14.03.1973
Neðri deild: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna það, að ég varð dálítið undrandi, þegar ég sá röð af brtt., sem fram komu hér við 3. umr. málsins, og undraðist, að þær skyldu ekki hafa komið fram fyrr. Nú hefur hv. fyrri flm., Pétur Sigurðsson, gefið á því skýringu, að hann hafi verið bundinn við önnur störf, meðan þessi d. var að fjalla um málið. Mér er það mikið kappsmál að koma þessu frv. áfram, en hins vegar get ég ekki fallizt á þessar till., nema þá sárafáar þeirra. Ég er andvígur þeim flestum. Nú stendur hins vegar þannig á fyrir mér að ég þarf að fara og vera við jarðarför. Ég hafði gert mér vonir um, að við gætum lokið þessari umr. af fyrir tilsettan tíma, en það er greinilega ekki hægt, svo að ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að umr. verði enn einu sinni frestað, þannig að ég geti gert grein fyrir afstöðu minni til þessara till.