06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það eru fá orð. Ég vildi aðeins taka það fram í sambandi við þær boðuðu brtt., sem hv. þm. Oddur Ólafsson 3. þm. Reykn., var að minnast á hér áðan, að kæmu kannske fram við 3. umr., að þessar hugmyndir sumar, sem hann reifaði hér, voru ræddar nokkuð í n., og það varð að ráði, að afgreiðslan yrði á þann veg, sem ég lýsti hér áðan.

Ég vil aðeins taka fram í sambandi við það, sem hann sagði um 6. gr. varðandi aðild sveitarstjórnar að stjórn dvalarheimilanna, hvort sem sveitarfélagið væri aðili að þeim eða ekki, að nm. voru yfirleitt á þeirri skoðun, að það gæti út af fyrir sig verið til bóta. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar varðandi þetta mál nú, eins og áliðið er orðið, að allar breytingar, sem á því yrðu gerðar, kostuðu það, að það yrði sent til Nd. aftur. Þær gætu teflt málinu í nokkra tvísýnu, ef væri um það stórfelldar breytingar að ræða, að mönnum þætti alveg sérstök ástæða til þess að koma fram með þær, og hef það einmitt fyrir mér í því, að þetta frv. er búið að vera grunsamlega lengi í Nd., og má segja, að við höfum jafnvel verið farnir að reikna með því hér í Ed., að það væri hátt í það dagað uppi þar. Það var fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að ég taldi og tel enn, að það geti stefnt málinu í nokkra tvísýnu, ef það þyrfti að fara aftur til Nd. vegna breytinga, sem á því yrðu gerðar hér.