26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því, húsmæður góðar, sem eruð á þingpöllum, bæði að austan og hér úr Reykjavík, að þið gefið mér hljóð. Ég ætla ekki að tala lengi. Ég vil aðeins segja það, að bændur eiga ekki sök á verðbólgunni. Það þurfa allir að vita. Þegar mjólkin var hækkuð 1. marz s. l., fengu bændur aðeins 11% í sinn hlut, þótt mjólkin hækkaði um 44% í útsölu. Þetta vita allir, og það er ágætt. En þá ber að beina geirnum að ríkisstj. Það kemur niður á bændum, ef hætt verður að kaupa landbúnaðarvörur. Það er óhagstætt fyrir heimilin að hætta að kaupa landbúnaðarvörur og kaupa aðrar vörur, sem eru dýrari. Það er óhagstætt og óhollt fyrir börnin að gefa þeim öl eða djús í staðinn fyrir mjólk. Þetta vil ég biðja húsmæður að gjöra svo vel að athuga. Hitt undrar mig ekki, þótt þær verði ergilegar, þegar ríkisstj. og talsmenn hennar eru alltaf að tala um, að kaupmáttur launa hafi aukizt. Ég veit, að húsmæðurnar finna, þegar þær fara í búðina, að það, sem er í buddunni, endist miklu verr nú en áður.

Ríkisstj. og talsmenn hennar eru alltaf að tala um, að kaupmátturinn hafi aukizt. Ríkisstj. hefur komið öllu í öngþveiti í íslenzkum þjóðarbúskap. Það er ríkisstj., sem á sök á óðaverðbólgunni. Hún á sök á því, að kaupmátturinn er minni nú en áður. Krónan er alltaf að minnka. Það er talið, að krónan hafi lækkað til jafnaðar um 2% á mánuði, síðan þessi ríkisstj. kom til valda. Þetta getur ekki góðri lukku stýrt.

Ég hef heilræði fyrir húsmæður. Það er að halda áfram að kaupa landbúnaðarvörur, en gera það, sem unnt er, til þess að gera almenningi í landinu ljóst, að ríkisstj. á sök á verðbólgunni og hún er að skapa hættuástand í íslenzku þjóðlífi. Ef húsmæður vilja gera skyldu sína við heimilin og við fósturjörðina, þá er raunhæfast að vinna að því, að núv. stjórnarfl. fái ekki atkvæði á næsta kjördegi, þannig að það komi ný ríkisstj. til valda, sem hefur það að markmiði að auka kaupmátt launa og skapa festu í íslenzkum þjóðarbúskap. — Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vona, að húsmæður og sem flestir taki þetta til vinsamlegrar athugunar.