04.04.1973
Neðri deild: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fagna sérstaklega þessu frv. Ég hef verið þeirrar skoðunar og látið í ljós oftar en einu sinni á undanförnum árum, að það standi ýmsum byggðarlögum úti um landið mjög fyrir þrifum, að þar er svo sem ekkert leiguhúsnæði að fá. Það hefur verið mín skoðun, að ekkert pláss gæti tekið eðlilegum vexti, nema þar sé hægt að fá leiguhúsnæði, talsvert leiguhúsnæði, af þeirri einföldu ástæðu, að menn eru ekki ætíð reiðubúnir að koma sér upp eigin húsnæði, þegar þeir setjast að, kannske til reynslu, og fleira hefur komið þarna til.

Mér sýnist hér vera stefnt í það að gera þarna verulega úrlausn og vil því lýsa sérstöku fylgi mínu við þetta mál og leggja áherzlu á, að það yrði greitt þannig fyrir því, að það gæti orðið að lögum nú á þessu þingi. Það sýnist mér vera afar stórfellt atriði. Og þó mundi það nú líklega varla geta orðið, nema menn stilltu sig um að blanda inn í þetta öðrum málum, sem kannske væru flóknari í meðferð en þetta, sem hefur hlotið svo góðan undirbúning, — þetta atriði húsnæðismálanna.

Það liggur í loftinu, að ekki sé langt eftir þingtímans, og ég vil þess vegna skora á alla velunnara málsins að vinna að því að drífa þetta frv. hæstv. ríkisstj. í gegn nú fyrir þinglokin og blanda ekki inn í það neinu því, sem kynni að geta tafið málið.