04.04.1973
Efri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3034 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

225. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða langorður um þetta frv. Það er ekki oft, sem maður hefur ástæðu til þess að standa hér upp og fagna stjfrv. Ég vildi lýsa fullum stuðningi við þetta frv. Það undirstrikar þá stefnu, sem ég tel, að þurfi að útfæra í sem ríkustum mæli þ. e. að koma á verðjöfnun á helztu nauðsynjum um allt land.

Það, sem hér um ræðir, sement, er ákaflega þýðingarmikið, eins og gefur að skilja, til þess að jafna byggingarkostnaðinn í landinu. Það er svo, að ef við ætlum að vinna raunhæft að því að efla jafnvægi í byggð landsins, er fátt þýðingarmeira en að beita aðgerðum í því skyni á vettvangi húsnæðismálanna. Einmitt sementskostnaðurinn er veigamikill þáttur í því efni, eins og gefur að skilja.

Ég vildi aðeins standa upp til þess að leggja áherzlu á þetta. Það vill svo til, að nú fyrir nokkrum mínútum var útbýtt í þessari hv. d. frv., sem ég flyt á þskj. 501, sem er einmitt að meginefni um aðgerðir í húsnæðismálunum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta frv., sem hér er á dagskrá, stuðlar mjög að því, að unnið sé í sama anda og lagt er til í frv. mínu.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að jöfnun flutningskostnaðarins samkv. þessum lögum verði sem víðtækust. Nú segir í 1. gr. frv., að jöfnun flutningskostnaðar samkv. l. þessum nái til allra verzlunarstaða í landinu, sem jafnframt eru aðaltollhafnir. Ég leyfi mér að efast um, að þetta sé nægilega víðtækt. Ég vil þess vegna beina því til þeirrar n., sem fjallar um málið, að athuga, hvort ekki þurfi að rýmka þetta, þannig að tryggt sé með samþykkt þessa frv., að verðjöfnunin komi öllum landsmönnum til góða.