12.03.1973
Neðri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

181. mál, áætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 16. maí 1972 samþykkti Alþ. þál. þess efnis, að skorað væri á ríkisstj. að fela Vegagerð ríkisins að láta á árinu 1972 gera lauslega yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins í samræmi við vegalög og núgildandi vegaflokkun. Þess má geta, að þessi þáltill. í því formi, sem hún var samþ., var flutt af allshn. Sþ. í samræmi við álitsgerð, sem n. barst frá vegamálastjóra um aðra till., sem n. hafði fengið til meðferðar um þessi mál. Í svari við fsp., sem rædd var hér í Sþ. 20. febr. s. l., kom það fram hjá hlutaðeigandi ráðh., að fyrrnefnd þál. hafði ekki verið framkvæmd á árinu 1972, og er ástæðan talin sú, að Alþ., hafi ekki samþ. sérstaka fjárveitingu til verksins. Nú er að vísu fordæmi fyrir því, að ríkisstj. hafi greitt fé úr ríkissjóði samkv. ályktunum Alþ., þótt ekki hafi verið í lagaformi, en rétt þykir eftir atvikum að freista þess að fá efni þál. lögfest, eftir því sem við á nú, og þar með að kostnaður við áætlunargerðina greiðist úr ríkissjóði. Þess vegna er þetta frv. flutt hér á þskj. 332 um, að gerð verði yfirlitsáætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegal. Allir flm. frv. áttu í fyrra sæti í allshn. Sþ. og stóðu þannig að þeirri till., sem samþ. var og ég hef áður vikið að. Nú er það auðvitað svo, að héðan af verður efni þál, ekki framkvæmt á árinu 1972, og leggjum við til í frv., að áætlunin verði gerð á þessu ári, sem nú er að líða, þ. e. a. s. 1973.

Það verður að teljast fullkomlega tímabært, og þótt fyrr hefði verið, að gera sér grein fyrir því, hve mikið af þjóðvegakerfinu þarf að byggja upp og hvað það kostar, til þess að hægt sé að gera raunverulega framkvæmdaáætlun, sem feli í sér heildaruppbyggingu kerfisins á tilteknum tíma. Fyrsta skrefið í þessa átt er að gera þá lauslegu yfirlitsáætlun, sem frv. fjallar um, en gera má ráð fyrir, að áætlunargerðin sé fyrst og fremst í því fólgin að vinna úr þeim gögnum, sem þegar eru fyrir hendi hjá vegagerðinni. Þar sem þessi gögn eru fyrir hendi, býst ég við og við flm., að það þurfi ekki að verða kostnaðarsamt að gera slíka yfirlitsáætlun. Ég hygg, að vegamálastjóri hafi gert ráð fyrir, að kostnaðurinn mundi verða 2–3 millj. kr. Ég hygg, að það muni vera mjög ríflega áætlað og fyrir minni upphæð mætti setja saman í áætlunarkerfi þau gögn, sem fyrir liggja hjá vegagerðinni, þannig að Alþ. geti gert sér grein fyrir því, hversu mikið verkefni er framundan.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. fleiri orð. Það er, eins og ég sagði, flutt til þess að heimila fjárupphæð úr ríkissjóði til að inna af hendi þetta nauðsynjaverk. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.