30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að ræða þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., sérstaklega við þessa 1. umr., en vegna vissra ummæla, sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh., þegar hann mælti fyrir því frv. hér í hv. d. á dögunum, þótti mér rétt að segja hér nokkur orð um það, og er þá að nokkru leyti um efnisþætti frv. sjálfs og að öðru leyti vegna ummæla, sem féllu í ræðu hæstv. ráðh. hér, eins og ég áður sagði.

Ef ég hef tekið rétt eftir máli hæstv. ráðh., þá sagði hann eitthvað á þá leið, að við það hefði verið miðað, þegar þessi brbl. voru sett, að ekki væri hallað á neinn sérstaklega. Það má vel vera, að það hafi tekizt að koma þessum málum þannig fyrir, að það væri ekki, en ég dreg það þó mjög í efa. Og mér er það sérstaklega ljóst, að varðandi þá atvinnustétt, sem ég þekki bezt, bændurna í landinu, hefur þetta ekki tekizt að mínum dómi. Ég vil einnig ætla, að bændur og bændasamtökin hafi ekki reiknað með því, að þannig yrði að staðið af þeirri stjórn, sem nú situr í landinu, að hallað væri á þá sérstaklega, þegar kæmi að einhverjum efnahagsráðstöfunum í hennar tíð. Byggi ég það á því, að í málefnasamningnum, sem stjórnin mun starfa eftir, standa þessi orð: „Miða skal jafnan við það, að kjör bænda verði sambærileg við launakjör annarra vinnandi stétta.“ Eftir því sem ég kemst næst og hef punktað hjá mér, viðhafði hæstv. forsrh. ummæli í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða í ræðu sinni hér á dögunum á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. kom í veg fyrir hækkun á verðlagi á landbúnaðarvörum, sem talið var að að óbreyttum lögum mundi nema um 2.2 vísitölustigum, og munaði þar mest um laun bóndans sjálfs, um eitt vísitölustig.“

Ég hygg, að ég hafi tekið þetta rétt upp. Mér hefur ekki heppnazt að ná þessum ummælum, því að með þeim aðferðum, sem nú er beitt við útgáfu umr. í þinginu, þá hef ég ekki getað rekið mig á ræðuna hér í málefnamöppunum, sem við höfðum áður aðgang að. En séu þessar upplýsingar réttar, sem ég efast ekkert um og ætla ekki að rengja, þá verður það náttúrlega alltaf í sjálfu sér matsatriði, hvenær launahækkanir teljast eðlilegar miðað við aðra eða ekki. Ég skal ekki fella um það neinn sérstakan dóm. Þó vil ég benda á það, að launahækkanir bóndans koma jafnan eftir á. Þær koma eftir á vegna annarra launahækkana. Og því er það, að sá, sem enn verður að bíða, stendur verr að vígi en sá, sem þegar hefur fengið hækkun.

Í öðru lagi tel ég rétt að líta til þess, að það, sem ekki er vegna launa bóndans sjálfs, sem í þessu tilfelli mundi vera 1.2 vísitölustig, til hækkunar. Það er vegna kostnaðar, sem bóndinn er búinn að leggja fram í sínum atvinnurekstri áður. Það eru ýmis hlutir, sem hafa hækkað frá því að síðast var saminn og reiknaður út verðlagsgrundvöllur, hækkanir, sem orðið hafa, og ég ætla ekki að benda á neitt sérstaklega í þeim efnum, en þó hygg ég, að einna stærsti liðurinn í því muni vera áburðarkostnaður frá s.l. vori, sem hækkaði verulega. Ég vil því halda því fram, að þessar aðgerðir hafi orðið til þess að þrengja mjög hag bænda á þessum tíma, sem þessar tímabundnu efnahagsráðstafanir taka til eða verðstöðvunin, — þær verði til þess að þrengja mjög hag bænda frá því, sem áður var, og ég tel það mjög óeðlilegt, að þannig skyldi að málunum staðið, því að það er oft búið að halda því fram, og ég hygg, að oft hafi mátt gera það með rétti, að bændur væru ein tekjulægsta stétt í þjóðfélaginu. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði.

En það er annað í þessu efni, sem ég vildi gjarnan taka til meðferðar vegna þeirra ummæla, sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. og þeirra almennu aths. og fullyrðinga, sem hann fór hér með í ræðu sinni, um úrbætur í þessum málum. Ég ætla ekki að ræða það, hvaða hugmyndir hann var með í þessu efni. En hann taldi, að það mundi ekki líða langur rími, þangað til n. sú, sem skipuð hefur verið ríkisstj. til ráðuneytis um þessi efni og kölluð hefur verið valkostan., mundi koma fram með sínar till. Ég hefði talið, að það væri eðlilegt, að þær færu að koma, svo mjög sem þetta málefni varðar miklu fyrir alla landsmenn. Það eina, sem ég hef séð frá þessari valkostan., er það, að einn nefndarmanna hefur komið fram með vissar hugleiðingar um þessi efni á sama hátt og hæstv. forsrh. hefur gert, þó að þær hugleiðingar gangi hreint ekki í sömu átt. Ég tel, að það sé á engan hátt eðlilegt að viðhafa þessi vinnubrögð af þeim aðilum, sem eru í ábyrgum stöðum um þessi efni. Það hefði verið eðlilegra, að sjónarmið þeirra hefðu verið samræmd, áður en þær komu fram fyrir alþjóð. Það, sem ég á við, er ræða eða útdráttur úr ræðu eftir Þröst Ólafsson hagfræðing, sem birt er í Þjóðviljanum 24. okt. Þessar hugleiðingar Þrastar Ólafssonar bera í blaðinu yfirskriftina: „Kerfið hagnýtir ekki auðlindirnar, heldur sóar þeim.“ Nú er mér ekki alveg ljóst, hvaða kerfi þetta er. Hann minnist að vísu í þessu máli á 2–3 kerfi, sem eru samræmd um aðgerðir, og að mér skilst hefur það þessar verkanir í för með sér, að sóa auðlindunum. Ég ætla ekki að ræða þetta neitt ítarlega, en ég vil aðeins minna á það, sem hagfræðingurinn segir um eitt af kerfunum í kerfinu. Hann segir hér: „Athugum vísitölukerfið. Vísitölukerfið átti í eina tíð að vernda launafólk, einkum þá lægst launuðu, gegn verðþenslu. Í dag hindrar það, að hægt sé að bæta lífskjör þeirra, því að vísitalan mælir jöfnum höndum nauðsynjar fólks, munaðarvörur og hagstjórnartæki ríkisins. En bætt lífskjör fást tæplega lengur með hærri einkaneyzlu, heldur í stóraukinni samfélagslegri þjónustu. Núv. vísitölukerfi kemur í veg fyrir það. En það er augljóst mál, að vísitölunni verður að breyta, án þess verða engar efnahagsaðgerðir framkvæmdar.“ Mér finnst þarna kveða við algerlega nýjan tón frá Þresti Ólafssyni hagfræðingi, svo að ég gat ekki neitað mér um að benda hv. þd. á þessi ummæli sérstaklega, og það því fremur, þegar þarna virðast geta runnið saman skoðanir hæstv, forsrh. og hagfræðingsins, þar sem báðir virðast telja líklegasta úrræðið að breyta vísitölunni. Á hvern hátt, er erfitt fyrir okkur að fullyrða, en ég hygg, að það sé ekki ég einn, sem tel, að það sé nýmæli, þegar það kemur úr hópi þeirra manna, sem telja sig fyrst og fremst vera forsvarar launþeganna, að vísitölunni þurfi að breyta og að hún sé eins hættuleg og hún er.

Það er fleira, sem hagfræðingurinn kemur fram með í þessari grein sinni, eða útdrætti úr ræðu og mér þykir eðlilegt að benda hér einnig á og eru ugglaust hans persónulegu skoðanir. Meðal annars segir hann um verðlagsþróunina og kaupmáttinn: „Meðalárleg verðlagshækkun á árabilinu 1950–1971 er um 11%, en meðalárleg gengisfelling nemur á sama tíma 9.6%. Þessi verðhækkun var nokkuð minni á fyrri áratugnum, eða 9.8% milli 1950 og 1960, en 12.6% á árabilinu 1980–1971. Vonandi eru þetta engin álög, sem þjóðin getur ekki losnað úr. En sennilegra er þó, að óbreyttur grundvöllur efnahagslífsins bjóði ekki upp á annan valkost, hvort sem okkur líkar betur eða verr“ Þetta segir hagfræðingurinn. Þetta þykir mér afar athyglisvert, að hann skuli halda hví fram, að naumast verði um aðra valkosti að ræða en fella gengið. Ég get ekki heldur látið hjá líða, að undirstrika þetta og henda á, að mér sýnist þetta ganga í allt aðra átt en stjórnarsamningurinn segir til um, þar sem það er greinilega tekið fram, að ríkisstj. muni ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum.

Nú það eru fleiri úrræði, sem hagfræðingurinn telur að mögulegt sé að beita í þessum efnum, sem ég sé ekki ástæðu til að taka sérstaklega til athugunar, en þó get ég ekki látið bjá líða að minnast á það, sem hann segir nærri lokum sinna hugleiðinga: „Ég er þeirrar skoðunar,“ segir hagfræðingurinn, „að hækka beri vexti verulega, ef ekki verði hægt að halda verðlagi í skefjum“.

Ég ætla ekki að rekja þetta efni frekar og ekki að lengja þessar umr. meir, en ég verð að segja það, að ég tel. að þegar hæstv. forsrh. og einn af nefndarmönnum valkostan. eru að tjá almenningi sínar persónulegu skoðanir á þessum mikilvægu og viðkvæmu málum, sem efnahagsmálin óneitanlega eru, hljótum við alþm. að krefjast þess, að óvissa um endanlegar ákvarðanir ríkisstj. standi ekki lengur en orðið er. Vegna þessara skoðana minna, kvaddi ég mér hljóðs og kom fram með þær aths., sem ég hef hér flutt.