04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

130. mál, skólakostnaður

Frsm. (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Hv. menntmn. Nd. hefur tekið til athugunar og rætt frv. til laga um breyt. á lögum nr. 49 frá 1967, um skólakostnað, á þskj. 189, og hefur orðið samstaða í n. um að mæla með samþykkt þessa frv. Frá því er þó ein undantekning, því að Ellert B. Schram, einn nm., hefur ritað undir nál. með fyrirvara.

Þetta frv. er ósköp einfalt að efni til. Það felur í sér að lengja það árabil, sem fjárveitingar til stofnkostnaðar skólamannvirkja miðast við. Í stað þess að áður var í lögum, að ríkið greiddi fjárframlög á þriggja ára fresti, er nú ákveðið fjögurra ára greiðslutímabil. Þetta er í reynd staðfesting á því, sem verið hefur samkv. þeim brbl., sem gefin voru út árið 1968, og þannig í raun og veru staðfesting á þeirri framkvæmd, sem tíðazt hefur í þessu máli.