26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Umræður utand dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í gær gerðist mjög óvenjulegur atburður á Alþingi, og bergmál af honum heyrðist í kvöldfréttum ríkisútvarpsins í gærkvöld. Hæstv. forsrh. lýsti í þingræðu persónulegum skoðunum sínum á því, hvernig kæmi til greina að leysa og sumpart hvernig bæri að leysa aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. tali eins og hann talaði, án þess að málíð hafi áður verið rætt í hæstv. ríkisstj. Hér er um mjög óvenjuleg vinnubrögð að ræða. Í viðkvæmum vandamálum hefur það ekki tíðkazt hér og tíðkazt ekki annars staðar, að forsrh. flíki persónulegum skoðunum sínum, nema um annað af tvennu sé að ræða: hann sé að boða það, sem koma skal og samkomulag er í reynd orðið um í aðalatriðum, en hann vilji gjarnan fá viðbrögð við, t.d. frá aðilum vinnumarkaðsins og stjórnarandstöðu, áður en till. eru birtar formlega, en hitt er einnig mögulegt, að slík vinnuaðferð boði, að um ágreining sé að ræða í hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. hafi talið rétt að skýra þjóðinni frá því, hver sé sín persónulega skoðun. Alþm. og þjóðin öll hljóta að láta sig það miklu skipta, um hvort af þessum tveim tilvikum er að ræða. Þess vegna leyfi ég mér að beina þeirri fsp. til einhvers af hæstv. viðstöddum ráðh., hvernig þessu sé varið. Spurningar mínar eru þessar:

1. Eru ummæli hæstv. forsrh. í gær frásögn af viðræðum í ríkisstj., og eru aðrir hæstv. ráðh. reiðubúnir til þess nú að taka afstöðu til þeirra úrræða, sem hann nefndi?

2. Eða bera persónuleg ummæli hæstv. forsrh. e.t.v. vott um ágreining í ríkisstj.? Í þessu sambandi ítreka ég spurninguna um, hvort aðrir ráðh. séu nú reiðubúnir til þess að taka afstöðu til ummæla hæstv. forsrh.?