27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

156. mál, fjöldi og ráðstöfun ríkisjarða

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. skýr og greinargóð svör. Ég vil alveg sérstaklega fagna því, að í ljós kom í svörum hans, hve fáar af ríkisjörðunum eru leigðar öðrum en bændum. Ég lít nefnilega svo á, að hver viðleitni í þá átt að breyta blómlegri bújörð í sumarbústaðalönd eða afþreyingarstaði fyrir sportmenn, — mig langaði nú til að segja annað orð, ekki þinghæft, — sportmenn hvers konar, sé vægast sagt neikvæð fyrir íslenzkan landbúnað og um leið fyrir þjóðarheildina, þegar fram líða stundir. Ég álít, að ríkið eigi hér einmitt að hafa forgöngu um heilbrigða stefnu, á ríkisjörðunum þurfi fyrst og fremst að hlúa að búskap, en varast það, að þær komist í hendur þeirra aðila, sem ætla sér það eitt með afnotarétti sínum að nytja þær til einhvers annars en landbúnaðar.