07.02.1973
Neðri deild: 47. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

73. mál, búfjárræktarlög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. 73. mál þingsins er frv. til nýrra búfjárræktarlaga. Það var lagt fyrir hv. Ed. á s.l. hausti og var afbreitt þar fyrir jól. Frv. þetta er að efni til óbreytt frá því, sem síðasta Búnaðarþing samþykkti það, en nokkrar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi grg., vann milliþn. sem kjörin var af Búnaðarþingi 1971, að endurskoðun búfjárræktarl., síðan fjallaði Búnaðarþing 1972 um frv. og gekk endanlega frá því.

Þær meginbreytingar, sem hér er lagt til, að gerðar verði á búfjárræktarl., stefna að því, að kynbótastarfsemin og búfjárræktin öll í landinu aðlagist og færi sér fullkomlega í nyt nýja tækni, aukna þekkingu og bætta aðstöðu, sem skapazt hefur að undanförnu. Þessar breytingar hljóta að hafa veruleg áhrif á félagslega skipulagningu kynbótastarfsins. Ljóst dæmi um þetta eru þær róttæku breytingar, sem verða við tilkomu tveggja djúpfrystistöðva fyrir nautasæði, sem nú þjóna öllu landinu. Við það breytist allt kynbótastarf í nautgriparækt, möguleikarnir stóraukast fyrir heildina, en vandinn og ábyrgðin, sem fylgir nautavali til þessara stöðva, kemur á færri hendur. Á hinn bóginn verður að efla verulega afkvæmarannsóknir, og eru opnaðar fleiri leiðir til að styrkja þær en áður voru fyrir hendi.

Með frv. er prentuð sú grg., sem fylgdi því frá Búnaðarþingi, og gerði ég við 1. umr. málsins í hv. Ed. grein fyrir því. Í n., sem vann að undirbúningi þessa máls á vegum Búnaðarþings, voru Egill Bjarnason ráðunautur á Sauðárkróki og bændurnir Jón Helgason í Seglbúðum og Magnús Sigurðsson á Gilsbakka.

Þetta frv., þótti samþykkt yrði, svo sem ég vona, hefur ekki í för með sér neinn verulegan kostnað fyrir ríkissjóð, það mun vera tafið 3–4 millj. kr., en fyrst og fremst er þetta til að tryggja félagslega aðstöðu búfjárræktarinnar í samræmi við þá þekkingu, sem nú er ráðandi og er að verða ráðandi í búfjárrækt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.