20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

157. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir heldur miður, að hv. flm. þessarar till. eru engir hér við, en ég hafði hug á því að gera hana að umræðuefni, og þar sem hæstv. forseti hefur tekið hana hér á dagskrá, þá vil ég gera það, þó að það sé heldur undarlegt af hv. flm., sem vissu af því, að till, yrði tekin á dagskrá, að þeir skyldu ekki vera hér við og hlýða á það, sem við aðrir hv. þm, höfum að segja um þessa till.

Það er nokkur tími liðinn síðan ég kvaddi mér hljóðs út af þessu máli, sem hér er á dagskrá. Ég hafði þá fyrst og fremst í huga, eftir að 1. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, flutti framsöguræðu sína, að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að hv. flm. skyldu telja sig þurfa að leggja til við hv. Alþ., að það kjósi n. manna til þess að finna fyrir þá stefnu í byggðamálum. Á það er að líta, að hv. þm. hafa stutt hæstv, núv. ríkisstj. í nærfellt 2 ár, og flesta langminnuga menn hér á hv. Alþ. rekur áreiðanlega minni til þess, að þessir hv. þm. og raunar flestir framsóknarmenn þóttust hafa ráð undir rifi hverju í byggðamálum, áður en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hæstv. var mynduð, og þurfti þá enga n. að skipa til þess að finna þá stefnu.

Ég er algerlega sammála hv. 2. þm. Vestf. um, að sú till., sem hér er til umr., er alls ekki, eins og fyrirsögnin ber með sér, um mótun byggðastefnu, heldur er hún um að skipa n. til þess að leita að slíkri stefnu. N. á að kanna eitt, athuga annað og leggja síðan drög að stefnu í byggðamálum fyrir þingheim. Í grg, er látin í ljós sú veika von, að þau drög sjái dagsins ljós að ári liðnu, þannig að gera má ráð fyrir því, að með þessum hætti gefist hv. Alþ. ekki kostur á því fyrr en á þinginu 1974–1975 að taka endanlega afstöðu til málsins, og er þá fyrst hægt að undirbúa ný átök í byggðamálum í samræmi við þessa till. Það er því engu líkara en þessari till. sé ætlað að slá öllum meiri háttar aðgerðum í byggðamálum á frest, þangað til algerlega öruggt sé, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi hrökklazt frá völdum. Þetta kann að benda til þess, að hv. flm. till. sé farið að verða ljóst lánleysi hæstv. ríkisstj. í byggðamálum. Till. verður a. m. k. aldrei skilin sem traustsyfirlýsing á byggðastefnu ríkisstj., ef stefnu skyldi kalla, og er hún að því leyti góðra gjalda verð. Á hitt er að líta, að samþykkt hennar táknar algerlega óþarfa og hættulega frestun á nýjum og öflugum aðgerðum í byggðamálum. Hún er vanhugsuð og ákaflega varhugaverð, svo að ekki sé meira sagt, verði hún samþ. óbreytt.

Ég hef ásamt 8 öðrum hv. þm. sjálfstæðismanna leyft mér að flytja aðra till. um nýskipan byggðamála og ný átök til þess að stuðla að hagkvæmri byggðaþróun. Till. er á þskj. 383 Sú till. er afdráttarlaus. Með henni gefst hv. Alþ. kostur á að móta þegar í stað nýja byggðastefnu og byggja á þeim grunni, sem var lagður s. l. áratug af fyrrv. ríkisstj. Ef sú till. er athuguð og sér í lagi ítarleg grg., sem henni fylgir, kemur í ljós, að þegar er fengin mikilvæg reynsla af ýmsu því, sem till. hv. þm. Steingríms Hermannssonar og fleiri gerir ráð fyrir að athuga þurfi og kanna. Þegar er fyrir hendi nægileg þekking á orsökum og afleiðingum byggðaröskunar til þess að taka þegar í stað róttækar ákvarðanir í byggðamálum. Á sama hátt er víðtæk þekking til taks um það, hvað aðrar þjóðir eru að gera í þessum málum. M. a. er vitað, að byggðamálin í næstu nágrannalöndum vekja ekki minni athygli almennings og stjórnmálamanna en sjálf umhverfismálin og umfangsmikil lagasmíð hefur átt sér stað í þessum löndum á þessu sviði hin síðustu ár. Í kjölfarið hefur einnig verið gripið til stórfelldra ráðstafana til hagkvæmrar byggðaþróunar. Um þetta liggur fyrir næg vitneskja hér á landi, til þess að unnt sé þegar í stað að taka afstöðu til till. okkar sjálfstæðismanna. Ég vil þó taka skýrt fram, að því fer fjarri, að ekki þurfi að skoða betur þá þætti byggðamálanna, sem hér er minnt á, en þeir eiga eðli málsins samkvæmt að vera sífellt í endurskoðun hjá ákveðnum aðila, og verður aldrei hægt að gera þeim skil í eitt skipti fyrir öll af nefnd.

Mjög athyglisvert í þessu máli er, að fram koma svo til nákvæmlega sömu rök í grg. með till. okkar sjálfstæðismanna og í framsöguræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar, þ. e. a. s. um hættuna á aukinni byggðaröskun frá því, sem verið hefur um skeið, og einnig, að ef áframhaldandi byggðaröskun verði, sé um stórfellda verðmætafórn að ræða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, þ. e. a. s. að byggðavandinn sé efnahagslega og félagslega dýr þjóðinni allri, verði hann ekki leystur. Þegar þetta er skoðað, að hér er um algerlega samdóma álit að ræða, er enn þá meiri ástæða til þess að undrast, að hv. þm., sem flytja þá till., sem hér er til umr., skuli ekki krefjast tafarlausra aðgerða og beita sér fyrir því, að sú ríkisstj., sem þeir styðja, framkvæmi þær, í stað þess að óska eftir tímafrekum athugunum og drepa málinu þannig á dreif. Það er einnig athyglisvert, að fram kemur í grg, og enn þá skýrar í framsöguræðu hv. 1. flm., að flytjendur till. telja Framkvæmdastofnunina ófullnægjandi til yfirstjórnar byggðamálanna, og eins og hv. 1. flm. sagði einnig orðrétt, að dreifbýlismálin séu eins konar aukastarf í ríkisbákninu. Þeir tæpa á því í grg., að stefna beri að því að fá rn. í yfirstjórn byggðamálanna. Hvers vegna setja flm. ekki fram beina till. þess efnis, ef þeir eru þessarar skoðunar, eins og glöggt kom fram í máli 1. flm., að eitt rn. eigi að annast yfirstjórn byggðamálanna.

till. til þál., sem hér er til umr., gefur vissulega tilefni til miklu fleiri spurninga um stefnu framsóknarmanna í byggðamálum. Ég ætla þó að láta það ógert að sinni. Hjá því verður þó ekki komizt að vekja athygli á þeim dæmafáa málflutningi, sem þessir menn hafa gert sig seka um í þessu sviði þjóðmálanna, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði þó að væri mikilvægara mál fyrir þjóðarbúið í heild en landhelgismálið og efnahagsmálin til samans.

Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um þá þætti byggðamálanna, sem framsóknarmenn og líklega stjórnarsinnar allir telja sig vafalaust hafa gert vel. Það er opinbert leyndarmál, að framsóknarmenn beittu sér mjög fyrir setningu laga um Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeir féllu þó strax frá því skilyrði, sem þeir höfðu fengið inn í málefnasamning ríkisstj. og mér fannst miður, að þeir skyldu falla frá, að byggðasjóður skyldi hafa sérstaka stjórn og þannig innsigluðu þeir, að nokkur hluti byggðamálanna yrði eins konar aukastarf í ríkisbákninu, svo að notuð séu orð hv. 1. þm. Vestf. Nú hafa þeir komizt að raun um, að þessi Stofnun (með stóra essinu) sé ófullnægjandi í yfirstjórn byggðamála, enda segir mér svo hugur um, að henni hafi gefizt lítill tími til að sinna þeim málum, t. d. byggðaáætlanagerð, sem þó skyldi gera fyrir nær öll byggðarlög á landinu, að því er mér skildist af ræðum hv. stjórnarsinna, þegar verið var að koma lögum um stofnunina í gegn hér á hv. Alþ. Ég vil taka skýrt fram, að hér er ég ekki að ásaka starfslið þessarar stofnunar, sem er yfirleitt ágætisfólk. En lái þeim hver sem vill, þótt þeir sinni ekki þessum málum, þegar þeir standa allir í austri og þjóðarskútan er hriplek og liggur undir slíkum áföllum frá hálfu stjórnenda sem raun ber vitni. Á slíkum tímum gefst lítill tími til að hugleiða framtíðarstefnu.

Í grg. þeirrar till., sem hér er til umr., er ekki minnzt á aðgerðir fyrrv. ríkisstj. í byggðamálum. En þar er vikið að því sem sérstöku afreki, að byggðasjóður hafi verið efldur með auknu ríkisframlagi fyrir tilstuðlan núv. hæstv. ríkisstj. Þetta er rétt út af fyrir sig. En sá böggull fylgdi skammrifi, að hæstv. ríkisstj. ákvað. að byggðasjóður skyldi lána stórfé til togarakaupa, sem margir hverjir verða gerðir út án byggðasjónarmiða. Þetta hefur gert byggðasjóð fjárvana til þess að gegna eiginlegu hlutverki sínu á óðaverðbólgutímum.

Eitt af því, sem hv. þm. Framsóknar og stjórnarsinnar yfirleitt telja, að þeir hafi vel gert í byggðamálum, er vafalaust lagasetning sú, sem átti sér stað á síðasta þingi um jöfnun námsaðstöðu. Ég vil ekki draga neina fjöður yfir það hér, að þetta er merk löggjöf, og stjórnarsinnar eiga heiður skilið að sínum hluta, en lögin voru samþ. shlj., eins og menn muna, hér á hv. Alþ. Einnig er rétt að minna á, að þetta skref var stigið í framhaldi af því, að viðreisnarstjórnin tók upp fjárveitingu á fjárl. til þess að styrkja nemendur úr strjálbýli til framhaldsnáms utan heimabyggðar og sjálfstæðismenn höfðu flutt till. til þál. um að byggja með lagasetningu á þeim grunni.

Fleira mætti vafalaust til tína, sem núv. hæstv. ríkisstj, gumar af að hafa komið í verk og hún telur hafa horft til heilla byggðaþróun í landinu. Hæstv. ríkisstj. tók sig til og breytti áætlun um rafvæðingu strjálbýlis, sem viðreisnarstjórnin hafði gert, þannig að hún segist stefna að því að ljúka rafvæðingunni á 3 árum í stað 4. Efndirnar eiga hins vegar eftir að koma í ljós.

Vera má, að hv. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., telji, að þáttur hv. þm. Framsóknar og annarra stjórnarsinna í því að koma framangreindum málum fram sé svo mikið afrek í byggðastarfi, að nú megi leggjast undir feld, svo að árum skipti, og fresta stórátökum, þar til n. hafi lokið umfangsmiklum athugunum og könnunum á öllum hliðum byggðamálanna. Þótt það sé sízt vanþakkað, sem gert hefur verið og hefur raunhæft gildi til þess að stuðla að hagkvæmri byggðaþróun, get ég ekki gert að því, að sé þetta skoðun hv. flm., finnst mér lítið leggjast fyrir þá kappa, sem töldu sig hafa ráð undir rifi hverju í byggðamálum, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þá fluttu þeir þing eftir þing frv. til l. um byggðajafnvægisstofnun ríkisins, sem vera átti sérstakt ríkisbákn og fá 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs sem sérstakt ríkisframlag auk annarra tekna. Þá þurfi enga n. til kannana og athugana. Mér þætti undarlegt, ef ég væri einn um að spyrja með sjálfum mér, hvar og hvenær hv. þm. Framsóknar hafi glatazt sú vizka í byggðamálum og ráðsnilld, sem birtist hér áður á árum í þskj. og þeir töldu sig hafa á hraðbergi. Þetta undrast áreiðanlega fleiri en ég og þá ekki síður, að þegar hv. þm. Framsóknar tóku að sér að mynda ríkisstj. eftir 12 ára eyðimerkurgöngu, þá var það fyrsta verk þeirra að stráfella með nafnakalli hér á hv. Alþ. megintill. sínar í byggðamálum, en eins og menn rekur minni til, felldu þeir brtt. við fjárlög ársins 1972, sem fól í sér það framlag úr ríkissjóði til byggðasjóðs, sem þeir sjálfir höfðu gert till. um á undangengnum þingum. E. t. v. þarf engan að undra, að slík vinnubrögð stjórnmálaflokks, eins og framsóknarmanna í byggðamálum, að flytja þing eftir þing ákveðnar till. í stjórnarandstöðu og fella þær svo við fyrsta tækifæri, þegar þeir styðja ríkisstj., rugli menn í ríminu. Þetta kann að vera skýringin á því, að þeir flytja nú till. um, að n. manna setjist á rökstóla a. m. k. í eitt ár til þess að leita á ný að stefnu fyrir þá í byggðamálum.

Því miður er það svo, að lánleysi hv. flokksbræðra flm. þessarar till. er ekki einungis fólgið í því á þessu mikilvæga sviði þjóðmálanna, sem hér er til umr., að gera till. um eitt í dag og fella þær á morgun, heldur er sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í fjár- og efnahagsmálum, í megindráttum til þess fallin að auka á röskun byggðar í landinu. Á þessu hljóta flm. og allir hv. framsóknarmenn að bera þunga ábyrgð, þar sem þeir eiga að heita forustuflokkur hæstv. ríkisstj. Ég mun nú víkja örlítið að því, hvaða afleiðingar meginstefna ríkisstj. á framangreindum sviðum hefur á þróun byggðar í landinu.

Flestum landsmönnum er ljóst, í hvert öngþveiti er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar, bæði vegna stefnu hæstv. ríkisstj. og sundurlyndis og einnig nú í seinni tíð vegna utanaðkomandi örðugleika. Það er afar athyglisvert, hvernig hæstv. núv. ríkisstj. hefur æ ofan í æ leitazt við að leysa þennan vanda á kostnað landsbyggðarinnar. Þetta kom skýrt fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, þegar þessi till. var síðast á dagskrá. Hann rakti þá í óhrekjandi tölum, hvernig niðurskurður verklegra framkvæmda, sem ríkisstj, hefur framkvæmt, hefur komið með miklu meiri þunga niður á byggðalögum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Hér er óþarfi að rekja þessar tölur nánar, þær tala sínu máli og eru óhrekjandi. Ég vil enn á ný, eins og oft áður, vara við því, að reynt sé að leysa fjármálaöngþveitið, sem nú er við að glíma, með þessum hætti. Auðvelt er að sýna fram á, að niðurskurður framkvæmda, sem þyngst kemur niður á landsbyggðinni, er miklu líklegri til að auka á öngþveiti og óðaverðbólgu heldur en hitt.

Við skulum taka dæmi til frekari skýringa. Á árinu 1972 var skorinn niður fjárveiting til hafnarframkvæmda á Þórshöfn á Langanesi. Þetta átti m. a. sinn þátt í, að meginhluti flota Þórshafnarbúa slitnaði frá bryggju og rak á land í aftaka óveðri, sem gerði nú í vetur. Hér var um gífurlegt tjón að ræða fyrir íbúa þorpsins og þjóðarbúið allt. Af þessu áþreifanlega dæmi má draga margan lærdóm, en hér ætla ég að benda fyrst og fremst á tvennt. Í fyrsta lagi eru verklegar framkvæmdir, svo sem í fiskihöfnum á landsbyggðinni, miklu þýðingarmeiri fyrir sjálfa tilveru viðkomandi byggðarlaga en slíkar framkvæmdir eru á höfuðborgarsvæðinu. Og í öðru lagi eru slíkar framkvæmdir hlutfallslega miklu þýðingarmeiri fyrir allt atvinnulífið úti um land en hér í þéttbýlinu við Faxaflóa. Sú hætta fylgir því augljóslega verulegum niðurskurði á verklegum framkvæmdum í landsbyggðinni, að fólk hinna ýmsu byggðarlaga fyllist vonleysi um, að skilningur stjórnvalda sé nægilegur á lífsnauðsyn ýmissa undirstöðuframkvæmda á staðnum, og það taki sig því upp og flytjist búferlum þangað, sem unnt er að hafa öruggari afkomu og lifa í félagslega þróaðra umhverfi. Sú hætta fylgir m. ö. o. slíkum niðurskurði framkvæmda á landsbyggðinni sem núv. ríkisstj. hefur framkvæmt, að þær aðgerðir auki á fólksflutninga af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Við það dregur ekki einungis úr þrótti byggðarlaganna úti um land, heldur eykst þrýstingur á húsnæðismarkaðinn hér á höfuðborgarsvæðinu og þrýstingurinn á ýmiss konar opinberar framkvæmdir hér. Afleiðingarnar eru því augljóslega þær að auka á verðbólguna og efnahagsöngþveitið auk þess að gera byggðavandann enn þá torleystari, bæði efnahagslega og félagslega.

Úr því að ég er farinn að tíunda hér afleiðingar stefnu eða stefnuleysis hæstv. ríkisstj. í þróun byggðar í landinu, er ekki úr vegi að minna á þann þátt, sem e. t. v. veldur meiri röskun, þegar til lengdar lætur, heldur en niðurskurður framkvæmda, Hér á ég við þá áráttu hæstv. ríkisstj. að þenja út miðstjórnarbákn ríkisins. Það líður varla sá dagur, að hér á hv. Alþ, komi ekki fram frv. um nýja ríkisstofnun eða að stjórnarathafnir leiði ekki til stóraukins mannahalds hjá ríkisstofnunum. Engum getur dulizt, til hvers þetta leiðir, þegar haft er í huga, að nær allar þessar stofnanir eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta leiðir til þess, að landsmenn allir standa undir æ umfangsmeiri og fjölþættari atvinnurekstri á einum stað í landinu. Fólkið á landsbyggðinni þarf því ekki einungis að sjá á bak sívaxandi fjölda menntafólks á ríkisjötuna í Reykjavík, heldur þyngjast skattar þess árlega til þess að standa undir þessu bákni, sem þenst út með sívaxandi hraða. Með þessu er ekki öll sagan sögð. Auðvitað þarf þetta fólk, sem bætist á launaskrá hjá öllu landsfólkinu, sína þjónustu og það þarf sínar nauðsynjavörur. Þær atvinnugreinar á höfuðborgarsvæðinu, sem framleiða þessar vörur og þjónustu, þurfa því að bæta við sig starfsfólki og aðstöðu. Ég fullyrði því, að sú barnatrú valdamikilla afla í hæstv. núv. ríkisstj. að þenja út miðstjórnarbákn ríkisins dregur miklu meiri dilk á eftir sér en flesta grunar. Þessi stefna á tvímælalaust ríkan þátt í því að auka á þá þenslu, sem nú keyrir úr öllu hófi fram á einum stað á landinu, og á þar með gildan þátt í því að kynda undir verðbólgubálinu, jafnframt því sem hún stóreykur röskun byggðar í landinu. Það kórónar svo skilningsleysi hæstv. ríkisstj. á því, hvað hún er að gera í þessu efni, að hún telur sig leysa vandann með því að skera niður verklegar framkvæmdir í miklu ríkara mæli á landsbyggðinni en á því svæði landsins, þar sem hún sjálf hefur skapað þenslu og óðaverðbólgu með útþenslu ríkisbáknsins.

Herra forseti. Í grg. með þáltill., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt um byggðamál, kemur fram, að við erum algerlega sammála hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., um þá stórfelldu hættu, sem nú er á aukinni byggðaröskun frá því, sem verið hefur um skeið. Til viðbótar þeim rökum, sem hv. 1. flm. nefndi fyrir þessu, hef ég leyft mér að benda einnig á, að stefna hæstv. núv. ríkisstj. í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum geri þessa hættu enn þá meiri og augljósari. Fram kemur einnig í grg. með okkar till., að við erum algerlega sammála hv. 1. flm. þessarar till., sem hér er til umr., Steingrími Hermannssyni, að aukin byggðaröskun, sem nú er vaxandi hætta á, hefur í för með sér mikla félagslega og efnahagslega verðmætafórn fyrir þjóðarbúið allt, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum byggðum landsins. Því leggjum við fram beinar og afdráttarlausar till. hér á hv. Alþ. í byggðamálum á þskj. 383 og væntum þess, að hv. þm. geti fallizt á það með okkur, að nú þegar verði að gera ráðstafanir, nýjar og öflugar ráðstafanir, til þess að hamla gegn þeirri röskun byggðar, sem fyrirsjáanleg er og er jafnóhagkvæm þjóðarbúinu og stutt hefur verið rökum. Því má ekki fresta aðgerðum með því að samþykkja þá till., sem hér er til umr., eins og hún er nú orðuð. Það gæti frestað verulegum aðgerðum um allt of langan tíma.