26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

20. mál, vistheimili fyrir vangefna

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég kem hingað aðeins til þess að lýsa fyllsta stuðningi mínum við þessa till. Ég álít, að það að byggja vistheimili fyrir vangefna sé eitt af þeim verkefnum, sem ríkisvaldið verði að láta ganga nokkuð á undan ýmsum öðrum verkefnum. Ég er ekki viss um, að þetta verkefni sé gífurlega stórt, en það þarf fyrst og fremst að gera það. Það er til vansa fyrir okkar þjóðfélag að vita af því, að þessi þörf er fyrir hendi í ýmsum landshlutum og nákvæmlega ekkert sé gert til að bæta þar um. Ég tek þess vegna mjög sterklega undir það, að það eigi að gera átak til þess að koma þessum heimilum upp sem víðast um landið og sem næst aðstandendum þeirra, sem þarna þurfa að vera. Ég tel, að raunar hefði átt að vera búið að þessu, en vil fastlega skora á hv. þm. að láta það ekki bregðast, að þessi till., sem var flutt fyrir ári, komist nú áfram og henni verði fylgt eftir.