30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, þar sem þeir flokksbræður mínir, sem á undan mér hafa talað, hafa tekið þau atriði til meðferðar, sem sjálfsagt var að gera eftir ræðu hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. vildi meina, að það væru fleiri en ríkið, sem hefðu stuðlað að þeirri þenslu, sem væri hér á Íslandi, þeirri eyðslustefnu, sem hér ríkti og ég gerði að umtalsefni, að væri til staðar af hálfu ríkisstj., og nefndi hann þar til sveitarfélögin. Hvað sem þessari staðhæfingu hæstv. forsrh. líður, vil ég vekja athygli á því, að allar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga í landinu nema líklega innan við fjórðung eða jafnvel nær fimmtung af fjárl. ríkisins. Ég bendi á, að stefna ríkisvaldsins í fjármálum ríkisbúskaparins hefur þess vegna úrslitaáhrif, að því er ofþenslu- og eyðslustefnu snertir. Ég hygg, að sveitarfélögin í landinu, hvorki höfuðborgin né önnur, hafi ekki gengið of langt og það sé hlutfallslega minna um hækkanir að ræða hjá þeim en hjá ríkisvaldinu.

Það voru hinir 4 punktar hæstv. forsrh., er snertu muninn á hinni tímabundnu verðstöðvun hæstv. ríkisstj., sem hér er til umr., og verðstöðvuninni frá því í nóv. 1970, sem mig langaði að fara örfáum orðum um. Í fyrsta lagi taldi hann, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, sem fyrrv. ríkisstj. hefði ekki haft. Fyrrv. ríkisstj. hafði vissulega samráð við aðila vinnumarkaðarins um verðstöðvunina. Það voru fundarhöld vikum saman, þótt ríkisstj. og launþegasamtökin bæru ekki gæfu til að verða sammála. En það eru ekki sterkari orð, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa um þessa tímabundnu verðstöðvar núv. hæstv. ríkisstj., en við máttum heyra í ræðu hv. síðasta ræðumanns, og ég held, að fulltrúar Alþýðusambandsins hafi sagt eitthvað á þá leið, að þeir létu þessar ráðstafanir óátaldar eftir atvikum.

Þá var það annar punkturinn, sem hæstv. forsrh. nefndi, að þau 2.5 vísitölustig, sem tekin væru af formi til skv. þessari tímabundnu verðstöðvun, væru að fullu bætt, og þá býst ég við, að hann eigi við fjölskyldubæturnar. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég minnist þess að hafa heyrt hæstv. forseta þessarar d., sem er forseti Alþýðusambands Íslands, — og ég verð þá leiðréttur, ef það er ekki rétt, — segja eitthvað á þá leið, að hér væri vísitöluskerðingin e.t.v. ekki meiri en eitt stig. En það var vísitöluskerðing engu að síður, og þá er auðvitað við það miðað, að þessi vísitöluskerðing standi ekki nema til áramóta. En standi hún fram yfir áramót, er um fulla vísitöluskerðingu að ræða, 2.5 stig a.m.k., sambærilegt við það, sem áður var um 2 stigin í verðstöðvuninni frá nóv. 1970, og var þá talið, að sú staðreynd, að þær verðhækkanir kæmu til framkvæmda, hefði í för með sér, að launþegarnir yrðu fyrir kjararýrnun, vegna þess að þeir fengju verðlagsuppbætur seinna en verðhækkanir eiga sér stað, vegna þess, hvernig útreikningur vísitölunnar er framkvæmdur.

Í þriðja lagi var svo sagt, að það væri mun meiri verðstöðvun samkv. ákvæðum þessara laga. Þau standa ekki nema tiltölulega skamman tíma, og reynslan á eftir að sýna, hvor verður í reynd meiri verðstöðvun. Ég skal ekkert fullyrða um það. En hitt hygg ég vera sanni nær, að það sé ekki mælikvarði á verðstöðvun eða gildi hennar, hve miklar verðhækkanir eiga sér stað á tímabilinu, heldur verður að taka með í reikninginn, hvað gerist, eftir að verðstöðvun lýkur, hve mikið kemur þá út í verðlagið. Mér er nær að halda, að þær verðhækkanir, sem eiga eftir að koma út í verðlagið að lokinni þessari tímabundnu verðstöðvun, verði ærið miklu meiri heldur en hæstv. forsrh. vill vera láta og muni skapa langtum meiri vanda en hann vill gera sér grein fyrir, eins og síðasti ræðumaður benti einnig á.

Í fjórða lagi nefndi hæstv. forsrh. með töluverðu mikillæti, að það væri engin ný fjáröflun samfara þessari tímabundnu verðstöðvun gagnstætt hinni frá nóv. 1970. Það er svo, að einmitt í þessu er fólgin blekking. Einmitt í þessu er sönnun um það, að núv. hæstv. ríkisstj, vill ekki horfast í augu við vandann og leysa hann. Fjáröflunin skv. hinni tímabundnu verðstöðvun átti að eiga sér stað með því að draga úr opinberum framkvæmdum allt að 400 millj. kr., jafnvel þó að kostnaður við þessa verðstöðvun væri ekki áætlaður svo hár. En hvernig er útkoman? Hæstv. fjmrh. var gagngert spurður við 1. umr. um fjárlagafrv, fyrir næsta ár, hvernig þessi niðurskurður verklegra framkvæmda hefði verið framkvæmdur. Hann nefndi nokkrar tölur, sem þetta rn. eða hitt rn. ætti að lækka framkvæmdir sínar um. En þegar hann var beðinn að greina frá, hvaða ákveðnu framkvæmdum væri frestað eða dregnar saman, þá voru engin svör fáanleg. Hér er ekki heldur um það að ræða, að við fáum nokkrar frekari upplýsingar um þetta hjá hæstv. forsrh. Þótt fjárlög yfirstandandi árs séu í orði kveðnu afgreidd greiðsluhallalaus, liggja fyrir upplýsingar um, að fyrirsjáanlegur greiðsluhalli sé á ríkisbúskapnum á yfirstandandi ári. Nefndar eru tölur eins og 300 eða 500 millj. kr., þ.e.a.s. þessi tímabundna verðstöðvun er fjármögnuð með halla á ríkisbúskapnum. En halli á ríkisbúskapnum er einmitt til þess fallinn að gera vanda verðbólgunnar enn stærri, þegar til lengdar lætur.

Ég vil vonast til þess, að sú 14–15% kaupmáttarhækkun, sem hæstv. forsrh. gat um, að yrði á þessu ári miðað við árið á undan, væri á rökum byggð, og tölulega skal ég út af fyrir sig ekki draga það í efa, en nefni, að í þessari kaupmáttarhækkun er ekki tekin með í reikning aukning skattbyrðarinnar á yfirstandandi ári, þ. á m. ekki sú skerðing kaupmáttarins, sem hlýtur að vera í því fólgin að hækka beina skatta og fella niður persónuskatta. Við þá aðgerð var ekki, að ég held, haft fullt samráð við aðila vinnumarkaðarins eða launþegana í landinu. En það er auðvitað mál. að það er hægt að sýna fram á kaupmáttaraukningu á einhverju ákveðnu tímabili, eins og hæstv. forsrh. gat um, þegar verið er að eyða sjóðum eða þegar þjóðarbúskapurinn er rekinn með halla, eins og viðskiptahallinn við útlönd ber vitni um, eða þegar ríkissjóður er rekinn með halla, eins og hallinn á ríkisbúskapnum er mikill. Meðan þannig háttar málum, er út af fyrir sig ekki hægt að sýna fram á kaupmáttarhækkun.

En nú vil ég spyrja og vænti þess að fá svar, — ef ekki núna, þá a.m.k. þegar þessi mál eru í heild sinni rædd, en mikil þörf er á því, eins og síðasti ræðumaður gat um, — hvað minnkar kaupmátturinn, ef sú leið er farin, sem hæstv. forsrh. kvað vera persónulega skoðun sína, að taka óbeina skatta út úr kaupgreiðsluvísitölunni? Þá er ljóst mál, að kaupmátturinn lækkar. Og mér er spurn, er það þá svo, þegar þær ráðstafanir hafa verið gerðar, að kaupmáttur hafi e.t.v. ekkert hækkað á valdatíma núverandi hæstv. ríkisstj.? Þá fer lítið fyrir loforði hennar um 20% kaupmáttaraukningu innan tveggja ára.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að hæstv. forsrh. hefur aðeins komið við jaðar vandamálsins, og þótt hann telji það hrósvert af sér að setja fram sínar persónulegu skoðanir fyrir frekar en eftir Alþýðusambandsþing, þá er það ekki hrósvert, nema hann leggi vandamálið í heild sinni fram hér á hv. Alþ. til umr. og úrskurðar fyrir Alþýðusambandsþing eða gefi alþm. svo rúman tíma við meðferð málsins, að ekki verði um fljótaskrift að ræða á afgreiðslu þess, þegar þar að kemur. Sjálfstfl. gerði þá kröfu, þegar þessi brbl. voru sett, að Alþ. yrði kvatt saman og vandamálið lagt fram til umræðu á þingi og hæstv. ríkisstj. gerði till. um úrlausn þess. Hæstv. ríkisstj. varð ekki við þeim áskorunum. Hún bíður enn, að því er sagt er, eftir ráðum sérfræðinga sinna. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. hafi manndóm í sér til þess að leggja þá grg. fyrir Alþ. hið allra fyrsta og jafnhliða sínar eigin till. til úrlausnar vandanum, ef hún hefur þá nokkrar slíkar handbærar.