29.03.1973
Neðri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

207. mál, Laxárvirkjun

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er tæplega ástæða til að eyða mörgum orðum að efnisatriðum þessa frv., sem hér hefur verið talað fyrir af miklum eldmóði, en maður getur ekki varist því að hugsa til þess, hvað það er einkennilega að málum staðið, að nú þegar loksins er búið að leysa þessa deilu, þá skuli vera flutt frv. eins og þetta. Það, sem er meiningin með þessu frv., er að taka með valdboði af bændum réttmæta eign þeirra, sem alls ekki mundi standast fyrir stjórnarskránni. Og lögskýringarnar, sem hv. frsm. og flm. þessa frv. kom með hér, eru í meira lagi einkennilegar, og þær eru raunverulega ákaflega mikið vantraust á þá lögfræðinga, sem hafa staðið í því erfiða hlutverki að reyna að verja ætlanir og gerðir Laxárvirkjunarstjórnar. Manni gæti dottið í hug að spyrja: Hvers vegna fengu þeir ekki þennan mann til að halda á málum sínum, fyrst málin eru eins einföld og hann vildi vera láta, þegar hann var að lesa hér greinar úr vatnalögunum.

En saga Laxármálsins verður ábyggilega síðar rituð, og hún verður talin merkileg. Þetta mál skiptir sköpum í sögu lands okkar. Sérstaklega skiptir það sköpum í því, á hvern hátt við umgöngumst landið okkar. Eitt er víst, að hér eftir verður ekki farið fram með þeirri einsýni og ég vil segja blindni, sem gert var, og er ég þar með ekki að ásaka einn eða neinn, verkfræðinga eða aðra, sem gerðu þessar áætlanir, en það mun ekki verða farið fram hér eftir með þeirri einsýni og blindni, sem gert var, þegar áætlanirnar um Gljúfurversvirkjun voru gerðar og reyndar margar fleiri og miklu umfangsmeiri áætlanir, sem þá voru á prjónunum, en nú hafa hjaðnað, því betur.

Og hver voru áformin í upphafi? Það er rétt að rifja það aðeins upp, vegna þess að það skýrir, hvers vegna bændur í Þingeyjarsýslu þurftu að rísa upp og verja eignir sínar og hvers vegna útkoman eða niðurstaðan verður sú, sem nú er orðin, en það má segja að niðurstaða málsins er í samræmi við málatilbúnaðinn í upphafi. Það var búið að áætla að taka Suðurá, sem fellur í Skjálfandafljót, og veita í Mývatn og í Laxá, og kollvarpa með því tveimur höfuðvatnakerfum héraðsins, Þingeyjarsýslu, sem snerta næstum alla bændur í 5 eða 6 sveitarfélögum, og þetta var áætlað og komið á pappírinn, án þess að væri búið að hafa samband við einn eða neinn af þessum mönnum. Og þegar að því var spurt: Hvers vegna hafa mennirnir, sem eiga land að Skjálfandafljóti, Mývatni og Laxá, ekki verið spurðir ráða? Þá sögðu tæknimennirnir: Við getum ekki eytt tíma í gagnslaus fundahöld með bændum. Við prófuðum það að halda fundi með bændum í Mývatnssveit, og það kom ekkert út úr því nema vitleysa, og við getum ekki eytt okkar tíma í þetta. — Svo brattir voru þeir fyrst, þegar var verið að ræða um þessi mál.

Það var áætlað að gera 57 m háa stíflu, sem færði í kaf heila sveit, Laxárdalinn. Það var búið að segja þeim frá því reyndar, að þetta ætti að gera, en ekki á annan hátt heldur en aðeins að tilkynna þeim það, að nú væri bezt fyrir þá að hætta að byggja upp býli sín, byggja íbúðarhús, fjós eða peningshús, því að þetta ætti allt að fara í kaf. Þannig var boðskapurinn. Það var líka áætlun um Mývatnsvirkjun, sem tæki fallið í Laxá úr Mývatni og niður að Lóninu stóra, og þá hefði Laxá ekki verið til á landakortinu eftir það. Þetta voru áformin. Það var líka auðséð, að Laxá fyrir neðan virkjun yrði ekki söm eftir sem áður og henni yrði gerspillt. Það var þess vegna, sem bændur urðu að rísa upp, og þetta er árangurinn, sem nú hefur verið lýst.

Það er ekki við þessa bændur að sakast, þó að nú sé orkuskortur á Norðurlandi. Það er ekki á þeirra ábyrgð, að þessi deila hefur risið, heldur á ábyrgð þeirra, sem stjórnað hafa þessum málum að undanförnu eða á þessu tímabili, sem deilan hefur staðið. Og það mun vera erfitt að sýna fram á það, og það er því hafi tafið framkvæmdir við Laxá. Ég vil spyrja hv. frsm., á hvern hátt þessi töf hafi orðið, á hvern hátt deilan hafi tafið framkvæmdir við fyrsta áfanga Gljúfurversvirkjunar, sem nú hefur hlotið nafnið Laxárvirkjun III. Það mun vera erfitt að sýna fram á það, og það er því alrangt og ósæmandi að kenna bændum, sem neyddust til að verja eigur sínar og óðöl, um það, þó að illa hafi verið haldið á orkumálum á Norðurlandi á fyrrgreindu tímabili. Það er algerlega ósæmandi að gera það.

Hver er þá meiningin með því að flytja þetta frv. hér og nú? Það getur ekki verið ímyndun flm., að þetta nái fram að ganga og að þetta sé heppileg lausn á orkumálum Norðlendinga, sem vissulega þarf að leysa. Nú hefur núv. ríkisstj. leyst deiluna, — deilu, sem fyrrv. ríkisstj. gat ekki leyst, og það væri ákaflega fróðlegt, ef það gæti komið fram í dagsljósið, hvað hindraði það, að deilan yrði leyst vorið 1970. En alla vega lítur það þannig út fyrir mér, að það sitji ekki á flm. þessa frv. að tala nú um þessa lausn á málinu, sem hann er að benda á. Það hefur orðið mikill skaði fyrir þjóðina og fyrir raforkunotendur á Norðurlandi af því, hvernig haldið hefur verið á málunum. Og þennan skaða verður þjóðin öll að bera að nokkru leyti. Og það, sem ríður á núna er auðvitað að bæta úr þessu og bæta fyrir mistökin, en ekki að vekja deilurnar upp á ný.

Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í að rekja allt það, sem er rangt með farið í grg. með frv. og einnig kom rangt fram í framsöguræðu flm. En ég get aðeins bent á það, að það er langt frá því, að 23 m stífla við Brúar skaði ekki bújarðir í Laxárdal. 18 m stífla mundi gera fyllu upp að Birningsstaðaflóa, upp að Soginu svokölluðu. 5 m þar ofan við mundu sökkva miklu landi, og vegir um Laxárdal og mikið af ræktunarlöndum bænda færu undir vatn. Það væri fróðlegt fyrir flm. að kynna sér skýrslu sérfræðinga, sem gerð var fyrir sáttanefnd og kom fram nú fyrir áramótin um áhrif af stíflugerð í Laxá. Það er greinilegt, að þessir sérfræðingar, líffræðingar og vatnalíffræðingar, fiskifræðingar, þeir telja alla stíflugerð mjög hættulega fyrir þetta stórmerka svæði, þetta stórmerka lífkerfi, sem er Mývatn og Laxá. Það er ákaflega fróðlegt að lesa þessa skýrslu. Af henni er ljóst, að alrangar eru fullyrðingarnar um, að þetta skaði ekki Laxá eða að þetta skaði ekki búskap í Laxárdal og það skaði ekki náttúruverðmæti. Það er alveg augljóst, að það mundi verða stór skaði af þessu.

Fullyrðingar frsm. um það, að málið sé svona einfalt, eru náttúrlega ákaflega mikið vantraust á menn, sem nú fara með þessi mál í Laxárvirkjunarstjórn, og nú hafa séð, að það var vænlegasta ráðið að leysa þessa deilu með samkomulagi.