05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þeim umr., sem hér hafa átt sér stað, taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég tel, að sú fréttaskýring, sem flutt var af hv. alþm. Gunnari Thoroddsen í sjónvarp og útvarp, hafi verið í mesta máta óviðeigandi og beri að mótmæla slíkri fréttaskýringu, því að það er ekkert um að villast, að eins og hún var sett fram, var hún í fullkominni andstöðu við yfirlýsta stefnu Íslendinga í landhelgismálinu. Eins og Gunnar Thoroddsen setti fram sína skýringu í sjónvarpi og útvarpi, fór ekki á milli mála, að það var helzt á henni að skilja, að við Íslendingar værum skuldbundnir til þess að hlíta niðurstöðum dómstólsins í Haag vegna þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum. Þessi skýring er auðvitað alveg fráleit og stenzt ekki þær lagagreinar, sem hér er raunverulega byggt á. Því aðeins á þetta við, að þjóð hafi viðurkennt aðild sína að tilteltnu máli fyrir dómstólnum, þá sé hún á eftir skuldbundin að hlíta niðurstöðum dómstólsins. En hér er ekki um það að ræða. Hv. alþm. Gunnar Thoroddsen vissi mætavel, að afstaða Íslendinga í þessu máli var sú, að við viðurkenndum ekki, að dómstóllinn hefði rétt til þess að fjalla um þetta mál skuldbindandi fyrir okkur, og það átti vitanlega að koma fram í fréttaskýringu um málið. En hv. þm, hafði annan hátt á. Þessu ber auðvitað að mótmæla.

Það vita allir, að Bretar hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að reyna að draga okkur fyrir Haagdómstólinn í þessu máli á grundvelli landhelgissamninganna frá 1981 og vilja halda þeim samningum að okkur. Við höfum hins vegar sagt upp þeim samningum, og þar sem við teljum, að þeir samningar séu ekki í gildi, viðurkennum við ekki, að dómstóllinn geti fjallað um málið. Það hefur engri þjóð, ekki Bretum heldur, dottið í hug að kalla aðrar þjóðir fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag, þó að þær hafi fært sína fiskveiðilandhelgi út fyrir 12 mílur. Það er eingöngu á grundvelli samningsins frá 1961, sem Bretar reyna þetta við okkur. Þeir halda því fram, að þessir samningar séu enn í gildi og í krafti þeirra sé hægt að láta dómstólinn fjalla um málið. En afstaða okkar í þessum efnum er skýr. Við teljum okkur hafa sagt upp samningnum á löglegan hátt og af því geti dómstóllinn ekki fjallað um málið.

Hér hefur verið sagt, m.a. af hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, að í tilefni af þeirri niðurstöðu dómstólsins, að hann hafi lögsögu í þessu máli, ættum við nú að fara að ráðgast við aðrar þjóðir, sem svipað væri ástatt um og okkur að hafa stærri landhelgi en sem nemur 12 mílum. Að sjálfsögðu höfum við um langan tíma haft samband við þessar þjóðir. En það er enginn vafi á því, að þær munu allar líta svo á, að það mál, sem Bretar efna nú til fyrir Haagdómstólnum gegn okkur, snúist eingöngu um það, hvort Íslendingar séu bundnir af samningum, sem þeir gerðu árið 1961. Því er það, að ef við viðurkenndum, að þeir samningar væru í gildi, væru allar líkur til, eins og þessi dómstóll hefur haldið á málinu, að unnt væri í krafti þeirra samninga að stöðva okkar landhelgisútfærslu, þó að dómstóllinn hefði ekki með því nein áhrif á útfærslu annarra þjóða. Þetta mál snýst því í rauninni um það, hvort við eigum að gefa kost á því, að samningarnir við Breta og Þjóðverja frá árinu 1961 séu í gildi eða ekki. Og það verður að teljast alveg furðulegt, eins og haldið hefur verið á þessu máli hér á landi og m.a. hér á Alþ., að það skuli koma upp raddir nú um að ætla að víkja frá þessari mörkuðu stefnu okkar um það, að samningunum hafi verið sagt upp og þeir séu ekki í gildi.

Ég álít, að eðlilegt hefði verið í sambandi við þennan nýja úrskurð Haagdómstólsins að gefa fulla skýringu á því, um leið og þessi úrskurður féll, hver var afstaða Íslendinga til málsins, sem lá fyrir mörkuð. Hitt var auðvitað alveg óafsakanlegt og í rauninni að koma aftan að Íslendingum í þessu máli, að gefa yfirlýsingu á þá lund, sem Gunnar Thoroddsen gaf í útvarpi og sjónvarpi, þar sem hann lét að því liggja, að raunverulega værum við bundnir við niðurstöðu dómsins og við hefðum raunverulega bundið okkur með þátttöku okkar í Sameinuðu þjóðunum.

Það gefast eflaust tækifæri til að ræða þetta mál ítarlegar, áður en langt líður. Það verður ekki gert hér utan dagskrár að þessu sinni. En ég vil taka undir það hér með öðrum að mótmæla harðlega þessari einkennilegu fréttaskýringu Gunnars Thoroddsens sem er í fullu ósamræmi við markaða stefnu íslendinga í landhelgismálinu. Og ég lýsi undrun minni á því, að útvarp og sjónvarp skuli leyfa sér að standa þannig að málinu eins og þessi stofnun hefur gert, því að það fer vitanlega ekkert á milli mála, að þessi skýring af hálfu Gunnars Thoroddsens á enga aðra skýringu en þá, að hann sé að reyna að bera í bætifláka fyrir gerð þeirra samninga, sem hér er raunverulega deilt um.