21.03.1973
Neðri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram í framsöguræðu hæstv. félmrh., að það er alvarlegt þjóðfélagsvandamál, ekki aðeins þegar togarar okkar stöðvast vegna verkfalla, heldur að segja má hvaða atvinnutæki sem er. Og þótt margir hefðu haldið eftir stór orð þessa hæstv., ráðherra á undanförnum árum um, að ekki ætti að grípa inn í samningafrelsið með afskiptum ríkisvaldsins, að þá hefur hann þó, eins og hann gat um áðan í sinni ræðu, sagt, að svo geti farið á alvarlegum tímum, að þetta verði að gera, þótt mönnum þyki það þungt. Ég efa ekki, að honum þyki þungt að þurfa að stíga þetta spor nú. Ég er honum sammála um, að það er afskaplega erfitt að þurfa að fara þessa leið, en hef hins vegar alltaf viðurkennt, að til þess getur þurft að grípa, þegar samningar eru taldir vonlausir af aðilum, sem að málinu standa. En þegar gripið er til slíks ráðs, verður að ætlast til, að vandamálið leysist um leið.

Í þessum orðum mínum, sem ég fer hér með, ætla ég ekki að ræða um hina efnahagslegu hlið togaraútgerðarinnar, heldur ætla ég aðeins að koma til hv. félmn., sem lagt er til, að málið fari til, ábendingu um, að það vandamál sem hér er verið að reyna að leysa, leysist kannske gagnvart mjög fámennum hóp, en um leið sé verið að búa til miklu stærra vandamál. Ég held, að við megum alls ekki við því eins og á stendur í þjóðfélaginu í dag, og satt að segja gengur þetta alveg í berhögg við það, sem hæstv. ríkisstj, hefur stefnt að og talið sig þurfa að leysa. Á ég þar annars vegar við að ganga frekar fram fyrir skjöldu í því að bæta kjör hinna lægra launuðu og hins vegar að draga úr og reyna að stöðva verðbólguhjólið.

Hæstv, ráðherra rakti nokkuð sögu þessa verkfalls og forsendu þess, að þetta frv. væri lagt hér fram, og fór þar að sjálfsögðu með rétt mál. Undirmennirnir, hásetar, matsveinar og smyrjarar í vél, höfðu átt í löngu verkfalli, sem gripið var til eftir mjög langar samningaviðræður, árangurslitlar, vil ég segja. Meðan þeir voru í sínu langa verkfalli, voru hinir betur launuðu á skipunum á launum, en hinir höfðu að sjálfsögðu engin laun. Svo þegar sáttatilboð hafði komið fram í deilu undirmanna og útgerðarmanna og atkvgr. stóð yfir um það sáttatilboð, þá boða yfirmenn verkfall sitt. Það tekur svo við, um það bil sem atkvgr. lýkur, að mig minnir. og að sjálfsögðu eftir að samningar náðust milli undirmanna og útgerðarmanna, sem mér skilst að hafi tekizt vegna loforða og fyrirheita hæstv, ríkisstj. við útgerðarmenn, að þá halda auðvitað undirmenn áfram að vera launalausir, þótt þeir séu búnir að skrifa undir sína samninga.

Það er auðvitað margt við þetta mál, sem verður að skýrast betur fyrir þm. í meðferð málsins. Má vera, að þm. verði sammála um að flýta málinu til n. og það verði skoðað gaumgæfilega þar. Af okkar hendi, þeirra sem í stjórnarandstöðunni erum, verður ekki gerð nein sérstök tilraun til að tefja fyrir málinu. Og það verður orðið við óskum hæstv. ríkisstj. um það að hraða því, eins og hægt er, en auðvitað verður að ræða það. Það verður t. d. að fá fram skýringu á því, af hverju ekki hafi verið lögð fram sáttatill. í þessari deilu milli yfirmanna og útgerðarmanna. Og komum við þá að fyrsta varasama atriðinu í sambandi við frv. þetta. Þá á ég við það fordæmi, sem skapast, þegar lögfesta á óskalista annars deiluaðilans, — það fordæmi, sem mætti kannske grípa til og benda á á seinni tímum og þá svo að þessu sé snúið við. Ég þekki ekki og hef aldrei heyrt talað um það í allri þingsögunni, þegar þurft hefur að grípa til þess að leysa slíka deilu, viðkvæma deilu og erfiða, með afskiptum hins opinbera, að þessi leið hafi verið valin. Ég held, að alltaf hafi verið farin sú leið annaðhvort að skipa gerðardóm til þess að leysa málið eða þá að lögfesta síðustu sáttatill. og þá stundum máske með nokkrum breytingum, að ég held til bóta fyrir launþegana. Hér er um að ræða spurningu, sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram og verður sjálfsagt að skýra í n. Það, sem gerist líka í sambandi við þessa lögfestingu, er, að eftir að hinir tekjuminni hafa samið, þá ætlar hæstv. ríkisstj. sér að lögfesta meiri kauphækkun hjá þeim tekjuhærri.

Nú tek ég það skýrt fram, og ég ætla að undirstrika það, að þegar ég tala um hina tekjubærri, þá hafa margir orðað það á þann veg, að þar sé um hálaunamenn að ræða. Vissulega komast margir þessara manna í góð laun. Ég hef hins vegar aldrei talið annað en að þeir ynnu vel fyrir þeim og ættu þau vel skilið. En við þekkjum það, að nokkuð fastar skorður eru orðnar og hafa verið um margra ára skeið á skiptingu milli yfir- og undirmanna á bátaflotanum. Hins vegar liggur sú staðreynd fyrir, að á togaraflotanum hefur á undanförnum árum nokkuð teygzt úr bilinu á milli tekna undir- og yfirmanna. Og ég held því fram, að með lögfestingu þessa frv. sé stigið stórt spor til þess að teygja enn frekar í sundur milli þessara aðila. Og þetta tel ég ákaflega hæpið og tel, að með þessu sé kannske verið að axla ekki aðeins fyrir útgerðina, heldur og fleiri atvinnugreinar enn stærra vandamál, vandamálið um keppnina, sem á eftir kemur um að bæta hlutfallið aftur.

Við þekkjum vel, að það eru þrjár meginástæður, sem eru til þess, að farið er fram á endurskoðun kjarasamninga, sem því miður oft fylgja verkföll til þess að ná, að því er talið er, nauðsynlegum kröfum fram. Það eru þrjár meginástæður. Það er í fyrsta lagi til þess að halda í við þá verðbólgu, sem hefur geisað í landi okkar um allt of langan tíma. Í öðru lagi til þess að fá hluta af aukningu þjóðartekna, sem menn deila að sjálfsögðu um, hver eigi að vera, svo í þriðja lagi og það er kannski ekki hættuminnsta ástæðan, en það er viðmiðunarástæðan. Og því miður eru ákveðnir aðilar, bæði innan vébanda vinnuveitenda og ekki síður innan vébanda launþega, sem hafa staðið eins og steingervingar gegn því, að hægt sé á skynsamlegan hátt að finna hlutföll á milli aðila, t. d. á sama vinnustað eins og skipið er. Ég er ekki að tala um alla atvinnugreinina, en ég held, að það ætti að vera grundvallarkrafa, sem gera þyrfti til þeirra, sem semja fyrir aðila, að það sé hægt að koma fram í einu lagi fyrir þá, sem á vinnustaðnum eru, sérstaklega þó þegar skip á í hlut. Ég held, að með þessu sé verið að auka mikið þann vanda, sem skapast af viðmiðunarkröfunni, sem óhjákvæmilega verður uppi.

Þá er eitt atriði enn, sem kemur fram í frv. þessu, sem ég tel líka afskaplega hæpið, að þar eigi að vera, og tel frá mínum sjónarhól, að í frv. eigi alls ekki að sjást, en það eru ákvæði þess efnis, að ef hásetum fækkar, þá eigi yfirmennirnir að fá hærri laun. Í flestum tilfellum verðum við að gera ráð fyrir því, að ef einhver svona takmarkaður hópur á einum vinnustað er fámennari en hann var áður og aðrir taka ekki til höndum til þess að létta undir með honum, þá séu þeir að bæta við sig álagi, aukinni vinnu, og þá verði að teljast eðlilegt, að fvrir þá aukningu í vinnuálagi renni aukaþóknunin, — skiptingin vegna þeirra, sem fjarverandi eru, — til þeirra, sem bæta vinnunni við sig. Hér ætlar hæstv. ríkisstj, hinna vinnandi stétta, verndarar lítilmagnans, að breyta að nokkru út af og skipta þessu á milli yfirmanna einnig. Hins vegar er ekkert um það í þessu frv., að ef yfirmönnum fækki, að þá eigi sá sparnaður, sem þá verður til, að skiptast á milli undirmanna. Hins vegar veit ég, að í samningum a. m. k. sumra, ef ekki allra yfirmannafélaganna, er ákvæði um það, að ef í einum starfshópnum fækkar um mann og hinir verða að axla hans vinnu og vaktir, þá skiptast laun þess, sem frá er, á milli þeirra, sem gegna starfinu. Í frv. er gert ráð fyrir, að yfirmennirnir eigi að fá 0.075% af aflaverðmæti vegna hvers manns, sem færri eru en 26 á síðutogara og 24 á skuttogara. Og þess skal getið líka, að það hafa aldrei verið nein ákvæði í samningum við yfirmenn um, að hlutur þeirra ætti að aukast, þótt færri hásetar séu á skipi. Þetta er hins vegar tekið upp núna í þessu frv. Hins vegar hafa undirmennirnir alltaf gætt þess, þegar hefur verið samið fyrir þá, að hafa í sínum samningum ákvæði um það, að ef færri undirmenn væru á skipi en ákveðið er í samningum, þá ætti að skipta launum þess eða þeirra, er vantar, milli þeirra manna, sem störf hans eða þeirra vinna, eins og ég hef þegar getið um. Og eins og ég hef þegar getið um, ef háseta vantar, þá hafa laun hans skipzt milli hinna hásetanna, sem eftir eru og störfin vinna. Það hefur aldrei nokkurn tíman verið t. d. gerð krafa um það frá undirmannafélögunum, sem semja fyrir matsveina og smyrjara í vél, að þeir fengju neina hlutdeild úr sparnaði, þótt hásetum fækkaði. Og nú, þegar fækkað er á skipunum með samningum undirmanna og útgerðarmanna, datt engum fulltrúa, hvorki matsveina né smyrjara, í hug að gera kröfu til þess, sem skiptist á milli háseta vegna þessarar fækkunar. En hins vegar, eins og ég hef tekið fram líka, gerir ríkisstj. ráð fyrir því í frv þessu, að það eigi samt sem áður að koma nokkur umbun til yfirmanna fyrir þetta. Ef frv. þetta verður samþykkt, eins og ríkisstj. hefur boðað að eigi að gera, þá þýðir það m. a., að vegna fækkunar háseta á skipi, fá allir nokkra þóknun þar fyrir nema þeir undirmenn, sem gegna matsveinastörfum og smyrjarastörfum.

Svo er annað mál, og það er, hvort ríkisstj. og þá sérstaklega n., sem fær málið til meðferðar ætti ekki að athuga, hvort þetta ákvæði brjóti ekki í bága við önnur lög. Þar á ég við 23. gr. sjómannalaganna, nr. 67 frá 1963, en hún hljóðar svo, þessi 23. gr.:

„Fækki skipverjum, meðan ferð stendur yfir, skulu kaupgreiðslur, sem af því leiðir, skiptast á milli þeirra, sem eftir eru, að tiltölu við aukna vinnu þeirra hvers um sig, hafi þeir eigi fengið hana greidda sem yfirvinnu. Fækki stýrimönnum meðan ferð stendur yfir, skulu kaupgreiðslur, sem af því leiðir, skiptast á milli skipstjóra og stýrimanns eða stýrimanna í hlutfalli við aukna vinnu hvers þeirra um sig, hafi þeir ekki fengið hana greidda sem yfirvinnu.“

Þótt það stangist ekki á við ákvæði þessara laga lagalega séð, þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að siðferðilega stangast það á við þá hugsun, sem varð til og mótað hefur þær hefðir, sem hafa komizt á í sambandi við slík skipti á einu skipi. Og þótt nú hafi það gerzt, að þessi fækkun komi til framkvæmda á skuttogurunum vegna hinna nýju tækja vegna hins fullkomna búnaðar hinna nýju skipa, vegna þess að framleiðni þeirra eykst, þá er því hins vegar ekki til að dreifa á síðutogurunum. Og auðvitað þarf enginn að segja mér, að þegar fækkað er um 2 háseta á skuttogurunum frá því, sem gilt hefur á þeim, sem gerðir hafa verið út til veiða hjá okkur fram til þessa um langt árabil, — það eru nokkur skip af þessari gerð, — þá mun vinna aukast og vinnuálag hjá öðrum hásetum.

En ég fæ ekki séð, þegar hafður er í huga fastur vinnutími annarra skipverja og sérhæfð störf, að vinnuálagið þurfi að aukast hjá þeim.

Þetta eru þau aukaatriði, sem ég vildi strax við 1. umr. benda hv. n. og hæstv. ráðherra, sem málið flytur, á með nokkrum orðum. En það er ekki af illvilja við, að málið leysist. Ég held, að það séu allir, sem hér sitja, sammála um, að það er fyllilega tímabært að gera allt sem gera þarf og nauðsynlegt getur talizt til þess að leysa málið. Spurningin er sú, hvort nógu vandlega hafi verið leitað að lausn á vandamálinu, fyrst grípa þurfti til lagasetningar. Nú þekkjum við það mætavel, sérstaklega þeir, sem hafa nokkuð farið með samningamál fyrir sjómenn, að þetta er ekki fyrsta aðgerðin, sem kemur við ákveðna hópa eða sjómannastéttina í heild. Mætti rekja það nokkru nánar, og kannske gefst tækifæri til þess við 2. umr. málsins. Ég á t. d. við skattamál sjómanna. Við vitum það, að þegar vel gengur, geta yfirmenn á okkar fiskiskipum komizt í háa tekjuflokka. En ég held, að það sé líka óhætt að fullyrða, að það sé meira tekið af þeim nú hin síðari ár í sköttum en áður var. Kannske hefði, til þess að ekki sköpuðust ný vandamál, sem ég hef hér drepið á, að geti komið upp, átt að fara skattalækkunarleið. Það hefði kannske verið fullt eins gott að fara þá leið til þess að leysa deiluna við þessa menn að skilja meira eftir í þeirra eigin vasa, eftir að krumla fjmrh. hefur farið ofan í hann.

En hvað um það, margt á eftir að skýrast í sambandi við málið í meðferð n. Það er auðvitað ljóst, að við verðum að fá ákveðnar upplýsingar til n, og frá henni aftur um ákveðin atriði. Það er auðvitað óframbærilegt að leggja fyrir okkur til samþykktar það frv., sem lagt er fram. Við höfum ekki í höndum samningana, sem í gildi eru. Við sjáum hér aðeins þær breytingar, sem á að gera á samningunum. Við vitum ekkert um, hvernig þetta verkar fyrir ákveðna aðila. Ég vil t. d. óska eftir því við hæstv. ráðh., að hann láti n. báðum, sem eiga að vinna saman, í té upplýsingar um það, hver launabreytingin hjá einstökum skipverjum verði eftir lögfestingu þessa frv. og hina nýju samninga, háseta og annarra undirmanna, og sé þá miðað t. d. við einhverja ákveðna söluupphæð hér heima eða erlendis, hvort er skiptir ekki máli. Og ég held, að það sé ekki aðeins fróðlegt að fá þessar upplýsingar, heldur nauðsynlegt.

Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem betur eru að sér um þá hlið, sem að sjálfri togaraútgerðinni snýr, muni koma og óska eftir ákveðnum upplýsingum og láta skoðanir sínar í ljós á þessu frv. En það er auðvitað alveg ljóst, að þótt þetta frv. verði samþykkt, er vandamálið hvergi nærri leyst. Það liggur ekkert fyrir um það, hvernig eigi að leysa sjálft höfuðvandamálið, að tryggja rekstrargrundvöll skipanna. Og í sambandi við það er auðvitað nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. skýri frá því, hvað þeir ætla sér. Þeir hafa að vísu gefið ýmsar yfirlýsingar við samningsaðila, við útgerðarmenn, meðan á samningaviðræðum stóð, ákveðin loforð, ekki aðeins þegar verið var að semja við undirmennina, heldur og í þessu langa samningsatriði við yfirmennina. Og það er ekki að ófyrirsynju, að þeir óski eftir því að fá að vita, hvort við þessi loforð verði staðið eða hvernig reksturinn verði tryggður á þessu ári, hvort nægilegt fjármagn fáist til þess, að svo verði. Að vísu er það aðeins til næstu áramóta. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh, vænti þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af árinu 1974, hvorki til þess að leysa vanda þessarar atvinnugreinar né annarra.

En um leið og ég læt máli mínu lokið að þessu sinni, vil ég bera enn fram spurningu til viðbótar hinni fyrri í sambandi við upplýsingarnar, og hún er sú, að skýrt verði, hvernig eigi að skilja síðustu setninguna í yfirlýsingu þeirra hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., en hún hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta verði fyrirfram metið fyrir hvert skip á sanngjarnan hátt.“ Spurning mín er: Hvernig á að skilja þetta? Hver á að sýna sanngirnina? Er það hæstv. sjútvrh., eða eru það einhverjir efnahagssérfræðingar, eða er það kannske bóndinn í Selárdal.