kr. í 10 þús. kr. Er þar um að ræða sömu fjárhæð og tollyfirvöld hafa þegar til að ljúka málum með sektargerð. Sektargerðir þessar hafa gefið mjög góða raun, og þær hafa létt verulega álagi af dómstólum. Við Lögreglustjóraembættið í Reykjavík voru á síðasta ári afgreidd með þessum hætti 4668 sektargerðarbréf vegna almennra umferðarlagabrota og að auki 13 300 bréf vegna stöðumælamála, þar sem aðili hafði ekki greitt aukaleigugjald. Tilgangurinn með sektarheimild þessari var annars vegar sá að opna möguleika til að afgr. mál á einfaldan hátt, án þess þó að réttur sakbornings væri á nokkurn hátt fyrir borð borinn, enda getur hann ætíð óskað eftir því, að málið verði borið undir dómara, hins vegar léttir þetta miklu álagi af dómstólunum, og ríður á miklu, að þau mál, sem þangað fara, fái skjóta meðferð og þeir, sem að óþörfu ómaka dómstólana, fái hæfilega viðbótarrefsingu.

Eins og áður segir, er lagt til, að sektarheimild lögreglustjóra verði hækkuð í 10 þús. kr., og virðist koma til athugunar, og ég bið n. að athuga það, hvort ekki ætti að hækka þessa heimild enn frekar.

Náskyld heimild lögreglustjóra er heimild lögreglumanna til að ljúka málum með sektarboði. Er sú heimild miðuð við 1000 kr., og er lagt til. að hún verði hækkuð í 3000 kr. Notkun þessarar heimildar hefur frekar farið minnkandi eftir tilkomu sektarheimildar lögreglustjóra.

Loks er, að því er varðar 112. gr. l., lagt til að hækkuð verði fjárhæð sú, sem staðið hefur óbreytt frá 1951, þar sem er heimild fyrir dómara til að ákveða með bókun um eignarupptöku, ef sökunautur finnst ekki eða er ókunnugur. Er lagt til, að verðmætisviðmiðun hækki úr 3 þús. kr. í 30 000 kr.

Svipuðu máli gegnir um breyt. á 113. gr. l. samkv. 14. gr. frv., þar sem lagt er til, að hækkuð verði sektarfjárhæð, sem er skilyrði fyrir því, að dómari höfði mál af sjálfsdáðum á hendur sökunauti, sem ekki hefur komið fyrir dóm. Fátítt mun nú vera, að þessari heimild sé beitt.

Til að framkvæma ýmsar gerðir við rannsókn mála, svo sem hald á munum, leit í húsum og handtöku, er m.a. skilyrði, að brot geti varðað a.m.k. 20 000 kr. sektir. Í 5.–9. gr. frv. er lagt til, að þessi fjárhæð, sem staðið hefur óbreytt frá 1961, verði 5-földuð. Verður ekki talið, að rétti sakbornings sé hallað með þessari breytingu. Miklu frekar er hætta á, að þröngir refsirammar í ýmsum sérlögum geti takmarkað beitingu ákvæðisins eftir breytinguna, en tímahært er orðið að endurskoða slík sektarákvæði í ljósi verðlagsbreytinga, svo sem hið almenna sektarákvæði hegningarlaga. Hefur hegningarlaganefnd haft þetta atriði til athugunar.

Um breyt. í 10. gr. gildir hið sama. þar er um er að ræða fimmföldun.

Í 20. gr. frv. er lagt til, að tilgreind lágmarkssekt og lágmarksfjárhæð á upptækum verðmætum að 5000 kr. verði tífölduð í tilvikum, þar sem saksóknara er skylt að áfrýja dómi eftir kröfu ákærða. Eftir sem áður er saksóknara heimilt að áfrýja dómi, þótt þessu atriði sé ekki fullnægt, ef sérstakar ástæður eru til, sbr. töluliði 1. málsgr. 175. gr. laganna.

Í 17., 18., 19., 23. og 24. gr. frv. er lagt til, að ákvörðun um hámark og lágmark réttarfarssekta verði felld niður. Hér er um að ræða lágar fjárhæðir, sem rétt hefði verið að hækka. Hins vegar þykir eðlilegra eftir atvikum að fella þessi ákvæði niður, þannig að dómsstólar hafi frjálst mat við ákvörðun þessara sekta. Er þessi breyting í samræmi við breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði, sem gerð var árið 1963.

Í 22. gr. frv. er loks lagt til, að tekin verði upp heimild fyrir saksóknara til að fela fulltrúa sínum sókn mála fyrir hæstarétti. Samkvæmt 127. gr. l. flytur saksóknarinn nú sjálfur öll mál fyrir hæstarétti. Fjöldi mála fyrir hæstarétti hefur aukizt nokkuð að undanförnu svo og umsvif saksóknaraembættisins sjálfs. Þykir ekki ástæða að binda þetta atriði lengur við saksóknarann einan, enda starfandi við embættið fulltrúar, sem eru vel hæfir til þessa. Hins vegar þykir rétt að tryggja í löggjöf hæfni þeirra, sem til þessa veljast, og er því lagt til, að fulltrúi, sem falið verður slíkt starf fyrir hæstarétti, uppfylli sömu skilyrði sem þarf til skipunar í embætti saksóknara, enda ber fulltrúi þá allar skyldur saksóknarans.

Frv. þetta krefst, held ég, ekki frekari skýringa. En rétt er að taka það fram, að frv. felur ekki í sér neina allsherjarendurskoðun laga um meðferð opinberra mála, en fyrir nokkru var, eins og ég hygg, að hv. þm. hafi verið skýrt frá, skipuð n. til að vinna að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar. Hennar bíða mörg verkefni, og eitt er á sviði opinbera réttarfarsins. Sú endurskoðun á ekki að þurfa að standa í vegi fyrir afgreiðslu þessa lagafrv.

Ég leyfi mér svo, herra forseti að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.