27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

203. mál, framlagning gagna við Alþjóðadómstóllinn

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og svar hæstv. ráðh. ber með sér, hefur allmikið verið lagt fram af gögnum, þó mikið í skeytum og stuttum bréfum til staðfestingar vissum orðsendingum, sem farið hafa milli rn. og viðkomandi þjóða, sem við eigum í deilum við. Mér virðist við fyrstu yfirsýn, að hér sé ekki um langa grg. að ræða, þótt fylgt hafi nokkuð með, sbr. tilvitnanir í sum skeytin og bréfin. Ég átti von á því, að víðtækar rannsóknir, sem fiskifræðingar okkar hafa staðið að hér undanfarið, væru líka til, því að í þessu hefti, sem hann nefndi hér áðan, Fisheries jurisdietion of Ieeland, er svo stutt yfirlit, að dómurinn hlýtur að þurfa miklu meiri gögn en þar koma fram. Við þetta stutta yfirlit tel ég, að megi bæta mjög miklu til þess að styrkja okkar málstað, — ég segi það alveg hiklaust, — eins og mér virðist upptalningin vera. Ég sakna þess sérstaklega, ef ekki er mjög stuðzt við skoðanir fiskifræðinga okkar og rannsóknir á undanförnum árum. Það er ekki nóg, eins og alltaf er vitnað til, að við fáum svipaða kílóatölu ár eftir ár. Það er samsetning aflans, sem skiptir meginmáli og er langsterkasta vopn okkar í baráttunni. Það er vegna þess, að fiskurinn er alltaf minni og minni og yngri og yngri. Það er þess vegna lífsnauðsyn að gá að því, að við aukum ekki sóknina, heldur takmörkum sóknina í ungstofnana. Til eru víðtækar rannsóknir og ágæt kort, sem okkur í fiskveiðilaganefnd hafa verið afhent, um samsetningu á smáfiski hringinn í kringum landið. Ég tel alveg afdráttarlaust, að þessi gögn eigi að afhenda Alþjóðadómstólnum. Það mun taka þessa menn langan tíma að fara í gegnum öll þessi gögn.

Ef við látum mann mæta fyrir dómnum, hlýtur hann að hafa mikið af þessum gögnum með sér, annað er útilokað. Ef tilgangurinn með að senda mann út er einkum sá, eins og kom fram hjá báðum viðmælendum spyrjandans í sjónvarpinu, að skapa möguleika á frestun, fyrst og fremst til þess að tefja endanlegan úrskurð fram yfir hafréttarráðstefnuna, þá veitir sannarlega ekki af að hafa víðtækar upplýsingar, sem tæki menn langan tíma að fara í gegnum og styddu málstað okkar í hvívetna. Ég er ekki að deila á hæstv. utanrrh. með þessum aths. varðandi þau gögn, sem fram hafa verið lögð þegar, en mér virðist af upptalningunni, að miklu mætti bæta við og þ. á m. fleiri eldri ritgerðum um íslenzka fiskveiðilögsögu. Það hefur verið samin a. m. k. ein doktorsritgerð um það efni. Menn geta deilt um það, hversu vísindalegt rit það er, en það er margt mjög fróðlegt í þeirri ritgerð, sem er nokkurra ára, og ýmsir þessara manna hefðu gott af því að pæla í gegnum þessa ritgerð ásamt ýmsum fleiri gögnum til þess að styrkja okkar sjónarmið í málinu.