14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

159. mál, kaupgreiðsluvísitala

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er vissulega lærdómsríkt að hafa orðið bæði sjónar- og heyrnarvottur að þeirri breyttu hlutverkaskipan, sem mér virðist hafa orðið hér á hv. Alþ., að því er varðar efnisatriði þess máls, sem hér liggur fyrir. Ég átti satt að segja ekki von á því, að ég þyrfti hér að standa upp til þess að tjá andstöðu mína við efni frv. eins og þess, sem hér liggur fyrir og flutt er af hæstv. ríkisstj. Og mér er það raunar lítt skiljanlegt hvort tveggja, annars vegar, hvernig hæstv. núv. ríkisstj. getur staðið að flutningi slíks frv. með tilliti til þess, sem áður hefur gerzt, og hins vegar, hvernig hv. stjórnarandstæðingar núv. gætu verið andvígir málsmeðferð sem þessari, eins og það liggur fyrir, einnig með tilliti til þess, sem á undan er gengið af þeirra hálfu.

Það er að mínum dómi alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að árásir viðreisnarstjórnarinnar sálugu á gerða kaup- og kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar á valdatíma þeirrar ríkisstj. voru miskunnarlaust gagnrýndar og fordæmdar, ekki bara af verkalýðshreyfingunni sjálfri, heldur og þeim flokkum, sem nú standa að hæstv. ríkisstj. Og ég tel fullkomna ástæðu til þess enn að gagnrýna slík vinnubrögð, ekki sízt af ríkisstj., sem hingað til hefur verið talin stjórn hinna vinnandi stétta.

Eitt af fyrstu verkum hæstv. núv, ríkisstj. var líka, eins og hv. 1. þm. Reykv, sagði, að breyta hví, sem viðreisnarstjórnin gerði með verðstöðvunarlögunum frá 1970, og skila aftur þeim kaupgjaldsvísitölustigum, sem þá voru tekin. Ég man ekki betur en öll blöð stjórnarflokkanna teldu þetta sjálfsagt og ætti skilyrðislaust að gerast. Það kemur mér því mjög á óvart, að flutt skuli vera hér á hv. Alþ. það frv„ sem hér er nú til umr., og það í nafni hæstv. ríkisstj., enda held ég, að stjórnarsáttmálinn, eins og frá honum var gengið, gefi tilefni til að ætla allt annað en að slíkt ætti sér stað. Það er tekið fram í þeim sáttmála, að skilyrðislaust eigi að leiðrétta kaupgjaldsvísitöluna um 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með áðurnefndum verðstöðvunarlögum, einnig, að flutt var að taka inn í kaupgjaldsvísitöluna þau tvö stig, sem ekki áttu að koma til framkvæmda fyrr en 1. sept. 1971, og ég hygg, að hvoru tveggja þessara atriða hafi verkalýðshreyfingin ekki hvað sízt fagnað.

Það var sagt hér áðan, að ég held af hæstv. viðskrh., — ég sé, að hann er ekki hér, — að ráðstefna ASÍ hefði skotið sér undan því að taka ákvörðun varðandi vísitölumálið, eins og það hér liggur nú fyrir. Þetta er að mínum dómi alls ekki rétt. Ráðstefna Alþýðusambands Íslands taldi, að mál þetta bæri að íhuga mjög gaumgæfilega og endurskoða við gerð nýrra kjarasamninga á hausti komanda. Og ég hygg, að menn séu almennt á því, að það þurfi leiðréttingar við á vísitölukerfinu í heild. En verkalýðshreyfingin mun ábyggilega nú eins og fyrr snúast andvíg gegn því, að gerðum kjarasamningum sé breytt með lagaboði frá Alþ., hvort sem þar situr vinstri eða hægri stjórn eða á hvaða tíma sem það er. Ég tek því ályktun Alþýðusambandsráðstefnunnar sem svo, að hún hafi ótvírætt snúizt gegn því, að breyting á kaupgjaldsvísitölunni yrði gerð á annan hátt eða öðruvísi en það yrði gert í endurskoðun á kjarasamningum. Það er líka skoðun mín, að öll kjaraskerðing á launum þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu og þeirra, sem verst standa að vígi, sé gersamlega óréttlætanleg. Þurfi að gera ráðstafanir í þessum efnum. verða þær að bitna á öðrum hópum en þeim, sem lægst eru launaðir og verst eru settir.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er tvíþætt. Það er í fyrsta lagi varðandi 1, gr., þar sem gert er ráð fyrir að taka eitt stig af kaupgjaldsvísitölunni vegna fyrirhugaðra aðgerða í þá átt, að ríkissjóður taki meiri þátt í greiðslu til tannlækna en verið hefur. Ég hygg, að menn greini ekki á um það, að æskilegt væri, að frekar væri gert í þessa átt. En ég held, að menn geti greint á um það, hvaða aðferð beri að nota í þessu sem öðru. Ég hefði talið miklu eðlilegra, að þegar búið væri að ákveða, með hvaða hætti þátttaka ríkissjóðs væri í þessu efni, þá væri það lagt í hendur kauplagsnefndar að taka tillit til og vega og meta, hversu mikill þáttur þetta væri í kaupgreiðsluvísitölunni, heldur en segja ákveðið og skilyrðislaust:

Svona mikið skal hún lækka, — þótt ekki sé það séð enn, hvernig þessar aðgerðir verða fram settar.

Varðandi 2. gr., um niðurfellingu á vísitölustigum vegna hækkana á verðlagi áfengis og tóbaks, þá held ég, að menn geti einnig greint á um það, hvort það sé æskilegt, að áfengi og tóbak séu inni í kaupgreiðsluvísitölunni. En ég segi enn sem áður, hvað sem menn segja um það, þá var það mat núv. stjórnarflokka, þegar þetta var gert á árinu 1970, að kippa þessu út, að það væri óréttmætt. Og það var fyrsta verk hæstv. núv. ríkisstj. að setja þetta aftur inn og þar með lýsa þeim vilja sínum, að hún teldi, að svona ætti þetta að vera, þar til málið væri endanlega leyst á öðrum grundvelli. þ.e.a.s. með samningum við verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur. Og ég tel, að málið standi enn þannig. Verkalýðshreyfingin mun að minni hyggju snúast öndverð gegn slíkri breytingu eins og þessari. En ég held, þó að ég vilji ekkert um það fullyrða, að menn séu almennt á því, að það þurfi að endurskoða vísitölugrundvöllinn í heild, en það eigi að gerast við samningaborð og gegnum kjarasamninga.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, en vil að síðustu lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. eins og það liggur nú fyrir, þegar það kemur til atkvgr.