21.03.1973
Efri deild: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

204. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta málefni, frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem ég og hv. 1. þm. Vestf. flytjum, gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. geti látið byggja hagkvæmar, ódýrar íbúðir í samvinnu við sveitarfélögin utan Reykjavíkur.

Það kemur fram í grg., að 28. apríl 1967 var gefin út reglugerð um íbúðabyggingar ríkisins og Reykjavíkurborgar, þ. e. a. s. hinar svonefndu Breiðholtsframkvæmdir. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að byggja 1250 íbúðir í Reykjavík á árunum 1966–1970. Hins vegar hafa byggingarframkvæmdir dregizt nokkuð, eins og kunnugt er.

Ég vil fyrst gera að umtalsefni spurninguna um, hvort það sé rétt, að ríkisvaldið og eitt verkalýðsfélag geri með sér samkomulag um að ráðstafa hluta af ráðstöfunarfé hins almenna húsnæðislánakerfis til eins einasta sveitarfélags í landinu. Hið almenna húsnæðislánakerfi er ætlað öllum landsmönnum. Það er ætlazt til þess, að þeir, sem uppfylla viss skilyrði, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, geti fengið þá fyrirgreiðslu hjá húsnæðislánakerfinu, sem lög mæla fyrir um. Þess vegna vaknar spurningin: Er eðlilegt að gera slíka samninga, ráðast inn á þetta almenna kerfi og ráðstafa vissum hluta af ráðstöfunarfénu til eins einasta sveitarfélags, eins og raunverulega gerðist? Reglugerðin frá 1967, sem vitnað er til í grg., er í raun og veru staðfesting, að því er ég hygg, á samkomulagi milli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík og ríkisstj. Ég er hræddur um, að íbúar utan þessa svæðis hafi sitthvað við það að athuga að ráðstafa hluta af ráðstöfunarfé, sem allir eiga að hafa aðgang að í raun og veru, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, til eins einasta sveitarfélags.

Ef við lítum á þessi mál dálítið nánar, þá hygg ég, að það sé ekki fjarri lagi, að á árinu 1972 hafi um 270 millj. kr. verið ráðstafað í Breiðholtsframkvæmdir úr hinu almenna húsnæðislánakerfi. Ég hygg, að það sé upp undir þriðjungur af ráðstöfunarfé húsnæðislánakerfisins. Ef við lítum á þetta enn nánar, þá er alkunn staðreynd, að á undanförnum árum og áratugum hefur fjármagn runnið til Reykjavíkur í stórum straumum utan af landsbyggðinni í íbúðarhúsabyggingar í höfuðstaðnum. Menn hafa talið það úti á landsbyggðinni, að þeir tryggðu ekki betur sitt sparifé, margir hverjir, en með því að setja það í fast, eins og það er kallað, og þá sérstaklega í íbúðarhúsnæði í Reykjavík, vegna þess að íbúðir hafa verið í svo háu verði á þeim markaði. Þannig hefur verulegt fjármagn runnið eftir þessum leiðum til Reykjavíkur. Hve mikið, veit auðvitað enginn. En þetta hefur leitt til þess, að menn hafa með því að leggja fram fjármagn í íbúðir í Reykjavík auðveldað hér aðgang að hinu almenna húsnæðislánakerfi. Það verður að teljast þjóðhagslega óeðlilegt og óæskilegt, að fjármagn þjóðarinnar dragist um of og á óeðlilegan hátt í fjárfestingu í húsnæði hér í borginni og frá fjárfestingu úti á landsbyggðinni.

Ég vil láta í ljós þá skoðun, að óeðlilegt sé að ráðast inn í almenna húsnæðislánakerfið með því að ráðstafa hluta af því og það ekki óverulegum hluta til eins sveitarfélags. Þess vegna er frv. okkar hv. 1. þm. Vestf. að mínu mati sjálfsagt mál, og þegar þessum byggingarframkvæmdum í Breiðholti lýkur, verði í reynd komið að landsbyggðinni til þess að reyna að rétta af þann mikla halla, sem þessar framkvæmdir hafa haft í för með sér gagnvart aðgangi fólks utan af landsbyggðinni að hinu almenna húsnæðislánakerfi. Hvernig er ástandið í húsnæðismálunum úti á landsbyggðinni, úti í kaupstöðunum og kauptúnunum, sem mest standa t. d. undir útflutningsframleiðslu þjóðarinnar, sérstaklega þó í sjávarútveginum? Hvernig er ástandið? Ástandið er bókstaflega þannig á hverjum einasta stað, að það vantar húsnæði og þar af leiðandi vantar fólk, því að það er ekki hægt að fá fólk til þess að flytjast til þessara staða til þess að taka þátt í atvinnulífinu, nema það hafi möguleika á húsnæði á staðnum. Þess vegna hygg ég, að þetta mál sé þjóðhagslega séð mjög alvarlegt mál. Þetta frv., sem við flytjum hér, beinist að því, í fyrsta lagi að jafna þann halla, sem hefur orðið gagnvart fólki úti á landsbyggðinni. Í öðru lagi er frv. ætlað að vinna að því að gera fólki mögulegt að setjast að í kaupstöðum og kauptúnum til þess að styðja eða taka þátt í atvinnulífinu, því undirstöðuatvinnulífi, sem þjóðinni ríður mikið á að efla.