29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því, sem hér hefur komið fram. Mér hefur aldrei dottið neitt annað í hug í þessum efnum heldur en vilji heimamanna sjálfra mundi ráða því, hvort sá aðskilnaður yrði á milli kjördæmanna, sem ég ræddi um áðan. Og mig satt að segja langar til að spyrja hv. 11. landsk. þm., Ólaf G. Einarsson, um það, hverjir þessir aðrir séu, sem eru að vinna að því að kljúfa Fjórðungssamband Norðlendinga. Það getur vel verið, að hann eigi við mig, vegna þess að ég las upp einróma samþykkt frá bæjarstjórn Sauðárkróks. Ég hef sjálfur setið á fundi hjá bæjarráðinu á Siglufirði, þar sem þeir ræddu þetta mál og þá, í sumar, töldu sig vilja hafa forustu um, að þetta kæmist á.

Þetta var af þeirri einföldu ástæðu, að hv. Alþ. samþykkti í fyrra till. frá mér um landshlutaáætlun fyrir Norðurl. v., en þessi tillögugerð, sem ég spurðist fyrir um snemma á þessu þingi, hefur gengið ákaflega hægt, og mér er nær að halda, að hún hafi gengið hægt vegna þess, að það hefur enginn aðili verið til á Norðurl. v. til þess að vinna á móti þeim aðilum frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem að þessu hafa verið að vinna. A. m. k. hefur það gengið hægt, svo hægt, að það sést ekki neitt. Ég spurðist fyrir um það fyrir nokkrum dögum, hvernig þessi blessaða áætlun gengi. Þá langaði mig að fá að sjá áætlunina um Skagaströnd, sem mér var sagt, að væri eiginlega búin, en hún var aldeilis ekki búin. Skiptingin er, held ég, fyrst og fremst komin frá heimamönnum sjálfum, og raunar veit ég það. Heimamenn eru farnir að telja, að verkefnin, sem vinna þarf, séu þess eðlis, að það sé eðlilegt, að sérstök landshlutasamtök í kjördæminu vinni að þeim sjálf.

Hv. þm. Lárus Jónsson var jákvæður gagnvart því og hv. þm. Pálmi Jónsson raunar líka, að aðskilnaður kjördæmanna gæti átt sér stað eftir vilja heimamanna. Þetta er alveg í þeim anda, sem ég var að tala um hér fyrr, og ef hægt er að finna einhvern þann flöt á þessu, sem allir gætu sætt sig við, þá skal ég sannarlega ekki mæla úr því.

Hv. þm. Lárus Jónsson taldi, að Fjórðungssamband Norðlendinga væri sterkari eining með tveimur kjördæmum heldur en hvort kjördæmi út af fyrir sig. Þessu er ég ekki sammála. Úr því sem komið er og með þeim hlutverkum, sem þessi samtök eiga að fullnægja, finnst mér einmitt, að Norðurl. v. verði sterkara sér heldur en með öðru kjördæmi, sem auðvitað er langtum sterkara sjálft heldur en hitt.

Vafalaust er rétt hjá hv. þm., að samþykkt fjórðungsráðs hafi verið einróma. Ég veit ekki, hvort einhver úr bæjarstjórn Sauðárkróks er í fjórðungsráði eða hefur skipt um skoðun á nokkrum dögum, eða bara alls ekki verið á fundinum á Sauðárkróki. Um þetta veit ég ekki. En mér er kunnugt um það, að einmitt ýmsir fulltrúar í fjórðungsráði, stjórnarmenn þar, leggja áherzlu á, að þetta sé ekki gert. Af hvaða ástæðum það er, skal ég ekki segja, en það eru þær sterkustu raddir, sem ég hef heyrt á móti þessu. En úr því sem komið er, finnst mér einsýnt að reyna að kanna sem fyrst til hlítar, hvernig sveitarfélög á Norðurl. v. vilja haga þessum málum. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt að fá úr því skorið á stuttum tíma. En ég ítreka það, að mig langar til að vita, hverjir það eru, sem standa að þessu, ef það eru ekki heimamenn.