15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

144. mál, atvinnulýðræði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í lýðræði felst það, að sérhver einstaklingur hefur rétt til þess að hafa áhrif á stjórn sameiginlegra mála í þjóðfélagi, óskoraðan rétt og jafnan, frjálsan rétt og óháðan öllu valdi annarra, bæði að því er snertir málefni ríkis og einstakra stjórna innan þess, svo sem sveitarfélaga. Forsenda lýðræðis er frelsi á öllum sviðum, málfrelsi, prentfrelsi, fundarfrelsi, trúfrelsi, frelsi til þess að mynda hvers konar samtök til þess að berjast fyrir skoðunum og hugsjónum, þar með talið frelsi til að mynda stjórnmálaflokka. Því fer því miður víðs fjarri, að meginhluti mannkyns búi nú við lýðræði. Það er ekki aðeins í vanþróuðum löndum í efnahagstilliti, þar sem menntun er ábótavant, sem stjórnarfar er ekki grundvallað á lýðræði. Það á einnig við um þróuð iðnaðarríki, þar sem almenn menntun er á mjög háu stigi. En í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku fyrst og fremst á lýðræðið sér langa sögu að baki og hefur náð miklum þroska. Í þessum hluta heims hefur það orðið grundvöllur þeirra þjóðfélaga, sem náð hafa lengst á sviði velmegunar og velferðar og orðið undirstaða andlegs þroska og framþróunar í menningarmálum, sem fært hefur hundruðum milljóna hamingju.

Á undanförnum áratugum hafa menn í lýðræðisríkjum smám saman gert sér æ ljósara, að það lýðræði, sem nefna mætti stjórnarfarslegt lýðræði og hefur andlegt frelsi að forsendu, er eitt sér ekki nægilegt til þess að tryggja einstaklingnum að fullu það jafnrétti, sem er þó höfuðtilgangur þess, að hann öðlist. Þótt það sé einstaklingi auðvitað mikilvægt að geta haft frjáls og jöfn áhrif á skipan sameiginlegra mála í þjóðfélagi, getur ójöfnuður í efnahagsmálum valdið ranglæti. Þótt einstaklingurinn geti haft áhrif á stjórn ríkis og sveitarfélaga getur rangsleitni siglt í kjölfar þess, ef hann hefur engin skilyrði til áhrifa á stjórn atvinnutækja, sem starfrækt eru í þjóðfélagi og ráðið getur úrslitum um afkomu hans og hag.

Jafnaðarmenn tók að gera sér grein fyrir þessum staðreyndum fyrir meira en einni öld. Það var kjarni í kenningakerfi þeirra, jafnaðarstefnunni, að áhrif einstaklinganna á atvinnulífið og réttláta skiptingu eigna og tekna þyrfti að tryggja með því að þjóðnýta atvinnutækin. Síðar var þeirri kenningu bætt við, að haga ætti framleiðslu og neyzlu í samræmi við gerðar áætlanir þ. e. að stunda áætlunarbúskap.

Á undanförnum áratugum hafa skoðanir jafnaðarmanna í þessum efnum smám saman verið að breytast. Grundvallarhugsjónin, um réttlátt og frjálst þjóðfélag, er enn hin sama, að einstaklingarnir eigi rétt til áhrifa á stjórn atvinnutækja og nauðsynlegt sé, að framleiðslu og neyzlu sé hagað í samræmi við skynsamlega áætlunargerð. En aukin fræðileg þekking á lögmálum markaðshagkerfis og vaxandi skilyrði ríkisvalds og opinberra stofnana til þess að hafa áhrif á framleiðslu og neyzlu og þar með skiptingu tekna og eigna hafa rennt rökum undir þær skoðanir, að allsherjarþjóðnýting allra atvinnutækja sé ekki vænlegasta leiðin til að auka framleiðslu og tryggja réttláta tekjuskiptingu né heldur að miðstýrð allsherjaráætlanagerð sé líkleg til að tryggja hin hagkvæmustu not framleiðsluafla, — þá framleiðslu, sem sé í nánustu samræmi við óskir neytenda og þá tekjuskiptingu, sem talin er réttlátust. Reynsla kommúnistaríkja í Austur-Evrópu virðist og hafa orðið einmitt þessi. Þar hafa komið í ljós margs konar ágallar á hinni algeru þjóðnýtingu, sem þar hefur verið framkvæmd, og hinni miðstýrðu allsherjaráætlanagerð, sem beitt hefur verið. Þess vegna hafa sum kommúnistaríkjanna vikið í verulegum atriðum frá hinum gömlu kenningum, svo sem Júgóslavía. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að stjórnendur Tékkóslóvakíu vildu á sínum tíma hverfa frá þessum hugmyndum í verulegum atriðum, en fengu því ekki ráðið vegna erlendra afskipta. Í Sovétríkjunum sjálfum er einnig rætt um áberandi galla á allsherjarþjóðnýtingunni og hinum miðstýrða áætlunarbúskap þar í landi, og ýmsar hugmyndir eru uppi um breytingar.

Skoðanir jafnaðarmanna um víða veröld eru nú yfirleitt á þá lund, að í þjóðfélagi, sem búa eigi þegnum sínum sem bezt lífskjör og sem mest réttlæti í efnahagsmálum og eigi því skilið nafnið velferðarríki, eigi rekstur atvinnutækja sumpart að vera í höndum opinberra aðila þ. e. ríkis og sveitarfélaga, sumpart í höndum samvinnufélaga og sumpart í höndum einkaaðila, síðan eigi ríkisvald og opinberar stofnanir að hafa aðstöðu til þess að hafa heildaráhrif á það, hvernig framleiðsluskilyrðin eru hagnýtt og hvernig þjóðartekjum er skipt, með heildaráætlanagerð, sem sé leiðbeinandi fyrir alla atvinnustarfsemi, og með stefnu sinni í fjármálum ríkisins og bankamálum, jafnhliða því sem almannatryggingakerfi og skattakerfi sé beitt til réttlátrar tekjujöfnunar, auk þess sem hið opinbera telur skyldu sína að sjá borgurunum fyrir fullkominni heilsugæzlu og sem mestri menntun, sem auðveldustum aðgangi að hvers konar menningarverðmætum og skilyrðum til heilbrigðs lífs á öllum sviðum. Auðvitað er hér um að ræða markmið, sem ekki er auðhlaupið að ná, en jafnaðarmenn telja þó, að keppa beri að.

Einn þáttur í þeirri viðleitni að efla áhrif einstaklinga á stjórn atvinnutækja hefur á undanförnum árum og áratugum verið sá að veita starfsmönnum fyrirtækja aðild að stjórn þeirra. Hefur þetta verið nefnt atvinnulýðræði. Í ýmsum löndum hefur verið sett löggjöf um þetta efni, og má þar tilnefna Noreg, Vestur-Þýzkaland, England, Holland og fleiri lönd. Á allra síðustu árum hefur verið gengið enn lengra í þessum efnum. Á það hefur verið bent, að ekki sé nóg að veita starfsmönnum fyrirtækja aðild að stjórn þeirra, þeir eigi einnig eðlilegan rétt á því að öðlast aðild að eignarréttindum á fyrirtækjunum. Framleiðsla sérhvers fyrirtækis sé árangur af samstarfi vinnu starfsmannanna, fjármagns og náttúruauðlinda. Starfsmennirnir láti í té vinnuna, framleiðslutækin og náttúruauðlindirnar séu eigu einstaklings eða einstaklinga og þeir séu nefndir eigendur fyrirtækjanna. Verðmætin, sem fyrirtækin skapi, séu árangur af samstarfi þeirra, sem vinna, og hinna, sem eiga. Þess vegna sé réttlæti fullnægt með því einu, að hreinn árangur starfsins, þ. e. ágóði fyrirtækjanna, verði með einum eða öðrum hætti sameign þeirra, sem hafa skapað hann, starfsmannanna og þeirra, sem hafa eignarráð yfir framleiðslutækjunum og náttúruauðlindunum. Hér er í raun og veru um að ræða náskyldar hugmyndir þeim, sem vöktu fyrir fyrstu jafnaðarmönnunum, þótt ekki sé hér tilætlunin að jafna metin milli vinnu og eignarréttar með þjóðnýtingu.

Löggjöf þeirra landa, sem sett hafa lög um atvinnulýðræði, grundvallast fyrst og fremst á því að tryggja starfsmönnum aðild að stjórn fyrirtækjanna. Þannig er t. d. um norsku löggjöfina um atvinnulýðræði, sem sett var 1969. Í henni er ákvæði um, að séu færri en 50 starfsmenn við fyrirtæki, sé heimilt að ákveða hlutdeild starfsliðs í stjórn, en það sé samningsatriði. Um fyrirtæki með 50–200 starfsmenn gildir hins vegar sú regla, að óski helmingur starfsmanna skriflega eftir aðild að stjórn fyrirtækis, skuli veita hana. Fá þeir þá ekki færri en tvo stjórnarmenn, en ekki meira en þriðjung stjórnar. Þessi skipan mun nú taka til rúmlega 750 fyrirtækja í Noregi, og er starfsmannafjöldi þeirra um 72 þús. Þegar fyrirtæki eru stærri en þetta, er skylt að koma á fót svonefndu rekstrarráði. Skulu í því vera 12 fulltrúar. Kýs starfsliðið þriðjung þeirra, en aðalfundur hlutafélagsins 2/3. Hefur ráð þetta talsverð völd og er aðili að þýðingarmiklum ákvörðunum um rekstur fyrirtækisins.

Jafnaðarmannastjórnin danska hefur nýlega lagt fram frv. um atvinnulýðræði, sem er mun víðtækara en norska löggjöfin. Þar er ekki einungis um að ræða ákvæði um aðild starfsmanna að stjórn fyrirtækja, heldur má segja, að aðalatriði till. dönsku stjórnarinnar séu ráðstafanir til að tryggja eignarrétt starfsmannanna að fyrirtækjunum, ekki í skyndingu, heldur með ráðstöfunum, sem smám saman eiga að koma til framkvæmda. Grundvallaratriðið er það, að atvinnurekendur eiga að greiða launaskatt í sérstakan sjóð, 1% á fyrsta árinu, en síðan á tillagið að vera komið upp í 5% á árinu 1981. Þessi sjóður á að verða eign launþega, og geta þeir fengið hann greiddan, ef fyrirtækið hættir störfum. Sérstakar reglur eiga þó að gilda um það, hvernig launþegar eiga að geta fengið hlutdeild sína í sjóðnum greidda. Sjóðurinn á hins vegar fyrst og fremst að vera starfsfé hlutaðeigandi fyrirtækja, og er því í rauninni um það að ræða, að haldið er eftir í fyrirtækinu hluta af hagnaði þess, en þessi hluti verður eign starfsmannanna. Fyrirtækin mega greiða allt að 2/3 hluta af launaskattinum með hlutabréfum, þar til starfsliðið nær því marki að eiga helming hlutafjárins. Semja má um, hvort hlutabréfagreiðsla verði meiri eða minni eftir því, hverjar aðstæður eru hjá fyrirtækinu og hvað starfsfólkið fellst á. Mergur málsins er sá, að sjóðurinn á að vera starfsfé atvinnufyrirtækjanna sjálfra, en ekki leggjast í lánastofnanir. Stjórn hins nýja sjóðs á að vera þannig skipuð, að launþegasamtökin skipa 3/5 hluta stjórnarinnar, en ríkisstj. skipar 2/5 hluta hennar. Hins vegar á starfslið hvers fyrirtækis að velja fulltrúa til að fara með þau atkv. á aðalfundi, sem hlutafjáreign sjóðsins veitir rétt til. Þannig öðlast fulltrúar starfsfólksins áhrif á stjórn fyrirtækjanna. Eru þetta merkar till. og róttækar.

Við þm. Alþfl., sem flytjum þessa till., tökum ekki afstöðu til þeirra hugmynda, sem löggjöf einstakra landa um atvinnulýðræði byggist á, né heldur annarra hugmynda, sem fram hafa komið í nálægum löndum um þessi efni. Tilgangur okkar með flutningi till. er sá að vekja athygli á þessu máli, sem tvímælalaust má telja mikið hagsmunamál alls almennings í öllum lýðræðisríkjum og mundi gera lýðræðisréttindi fullkomnari en þau eru nú. Við teljum tímabært, að þetta mál sé kannað til þrautar, og líklegustu leiðina til þess vera þá, að ríkisstj. skipi n. til að semja frv. til l. um þessi efni og verði það meginefni frv., að launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra. Þetta teljum við þm. Alþfl., að verði stærsta og raunhæfasta sporið, sem nú væri hægt að stíga til eflingar raunverulegs lýðræðis á Íslandi.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. að loknum fyrri hluta umr. vísað til hv. allshn.