31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

130. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er lagt fyrir hæstv. Alþ., felur í sér breytingu á einni gr., 14. gr., skólakostnaðarlaga, nr. 49 frá 1967. Þegar þau lög voru sett, var þar tekið upp ákvæði um í hæsta lagi þriggja ára greiðslutímabil á framlögum ríkisins til skólamannvirkja, sem byggð eru í sameiningu af ríki og sveitarfélögum. Ég þarf ekki að rekja það, að í sjálfu sér hefur það mikla kosti, að byggingartími slíkra mannvirkja geti orðið sem skemmstur, að þau komi í fullt gagn sem fyrst, eftir að byggingarframkvæmdir hefjast. Áður en lögin um skólakostnað frá 1967 gengu í gildi, hafði verið í lögum 5 ára regla um framlög ríkis til slíkra skólabygginga, en í reynd hafði ríkisframlagið oftast nær dreifzt á 8 ár, svo að hér er um gífurlega styttingu framkvæmdartíma að ræða.

Raunin varð sú þegar á fyrsta ári, að þetta skref, sem menn hugðu stíga með setningu ákvæðisins í 14. gr. skólakostnaðarlaga, var of stórt. Þegar á árinu 1968 voru gefin út brbl., nr. 90, þar sem kveðið var á um 4 ára greiðslutímabils framlög á árinu 1969. Síðan hefur raunin orðið sú, að þessari 4 ára reglu hefur ætíð verið fylgt í reynd, þrátt fyrir ákvæðið í 14. gr. skólakostnaðarl., svo að ákvæðið þar um þriggja ára greiðslutímabil hefur verið frá upphafi dauður bókstafur.

Eins og ég sagði, væri ýmislegt unnið við það að geta framfylgt þessu 3 ára ákvæði. En að fenginni reynslu virðist mér, að það sé borin von, að svo geti orðið, fyrr en þá svo væri komið, að fyrir lægi umfangsmikil áætlun um skólabyggingar, sem tæki yfir landið allt, svo að séð væri, í hvaða röð framkvæmdir kæmu samkvæmt slíkri 3 ára reglu. Því hefur það orðið niðurstaðan, að það séu heilbrigðust vinnubrögð að nema úr gildi það ákvæði, sem óframkvæmanlegt hefur reynzt, og laga þetta ákvæði skólakostnaðarlaganna að því, er reynzt hefur geta og vilji Alþ. um fjárveitingar.

Einnig er í frv. þessu um aðra breytingu að ræða á þeirri málsgr. 14. gr., sem frv. tekur til, sem sé að þar er skýrt tekið fram, að undanþegin þessari 4 ára reglu eru framlög til undirbúnings byggingarframkvæmda, þau framlög, sem þarf til sérfræðilegs undirbúnings, áður en raunverulegar byggingarframkvæmdir gefa hafizt.

Í 2. gr. er ákvæði til bráðabirgða. Þar er kveðið svo á, að fjárveitingum til skólamannvirkja, sem eftir framkvæmd gildandi laga, þ.e.a.s. samkvæmt þeirri 4 ára reglu, sem stuðzt hefur verið við í framkvæmd, áttu að hljóta lokaframlag á fjárl. 1973, megi skipta á árin 1973 og 1974. Þetta þýðir, að fjárveiting dreifist hvað nokkrar skólabyggingar varðar á 5 ár. Þetta ákvæði stafar af alveg sérstökum ástæðum. Við undirbúning fjárl. fyrir árið 1973 kom í ljós, að á lokastigi framkvæmda eru óvenjumargar stórar og fjárfrekar skólabyggingar, og hefði þar átt að fylgja 4 ára framkvæmdartíma, hefðu einhverjar af þeim byggingum orðið algjörlega útundan. Niðurstaðan varð, að æskilegast væri, að við þessi skilyrði, sem nú ríkja, yrði veitt heimild til að dreifa fjárveitingu til nokkurra skóla á 5 ár. En þetta bráðabirgðaákvæði á aðeins við árið í ár og hið næsta.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.