08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

170. mál, orkulög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., orkulög, 170. mál á þskj. 311, var rætt á Búnaðarþingi, sem lauk störfum sínum nýlega, og var þar samhljóða gerð svo h]jóðandi ályktun, með leyfi forseta:

„Vegna þess að fram hefur verið lagt á Alþ. frv. til l. um breyt. á orkulögum, sem felur í sér ákvæði um, að ríkið eigi allan rétt til umráða og hagnýtingar á háhitasvæðum og uppleystum efnum og gastegundum, sem háhitavatni og gufu fylgja, að undanteknum jarðhita á yfirborði, eins og hann er nú, vill Búnaðarþing láta undrun sína í ljós yfir því, að slíkt frv. skuli hafa verið lagt fram. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er umráða- og hagnýtingarréttur tiltekinna landsgæða tekinn af landeigendum bótalaust og lagður til annarra aðila. Yrði hér um gerbreytingu að ræða frá því, sem til þessa hafa verið talin gildandi lög í landinu. Ef unnt er að gera slíkt með einfaldri lagasetningu, að því er tekur til umræddra landsvæða, virðist Búnaðarþingi, að síðar hljóti að vera auðvelt að taka umráða- og hagnýtingarrétt annarra gæða, svo sem hlunnindi og jafnvel jarðargróða, án bóta og leggja undir ríkið. Meðan eignarréttur er virtur í stjórnlögum landsins er það að dómi Búnaðarþings óhæfa, að Alþingi beiti valdi sínu á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Með eignarnámi er unnt að tryggja nýtingu hinna umræddu gæða í almannaþágu, en þá kæmi fyrir eðlilegt verð, sem er viðurkenning eignarréttarins. Búnaðarþing telur, að hér sé um viðurhlutamikið mál að ræða og að samþykkt þess gæti orðið mjög afdrifarík fyrir sveitarfélög og alla aðra landeigendur. Fyrir því vill Búnaðarþing eindregið mæla gegn samþykkt frv. um breyt. á orkulögum, eins og það liggur nú fyrir Alþ.

Ég vil vekja athygli á þessari ályktun, og ég mælist til þess, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, kanni þessa ályktun og þau rök, sem þar liggja á bak við.