12.03.1973
Neðri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

176. mál, Fræðslustofnun alþýðu

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja örfáum orðum að þessu máli, áður en það gengur til n. Ég lít svo á, að hér sé fjallað um mikið nauðsynjamál, að vísu, og ég er sammála mörgu af því, sem hv. flm. hafði að segja um málið. Það er áreiðanlega rétt, að þetta málefni, fullorðinsfræðslan, hefur orðið út undan hjá okkur þó nokkuð mikið, og það hefur miðað of hægt að koma skipulagi á þau mál. Ég held, að hv. flm. hafi orðað það svo, að það vantaði þarna hlekk í okkar menntakerfi og því hygg ég, að þarna sé fjallað um mjög mikilvægt málefni í sjálfu sér.

Við vitum, að sjálfsmenntun hefur verið mjög ríkur þáttur í íslenzku menningarlífi og er það trúlega enn þá. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að íslenzkt alþýðufólk sé bæði menntafúst og fróðleiksfúst. Þess vegna er ég sannfærður um það og hef lengi verið, að það sé jarðvegur fyrir skipulagða fullorðinsfræðslu hér á landi, og vissulega þarf að athuga, hvaða leiðir séu færar í þeim efnum. Ég held, að þar komi að vísu ýmsar leiðir til greina og þurfi að kanna þær.

Það eru áreiðanlega margvíslegir möguleikar til þess að miðla þekkingu og menntun, eins og nú er háttað í okkar þjóðfélagi. Við höfum mjög margvíslega fjölmiðla, bæði blöðin og ekki sízt útvarp og sjónvarp. Vissulega ættu menn að leiða hugann að því, hvað hægt er að nota þessa fjölmiðla til þess að efla sjálfsmenntun og fullorðinsfræðslu í landinu. Þess vegna álít ég, að þetta frv. sé mjög athyglisvert vegna efnisins. Hins vegar er ég ekki alveg sannfærður um það, að flm. hafi endilega ratað á rétta leið í tillögugerð sinni.

Þessi fyrirhugaða stofnun, sem um er getið í frv., á að bera nafnið Fræðslustofnun alþýðu, og er það út af fyrir sig kannske ekki óeðlileg nafngift. En mér finnst nokkuð einkennilegt, að eins og þetta frv. er úr garði gert, ef maður lítur til 4. gr., þá er ein fjölmennasta stétt alþýðunnar í landinu, bændastéttin, útilokuð frá beinni aðild að stofnuninni eða stjórn stofnunarinnar. Ég felli mig ekki við þetta og vil gera aths. alveg sérstaklega við þetta atriði. Eins er ekki minnzt á samvinnuhreyfinguna í þessu sambandi, og þó er þar um að ræða líklega fjölmennustu alþýðuhreyfingu á Íslandi, sem á sér að baki hvað lengsta sögu.

Annars tel ég ákaflega vafasamt að byggja fullorðinsfræðsluna upp á einhverjum stéttargrundvelli. Alveg sérstaklega finnst mér óheppilegt að gera það á þann hátt, sem mér virðist koma fram í þessu frv., í 4. gr. sérstaklega, þar sem beina aðild að stjórn stofnunarinnar eiga fyrst og fremst launþegasamtökin, þ. e. Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en það er varla minnzt á aðra starfsstéttir, sem þó eru bæði fjölmennar og láta nokkuð til sín taka.

Þá finnst mér vanta í grg. og raunar einnig í það, sem hv. frsm, hafði að segja, almennar sögulegar upplýsingar um fullorðinsfræðslu og sjálfsmenntun á Íslandi. Það væri miklu betra að átta sig á þessu máli ef slíkt lægi fyrir. Mér finnst þess vegna, að þetta mál þurfi frekari undirbúnings við og hefði verið eðlilegra, eins og á stendur, að hv. flm., sem eru áhugamenn um þetta, hefðu flutt þáltill. um þetta efni, en ekki þetta frv., sem mér finnst að mörgu leyti gallað. Sem sagt, mér finnst m. a., að það hefði þurft að vera þarna nánari grg. um þá möguleika, sem fullorðið fólk hefur til þess að afla sér fræðslu og menntunar, eins og nú háttar í landinu. Það hefði verið mjög gagnlegt að vita meira um starfsemi t. d. bréfaskólanna í landinu, um námsflokkana, um málaskólana og það, hvað iðnskólar og aðrir sérgreinaskólar gera til þess að koma til móts við fullorðið fólk í sambandi við starfsmenntun og öflun starfsréttinda.

Mér finnst því, að þetta mál þurfi meiri undirbúning og við verðum að átta okkur miklu betur á ýmsum þáttum þessa máls, fá um það betri grg., hvernig þetta mál stendur.

Nú er mér kunnugt um, að n. hefur starfað að þessu máli, og ég hygg, að það sé rétt af okkur að bíða álits þessarar n. Ég veit að vísu ekkert um, hvað störfum þessarar n. líður, en ég held þó, að hún sé að störfum og þess sé að vænta, að hún skili áliti sínu innan ekki mjög langs tíma. Ég held því, að við ættum að bíða álits þessarar n. áður en við ákveðum hér á hv. Alþ., hvað gera skuli. Hins vegar er full ástæða til að minna á það við þessa umr., að sú n., sem fjallar um þetta á vegum ráðh., hraði störfum sínum, því að ég er sammála flm. um, að hér er um nauðsynjamál að ræða og eitt af þeim málum, sem við megum ekki vanrækja.