27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 18. maí 1972 var samþ. á Alþ. þál. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að skipuð skuli 7 manna n. til endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Nm. skulu kosnir af Alþ. Forsrh. kveður n. saman til fyrsta fundar, en hún skiptir sjálf með sér verkum. N. ber að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna, landshlutasambanda sveitarfélaga og landssambanda stéttarfélaga. Hún skal leita álits lagadeildar Háskóla Íslands og hæstaréttar um lögfræðileg efni. Með opinberri tilkynningu skal þeim, sem þess kynnu að óska, gefinn kostur á að koma á framfæri við n. skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma, sem n. tiltekur. Kostnaður við endurskoðun stjórnarskrárinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Eins og ég sagði áðan, var þessi ályktun samþ. á Alþ. 18. maí 1972, og n., sem gert er ráð fyrir í þál., var kosin annaðhvort samdægurs eða næsta dag, ef ég man rétt, 7 manna n. Síðan þetta gerðist er nú liðinn alllangur tími eða yfir 9 mánuðir, og þar sem ég var nokkuð riðinn við flutning þessa máls, leikur mér forvitni á að vita, hvað gerzt hefur í málinu, og þá m. a. það, hversu marga fundi stjórnarskrárnefnd hefur haldið og hvernig verki hennar hefur miðað áfram að öðru leyti, hvort hún hefur nú þegar leitað álits þeirra aðila, sem tilgreindir eru í þál., o. s. frv. Jafnframt leikur mér hugur á að vita, hvort líkur mega teljast til þess, að störfum n. miði það vel áfram, að líklegt sé, að hægt verði að leggja frv. til nýrrar lýðveldisstjórnarskrár fyrir Alþ. 1974. En af mörgum, sem um þessi mál hafa fjallað, hefur verið látið í ljós, að æskilegt væri, að á því merkisári yrði eitthvað hægt að gera í stjórnarskrármálinu. Í sambandi við þetta hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh., sem þetta mál heyrir undir:

„1. Hvað líður störfum stjórnarskrárnefndar, sem kosin var á Alþ. samkv. þál. 18. maí 1972?

2. Má telja líklegt, að hægt verði að leggja frv. til nýrrar lýðveldisstjórnarskrár fyrir Alþ. 1974?“