13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

186. mál, bygging leiguhúsnæðis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir þakkir hv. 1. þm. Vestf. fyrir það, sem gert hefur verið til athugunar þessu máli, sem hér er til umr. Það er að vísu liðinn nokkur tími, síðan þáltill. var samþ., og með tilliti til mikilvægis málsins hefði verið æskilegt, að þetta mál hefði verið lengra komið. En það kann að vera, að gert hafi verið meira en ráða mátti af ræðu hæstv. félmrh. og það megi finna í hinni góðu skýrslu, sem hann afhenti 1. þm. Vestf. Ég vil mega vænta þess, að það fái fleiri þessa ágætu skýrslu, og ég hefði gaman af því að glugga í þá skýrslu. Mér finnst, að hún eigi raunar erindi til fleiri en hv. 1. þm. Vestf.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál, en mér þykir nauðsynlegt að vekja athygli á því, að hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þessi till. hefði verið samþ. með smávægilegri breytingu. Þetta er ekki rétt. Till. var samþ. með mikilvægri breytingu, og urðu einmitt um þau mál ákaflega miklar umr. á síðasta þingi, þegar till. var afgreidd. Sú breyting, sem gerð var, var sú, að þessi rannsókn, sem á að gera, og þær aðgerðir, sem á að gera til þess að ýta undir byggingu leiguhúsnæðis, á ekki að miða einungis við sveitarfélögin, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri till. hv. 1. þm. Vestf. og þeirra félaga, heldur á þetta að miðast líka við aðra þá aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir, þ. e. a. s. þetta á að vera fyrirgreiðsla við alla. Þessi veigamikla breyting var samþykkt eftir till. okkar hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar. Ég vildi aðeins leggja áherzlu á það, að við undirbúning og framhaldsaðgerðir í þessu máli verði tekið tillit til þess, að till. er svona orðuð og aðgerðir eiga að miðast við alla aðila, sem hafa áhuga eða vilja á því að byggja leiguíbúðir.