04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í málefnasamningi ríkisstj. var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hefði forgöngu um byggingu leiguhúsnæðis, sem lúta skuli félagslegri stjórn, eins og þar segir. Það er einmitt í samræmi við þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum, sem þetta frv. er fram borið. Í því er gert ráð fyrir, að heimilað verði að veita sveitarfélögum lán til byggingar leiguíbúða og megi lánið nema allt að 80% af byggingarkostnaðinum og lánskjörin verði jafnhagstæð og þau lánskjör, sem veitt hafa verði til byggingarframkvæmdanna í Breiðholti í Reykjavík, sem löngum hefur verið vitnað til sem einhverra sérréttinda fyrir Reykvíkinga. Það er þó að verulegu leyti á misskilningi byggt, því að önnur sveitarfélög hafa átt þess kost að notfæra sér lagaákvæðin frá 1365, þar sem ríkisstj. var heimilað að láta byggja íbúðir í fjölbýlishúsum í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélag, en Reykjavíkurborg hefur ein orðið til þess, að undanskildum Sauðárkrókskaupstað, sem fór af stað með slíkar byggingarframkvæmdir samkv. þessum lögum, en hætti við það í miðjum klíðum og breytti því yfir í verkamannabústaði, enda er það sannast sagna, að verkamannabústaðakjörin eru endanlega hin hagstæðustu, sem völ eru á í sambandi við lausn á þeim vanda að koma upp íbúðarhúsnæði. Sannleikurinn er sá, að önnur sveitarfélög hafa ekki notfært sér þessi lagaákvæði fram til þessa, og veldur því vafalaust, að þau eru efnaminni en Reykjavíkurborg.

Efni frv. felst í fyrri gr. þess, — það er aðeins tvær gr. — og er breyt. á 8. gr., B-lið, ákvæði um aðstöðu og rétt sveitarfélaga til þess að taka lán alveg eins og verktakar og aðrir, sem eru framkvæmdaaðilar í húsbyggingum. Með leyfi hæstv. forseta, segir svo í 1. gr.:

„Lánsfjárhæðin má nema allt að 800 þús. kr. á hverja íbúð, þó ekki meira en ¾ hlutum verðmætis íbúðar samkv. mati trúnaðarmanna Veðdeildar Landsbanka Íslands. Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki ráðh., árlega breytt lánsfjárhæð þessari til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar:

Í þessari mgr. 1. gr. í frv. eru tvenn nýmæli: Í fyrsta lagi, að lánsfjárupphæðinni er breytt úr 600 þús. í 800 þús. kr., og er það í samræmi við það, sem nú er heimilt um aðra þætti í húsnæðismálalöggjöfinni, en þá hámarkið ¾ hlutar byggingarkostnaðar. Og svo má breyta þessari upphæð árlega, í staðinn fyrir að nú er aðeins heimilt að breyta lánsupphæðinni á tveggja ára fresti. Þessar tvær breytingar eru í 1. mgr. Síðan kemur algerlega nýtt ákvæði í 2. mgr. 1. gr., og er það á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, er nemi allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. l. nr. 97 frá 22. des. 1965 og íbúar þess ekki átt kost á íbúðum. sem þar um ræðir. Lán þessi skulu vera til 33 ára, afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum. Að öðru leyti eru lánskjörin hin sömu og lánakjör byggingarsjóðs ríkisins. Á næstu 5 árum er heimilt að veita slík lán út á allt að 1000 íbúðir. Ráðh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um úthlutun lána þessara.“

Þessi lánskjör, sem þarna er gerð grein fyrir, 33 ára lánstími, afborgunarlaus fyrstu 3 árin og síðan endurgreiðsla á lánunum á 30 árum, eru alger hliðstæða við þau lánakjör, sem fólk hefur átt við að búa varðandi Breiðholtsframkvæmdirnar. Þannig eru sveitarfélögum heimiluð þau lánakjör, sem einstaklingar, efnaminni verkamannafjölskyldur, hafa notið í Reykjavík, og þeim sveitarfélögum, þar sem þörf er fyrir leiguhúsnæði, ætlað að hafa frumkvæði. Síðan er sveitarfélögunum að sjálfsögðu heimilt að selja þessar íbúðir einstaklingum og þá vitanlega gert ráð fyrir, að það sé gert án hagnaðar af hendi sveitarfélagsins, það sé aðeins þjónusta, sem einstaklingunum sé veitt, og þannig geti þetta orðið einstaklingsíbúðir í einkaeign. Þannig verður fyrir milligöngu sveitarfélaganna einstaklingum gefinn kostur á að njóta þessara lánskjara.

Eins og ég áðan sagði, eru kjörin þannig, að í upphafi er auðveldara fyrir kaupendur íbúða samkv. þessum kjörum að komast yfir íbúð heldur en með öðrum hætti. En þegar líður á lánstímann, þyngist greiðslubyrðin, svo að verkamannabústaðakjörin verða, þegar upp er staðið, mun hagstæðari en þessi kjör, sem fólk hefur átt kost á í Breiðholti og fólk mundi eiga kost á þarna í sambandi við að kaupa leiguhúsnæði, sem sveitarfélög höfðu komið upp. Þetta gerir sveitarfélögunum mögulegt að koma upp íbúðarhúsnæði án þess að leggja fram neitt ofurfjármagn til þess að svara þörf, sem sveitarstjórnirnar meta, að fyrir hendi sé.

Á s. l. ári fól félmrn. Húsnæðismálastofnun ríkisins að kanna þörf fyrir leiguhúsnæði um land allt. Var það gert, vandlega unnin skýrsla kom til rn. og gerð hefur verið grein fyrir henni hér í fsp.-tíma. Það virtist svo sem veruleg þörf væri fyrir leiguhúsnæði samkv. þessari skýrslu. Að vísu skal það játað, að sum svör sveitarfélaganna voru nokkuð út í loftið, án vandlegrar könnunar og án þess að haft væri í huga, að sveitarfélögin þyrftu eitthvað á sig að leggja sjálf í sambandi við það að koma slíkum íbúðum upp. Ég gæti hugsað, að tölurnar kynnu að lækka við það, þó að ekki sé um stærri upphæðir að ræða en svo, að sveitarfélagið verður um tíma að sjá fyrir um 20% af byggingarkostnaðinum.

Það er ekki um það að deila, að hér eru boðin þau vildarkjör, sem fólk hefur verið að tala um, að verkamannafjölskyldur í Reykjavík ættu kost á, auk verkamannabústaðakerfisins, sem fólk á alls staðar í þéttbýli úti um land kost á að notfæra sér og eru, eins og fskj. með frv. sýna, langhagstæðustu kjörin, þegar litið er á allan lánstímann.

Hvers vegna eru nú sett inn ákvæði um það, að þessar lánveitingar skuli fyrst um sinn ná til 1000 íbúða á næstu 5 árum? Það er til þess að halda hliðstæðunni við þau réttindi, sem efnalítið fólk í Reykjavík hefur átt við að búa. Í grg. segir um þetta:

„Lagt er til, að fjöldi slíkra lána verði takmarkaður. Ef gert er ráð fyrir, að á Reykjavíkursvæðinu séu ca. 100 þús. íbúar, kemur í ljós, að íbúðabyggingar framkvæmdanefndar byggingaáætlunar nema 11/4 íbúð á hverja 100 íbúa. Kauptún með 1000 íbúa ætti þannig að eiga kost á 121/2 íbúð með þessum kjörum.“

Og hins vegar:

Samkv. skýrslu Hagstofu Íslands um mannfjölda 1. des. 1971 var íbúafjöldi í kaupstöðum utan Reykjavíkur og Kópavogs 48 599 og í öðrum þéttbýlisstöðum 36 580 eða samtals 85179. Ef miðað er við mannfjölda, lætur nærri, að 1000 íbúðir utan Reykjavíkursvæðisins svari til þeirra 1250 íbúða, sem byggðar verða á vegum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar í Breiðholti í Reykjavík. Með hliðsjón af þessu er lagt til, að fjöldi lána til umræddra leiguíbúða verði allt að 1000 á 5 árum eða 200 íbúðalán á ári að meðaltali:

Þó er ekki ætlunin að búta þetta þannig niður eingöngu eftir hausatölunni, því að mér er ljóst, að fleiri atriði geta komið til greina um meira og meira knýjandi þörf á einum stað heldur en öðrum og það verði að taka tillit til annars jafnframt því sem tekið verði nokkurt tillit til íbúafjöldans. Ákvæði um þetta yrði vafalaust sett í reglugerð.

Ég held, að málið liggi ljóst fyrir. Öll efnisatriði þess eru í 1. gr., sem ég hef hér lesið frá orði til orðs og síðan skýrt að öðru leyti. Ég hef því ekki fleiri orð um þetta mál. Ég tel, að með því að flytja þetta frv. sé svarað þeirri eftirspurn, sem hér hefur verið og sem könnun virtist staðfesta varðandi þörf á leiguhúsnæði, og tel, að það verði síðan að líta á þann vanda, sem af þessu skapast. Það verður vafalaust að horfast í augu við aukna þörf húsnæðismálakerfisins, þegar þessi lög hafa verið staðfest, því að reikna verður með því, að allmörg sveitarfélög mundu notfæra sér ákvæði þessara laga, a. m. k. eftir því sem þau hafa túlkað þessi mál fram til þessa.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði, þegar umr. lýkur, vísað til 2. umr. og hv. félmn.