04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

124. mál, vátryggingarstarfsemi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins smávægileg aths. Ég vil leita eftir því við hæstv. forseta, hvort hann geti fallizt á að fresta afgreiðslu málsins hér við 3. umr. um stund, vegna þess að ég hef í huga, hvort ekki verði hægt að fá hv. Alþ. til þess að fallast á, að inn í 6. gr. væri tekin heimild fyrir þau vátryggingarfélög, sem nú þegar starfa, að starfa áfram, án þess að lagt sé fram jafn mikið hlutafé og þar er gert að skilyrði. Á Blönduósi hefur starfað vátryggingarfélag, Byggðatrygging hf. um allmörg ár og var lengst af eina tryggingarfélagið utan Reykjavíkur, og það hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki. Eigi að síður er fjárhagur þess ekki það traustur né starfssvæði þess svo stórt, að ég geti búizt við, að unnt sé að leggja fram 10 millj. kr. sem hlutafé, og þætti mér vænt um, að það væri athugað nánar, hvort ekki fengist samþykki fyrir því, að slíkri undanþáguheimild væri komið inn í frv., sem gerði þessu vátryggingarfélagi kleift að reka starfsemi sína áfram. Fyrir því fer ég þess hér með á leit við hæstv. forseta, að hann fresti afgreiðslu þessa máls hér við 3. umr. nú um skeið, meðan það er athugað, hvort unnt er að verða við þessari málaleitan minni.