08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hélt nú satt að segja, að það þyrfti ekki að eyða löngum tíma til umr. um jafnsjálfsagðan hlut og jafnsjálfsagt réttiætismál og sú þáltill., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir. Eigi að síður hefur það sýnt sig, að hér á hv. Alþ. er að vísu tiltölulega fámenn sveit ungra, en vaskra þm., sem tekið hefur upp málstað óréttlætisins í þessum efnum, með sjálfan fyrrv. samgrh. í broddi fylkingar.

Hv. 1. þm. Sunnl., sem í raun og veru ber höfuðábyrgðina á þessu óréttlæti, ef um óréttlæti er hægt að tala, er nú búinn að söðla um. Og svo furðuleg sem sú umsöðlun var hjá þessum hv. þm., þá er það þó enn furðulegra, að þm. Reykn., þeir sem vilja halda fast við afnám skattsins, — það er furðuleg afstaða þeirra þm., sem eru búnir að láta kjósendur sína í a.m.k. 6 ár borga þennan skatt, að heimta nú, að hann verði afnuminn, þegar annar hliðstæður vegur kemur, sem ætti raunverulega að setja skattlagningu á. Það er vissulega svo, að það hafa fleiri ruglazt í réttlætiskenndinni en hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. samgrh.

En hver er orsökin fyrir því, að hv. 1. þm. Sunnl. hefur svo gersamlega snúið við blaði sem raun ber vitni, með tilliti til þess málflutnings, sem hann hefur hér haldið uppi varðandi þessa þáltill.? Jú, hún er sú og sjálfsagt eingöngu sú, að nú kæmi inn í dæmið sambærilegur vegur, sem greiða ætti af, þ.e.a.s. Suðurlandsvegur, sem er í kjördæmi þessa hv. þm. Ekkert annað getur réttlætt þessi skoðanaskipti þessa hv. þm., ef hægt er um réttlætingu að tala.

Ég sagði áðan, að svo furðuleg sem afstaða hv. 1. þm. Sunnl. væri í þessu máli nú, sé litið til fortíðar hans í þessum efnum, þá væri enn furðulegri að mínu mati afstaða þeirra hv. þm. Reykn., sem vilja nú og stuðluðu að því á síðasta Alþ., að þetta óréttlæti væri upp tekið, að láta þá, sem við mestu vegleysurnar búa, borga þyngstu skattana. Ég sagði, að þessi afstaða væri furðufeg, nema því aðeins, eins og heyrzt hefur, að upp ætti að taka það fyrirkomulag að endurgreiða öllu því fólki, sem borgað hefur, og kannske bæði með vöxtum og vaxtavöxtum, það fé, sem það hefur látið af hendi vegna veggjaldsins á Reykjanesbraut.

Hv. 1. þm. Sunnl. lýsti því yfir, að vegtollur þessi væri ósanngjarn, þar sem hann kæmi niður á þeim, sem sízt skyldi. Það er fróðlegt að heyra þetta eftir 6 ár, sem þessi hv. þm. hefur stjórnað þessum skatti, að heyra þá þennan dóm. Hann er óréttlátur, vegna þess að hann kemur niður á þeim, sem sízt skyldi.

Þá sagði hv. 1. þm. Sunnl. einnig, að veggjaldið mundi koma þyngst niður á bændum, sennilega í Suðurlandskjördæmi, ef væri tekið upp veggjald á Suðurlandsvegi. Það mætti kannske spyrja þennan hv. þm. og aðra, sem eru svipaðs sinnis í þessum efnum, hvað væri þá með það fólk víðs vegar um landið, sem æki mánuðum og árum saman svo til eingöngu á holóttum vegum, enda orðaði hv. 11. landsk. þm., Ólafur G. Einarsson, það svo hér áðan, að rétt byggðir malarvegir gætu verið ágætir. Hann veit sem sagt, að þeir eru það ekki, enginn af þeim. Þetta er vægt til orða tekið, enda ekki gott að fullyrða meira í þessum efnum heldur en þessi hv. þm. gerði með tilliti til reynslunnar, sem fyrir er. En þetta fólk, sem ég hygg, að a.m.k. allir flm. þessarar þáltill. hafi í huga, þarf svo sannarlega að borga og borga meira fyrir það, að afnuminn hefur verið vegtollurinn af Reykjanesbrautinni og ekki tekinn upp á Suðurlandsvegi. Ég held, að hv. 1. þm. Sunnl. og skoðanabræður hans hér á hv. Alþ., sem vonandi verða fáir, þegar þetta mál verður afgreitt, ættu að kynna sér viðhorf þess fólks, sem við verstar aðstæður býr í þessum efnum víðs vegar um landið, þ.e.a.s. ef réttlætiskenndin ristir það djúpt, að þeir vilji taka tillit. til þess, sem staðreyndir sýna fram á.

Hv. 1. þm. Sunnl. hélt áfram og segir, að öllum muni ljóst, að mælirinn sé orðinn fullur, að sjálfsögðu undir hans stjórn rúm 6 ár í þessum efnum, og reyndar farið að fljóta út yfir, en það eigi bersýnilega að reyna á þolrifin í mönnum í þessum efnum. Þarna kemur fram annar dómur þessa hv. þm. nú um það, sem hann hefur afrekað á stórum hluta síns ráðherradóms.

En svo kemur rúsínan í pylsuendanum hjá þessum hv. þm., þegar hann fer að bera fram óskir og vonir og segir, að samkv. þingaköpum fari till. nú í n., og vonist hann til, að hún eigi ekki afturkvæmt þaðan. Hann vonast til, að hún eigi ekki afturkvæmt þaðan. Hvað á þessi margreyndi hv. þm. við með þessum orðum? Er hann farinn að óttast, að augu æ fleiri hv. alþm. hafi opnazt, frá því að þetta mál var hér til umr. á síðasta þingi, á þann veg, að það sé raunverulega meiri hl. alþm. hér, sem líti þetta mál sem réttlætismál, að innheimt sé veggjald á þessum hraðbrautum? Það ber vissulega — a.m.k. geri ég það — að taka orð þessa hv. þm. svo, að hann óttist, að það rúmist raunverulega engin réttlætiskennd innan skoðana þeirra hv. alþm., sem halda því fram, að það eigi að afnema veggjald af hraðbrautum. Og ég er alveg hissa á hv. 1. þm. Sunnl., að hann skuli láta sér þau orð um munn fara, að hann óski eftir því, hvort sem það er þetta eða annað mál, að mál fái ekki þinglega meðferð. Það getur ekki verið neitt annað, sem þarna býr á bak við, en það, að hann telur, að málstaðurinn sé ekki svo traustur, að það sé neitt á að byggja, að hann náist fram, ef málið fær eðlilega meðferð hér í þinginu.

Samkv. áætlun, sem gerð var um innheimtu veggjalds á síðasta þingi, þegar vegáætlun var afgreidd, sem náði yfir tímabilið frá árinu 1972–1976, var gert ráð fyrir því, að nettótekjur af innheimtu veggjalds á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi, þegar það kæmi til, næmu á þessu tímabili 162.8 millj. kr., — nettótekjur af innheimtu veggjalds, — og það hefði skipzt þannig, að á Suðurlandsvegi hefði verið um að ræða 55.3 millj. og á Reykjanesbraut 107.5 millj. Það var sem sagt gert ráð fyrir álíka upphæð í nettótekjur af innheimtu veggjalds á þessu tímabili og var sett á fjárl, ársins 1972 í allar hafnir ú Íslandi. Við þetta er svo því að bæta, að hefði veggjald fylgt verðlagi frá þeim tíma, sem það var á sett, þá ætti það raunverulega að vera 100% hærra. Og það væri eina réttlætið að hækka veggjaldið á Reykjanesbraut og setja veggjald á Suðurlandsveg, sem væri 100% hærra en það gjald var, sem var fellt niður. Það væri það eina réttláta, sem ætti nú að gera í sambandi við þetta mál. Og hefði það verið gert, sem var sjálfsagt, hefði a.m.k. verið um drjúgan tekjustofn að ræða, nettótekjur af innheimtu veggjalds upp á 325 millj. á þessu tímabili samkv. áætlun frá vegamálaskrifstofunni, og það munar vissulega um minna. En þetta eru ekki peningar, sem er verið að taka að óþörfu af þeim aðilum, sem um þennan veg fara. Þeir eru að borga til baka aðeins lítinn hluta af þeim sparnaði, sem þessir vegir veita bifreiðaeigendum vegna þess, hvernig þeir eru byggðir. Það er stórgróði að því að aka þá, þótt borgað sé 100% hærra gjald en áður var.

Það er enginn vafi á því, að aðstöðumunur þeirra bifreiðaeigenda, sem aka um hina fullkomnu vegi annars vegar, og hinna, sem aka um gömlu malarvegina, er gífurlegur. Og það er aðeins brot af þeim sparnaði, bæði á eldsneyti og í viðhaldi á bifreiðum, svo að ekki sé talað um þægindi, sem væri borgað með því, þó svo það væri innheimt veggjald af þessum vegum.

Hv. 5. landsk. þm., sem talaði hér áðan, sagði, að því hefði verið haldið fram, að mér skilst á framboðsfundum og í kosningaumr. fyrir síðustu kosningar í Reykjaneskjördæmi, að hv. 2. ]nn. Reykn., Jón Skaftason, hefði haft aðra skoðun fyrir — ég vissi ekki hvað löngum tíma, enda tilgreindi þm. það ekki. En hann taldi fram á of mikið farið að gefa þeim hv. þm., sem ákvörðun tóku í þessu máli fyrir ári, færi á að skipta um skoðun, ef þeir vildu slíkt viðhafa. Hann taldi, að þessi tími væri allt of stuttur, eitt ár. Ég hygg nú, að margur hv. þm. innan Alþfl. hafi skipt um skoðun á styttri tíma en heilu ári, og það er vissulega vel frambærilegt að gefa þessum hv. þm. ásamt öðrum tækifæri til þess að skipta um skoðun, þó að ekki sé lengri tími liðinn, síðan þetta var gert, heldur en eitt ár.

Ég er ekki viss um, að hv. 5. landsk. þm. fari með algerlega rétt mál, þegar hann segir, að meiri hl. íbúa á Suðurnesjum sé andvígur því að borga til baka með veggjaldi tiltölulega lítinn hluta þess sparnaðar, sem leiðir af lagningu hraðbrautarinnar. Ég er ekki viss um það. Ég veit, að margt af því fólki, sem býr á Suðurnesjum, er alið upp við dreifbýlissjónarmið og hefur þar af leiðandi miklu ríkari og meiri skilning í þessum efnum heldur en kannske margir hv. þm. hafa, þannig að það er varlegast að fullyrða sem minnst um það, hversu mikill hluti kjósenda eða íbúa í tilteknu kjördæmi sé meðmæltur eða móti hinum ýmsum aðgerðum, sem verið er að gera á hverjum tíma. Þessi hv. þm. sagði líka, að þessi þáltill. hefði vakið athygli. Vissulega vona ég, að svo sé, því að lítið er varið í að flytja mál, sem enginn vill skipta sér af og enginn vill gefa gaum. En ég hygg, að þetta sé rétt mat hjá hv. þm. Og það verður vissulega tekið eftir því, — verði hv. 1. þm. Sunnl. ekki að ósk sinni, að málið verði drepið í n., þú verður vissulega tekið eftir því, hverjir hv. alþm. það verða, sem greiða atkv. á móti jafnsjálfsögðu réttlætismáli og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Ég vona það og vænti þess, að sem flestir hv. alþm. ljái þessari till. atkv. sitt, þegar hún kemtir hér til ákvörðunar. Með því væri þó á einu sviði gengið til móts við það fólk, sem byggir hinar dreifðu byggðir og a.m.k. margir, ef ekki allir hv. alþm. hafa haft á vörum, að þyrfti að gera betur við en verið hefði á undanförnum árum og áratugum. Það er vissulega nógur að stöðumunur þessa fólks, miðað við það, sem þéttbýlissvæðin hafa upp á að bjóða, þó að ekki væri bætt við í þessum efnum.