01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

47. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru fáein atriði, sem ég þarf að víkja hér að í þessari ræðu.

Í fyrsta lagi er það, að hæstv. iðnrh. hafði við það aths. að gera, að hér er fskj. með þessu frv., þar sem getið er áætlunar um greiðsluyfirlit 1973 og einnig 1972, og honum fannst það vera nokkuð frekt, ef ég má nota það orðatiltæki, að það væri verið að birta hér í þskj. áætlun fyrir 1973, áður en nokkur áætlun hefði verið gerð um það í iðnrn. eða hann hefði fengið að sjá hana. Nú vil ég minna hæstv. iðnrh. á það, að hér eru nú í þinginu reknar skrifstofur allra þingflokka á kostnað þess opinbera til þess að veita þingflokkunum sérfræðilega aðstoð. Og þessar skrifstofur hafa miklu greiðari aðgang en menn höfðu áður að opinberum skrifstofum, sem eru að vinna að rannsóknum og áætlanagerð í málum, og þar er þess vegna engin leynd yfir atriðum, sem kannske var erfitt að toga út úr mönnum áður. Hvernig má gera ráð fyrir, að greiðsluyfirlit hjá sjóði eins og iðnlánasjóði verði á næsta ári. Hvað verða tekjurnar miklar? Hvað er líklegt, að tekjurnar verði miklar? Og hvað er líklegt, að hægt sé að veita mikil lán o.s.frv.? Hver er kostnaðurinn af rekstrinum? Þetta eru auðvitað ekki leyndardómar. Og ef það er einhver synd hjá þm. að grafast eftir þessum atriðum, — hvort sem það er gert beint hjá viðkomandi stofnun af þm. sjálfum eða fyrir tilstilli þessara skrifstofa, sem launaðar eru af opinberu fé til þess að afla upplýsinga og veita sérfræðilega aðstoð, afla upplýsinga hjá opinberum skrifstofum ríkisins, eins og Framkvæmdastofnuninni og ýmsum sjóðum, þá held ég, að það væri vissara fyrir hæstv, iðnrh. að vera ekki að fara með neinar tölur eða iðnþróunaráætlun, sem ekki er til. (Gripið fram í.) Nei, ég er að tala um iðnþróunaráætlunina. (Iðnrh.: Já, ég er að tala um þessa áætlun hérna.) Jú, þetta er greiðsluyfirlit sjóðsins, og hæstv. iðnrh. hlýtur að gera sér grein fyrir hvert greiðsluyfirlit sjóðsins er. Það er áætlun um þær tekjur, sem koma inn í sjóðinn, og hverju sé hægt að ráðstafa úr sjóðnum. Það er engin leynd yfir því. En ef það er talin dauðasynd að reyna að verða sér úti um upplýsingar um greiðsluyfirlit opinberra sjóða eins og iðnlánasjóðs, þá sagði ég það og endurtek, að þá finnst mér, að hæstv. iðnrh. ætti að fara varlega í að birta í útvarpi og sjónvarpi og annars staðar upplýsingar úr iðnþróunaráætlun, sem ekki er til. (Iðnrh.: Ég tel það ekki neina dauðasynd.) Það er engin dauðasynd, nei. Þá erum við kannske kvittir.

Varðandi það, sem hæstv. iðnrh. sagði, að iðnaðurinn hefði dregizt saman á árunum 1964–1967, þá er þetta misskilningur hjá hæstv. iðnrh., og ég verð að leiðrétta það. Hann hefur ekki gert sér nægjanlega grein fyrir því, hvernig þróunin hefur verið í iðnaðinum. Það getur verið, að samdráttur hafi orðið í einstökum iðngreinum á þessu tímabili. En í heild var framleiðsluaukning í iðnaðinum. Og ég hef hér fyrir framan mig úr skýrslu iðnrn. um íslenzka iðnaðinn og EFTA töflu um magnvísitölur iðnaðarframleiðslunnar frá 1960–1967, og þá lítur dæmið þannig út, ef miðað er við 1965 og iðnaðarframleiðslan þá sett 100, að iðnaðarframleiðslan, magnframleiðslan 1960 er 78.7 og 1961 79.4, 1962 87.8, 1963 93.8, 1964 97.7, 1965 100, 1966 103.4. Það er aukning öll þessi ár í iðnaðarframleiðslunni, en ekki samdráttur, en hann er dálítið mismunandi í greinum og sums staðar er hann talsvert miklu meiri og sums staðar minni. En í heild er niðurstaðan þessi.

Hæstv. iðnrh. segir: Nú er iðnaðurinn höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar. — Hann hefur nú ekki orðið það á þessu hálfu öðru ári, sem núv. ríkisstj. hefur setið við völd, og þetta er ágætur vitnisburður. Hann er líka í samræmi við það, sem kemur fram í skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar. Hún hefur nú verið birt eða send okkur þm., og þar er beinlínis tekið fram, — ég hef ekki skýrsluna fyrir mér, svo að ég get ekki lesið orðrétt upp úr henni, — að framþróun í framleiðsluaukningu og framleiðniaukningu í iðnaði hefur verið stórkostleg á árunum 1969, 1970 og fram á árið 1971 og meiri aukning og meira blómaskeið iðnaðarins en nokkru sinni áður frá því árið 1960. Og það er þessi framþróun, sem núv. hæstv. ríkisstj. kemur til að reyna að balda áfram, og ég óska henni alls góðs á því sviði. En eigi framþróunin að halda áfram, verður að ganga betur hér en á ýmsum öðrum sviðum hjá hæstv. ríkisstj., og vona ég vissulega, að svo verði.

Hæstv. ráðh. er að tala um stefnubreytinguna, sem orðið hefur. Þetta er hann oft að tala um. Það eru sennilega fleiri en ég, sem eiga erfitt með að skilja þetta, því að hann gefur sér forsendur, sem eru rangar, er alltaf að gefa sér þær forsendur, að fyrrv. ríkisstj. hafi ekkert viljað nema erlendan iðnað, þar sem erlendu fyrirtækin ættu meirihluta í fyrirtækjunum eða öll fyrirtækin. Þetta er algjörlega rangt, Ég las m.a. upp stefnumótun fyrrv. ríkisstj. frá 1966. Ég vitnaði til þess, að Kísiliðjan hefði verið reist hér, sem er eitt af stærstu iðnfyrirtækjunum, að meiri hluta eign ríkisins. Sett voru lög um olíuhreinsun, þar sem í löggjöfinni er gert ráð fyrir meirihlutaeign ríkisins (Iðnrh.: Samkv. till. frá mér.) Jú, jú, en það hins vegar hefði ekki farið í gegn, ef ríkisstj. hefði ekki viljað hafa frv. þannig. Þetta er ekkert nýtt. En það þýðir ekki að vera að tala við menn, sem gefa sér rangar forsendur, þó að það sé margbúið að benda mönnum á það. Og ég hef sagt frá því, að það hefur verið rætt við önnur iðnfyrirtæki um margvíslega aðild Íslendinga að erlendum orkufrekum iðnaði, þannig að útlendingarnir ættu mínni hl. eins og reyndin er á sumum sviðum, að þeir ættu fyrirtækið allt, eins og er um álbræðsluna vegna sérstakra ástæðna, að þeir ættu meiri hlutann fyrst, en um það væri samið, að á tilteknu árabili, 5–10 ára bili, eignuðust Íslendingar meiri hlutann, og loks man ég eftir þeirri hugsanlegu aðferð í þessu efni, að erlendir aðilar reistu fyrirtæki og afhentu það Íslendingum eftir 15 ár. Þeir, sem við áttum þá viðræður við, sögðu sem svo: Við erum búnir að afskrifa fyrirtækið á þessum tíma, og það getur þess vegna orðið eign ykkar eftir þann tíma. Fleira kemur að sjálfsögðu til. Fleiri atriði koma til álita í þessu sambandi, og það kom m.a. til álita það form á álbræðslu, að við reistum álbræðslu í samvinnu við vissa aðila, erlenda aðila, þannig að við reistum álbræðsluna einir, ættum hana einir, þeir legðu til allt fjármagnið í hana og við borguðum fjármagnið til baka með framleiðslu fyrirtækisins, eftir því sem samningar yrðu gerðir þar um. Þetta er eitt formið enn, sem um var rætt. Þess vegna hefur aldrei verið neitt skilyrði eða nein stefna fyrrv. ríkisstj., hvorki að formi til né í reynd, að erlendir aðilar ættu meiri hl. í fyrirtækjunum eða Íslendingar ættu ekki meiri hl. Þetta er algerlega rangt. Mér þykir leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli alltaf þurfa að vera að staglast á þessu sama og telja það svo stefnubreytingu hjá sér, þegar hann vill leggja áherzlu á, að Íslendingar eigi nú meiri hl. í fyrirtækjunum. Og Kísiliðjan er t.d. fyrir hendi, þar sem við eigum meiri hl. Þetta er auðvitað engin stefnubreyting.

Hann talaði um, að við vildum selja raforkuna erlendum fyrirtækjum. Er það ekki það, sem hann hefur sjálfur verið að tala um, að hann vildi gera? Hann kom beim frá Svisslandi og það var viðal við hann í Þjóðviljanum. Í því blaði er hægt að finna það, að þá segir hann, að hann hafi rætt um 35 aura á kwst. sem kostnaðarverð raforkunnar. Og hann segir líka í Þjóðviljanum í sept. 1971, þegar blaðaviðtal var við hann, að hann hafi orðað 35 aura sem hugsanlegt verð við marga aðila erlenda, sem hann hafi rætt við eða iðnrh. hafi átt viðræður við, og þeim ofbjóði það ekkert. Hann hefur boðið í þessum báðum tilfellum samkv. eigin sögn, — ég hef hans eigin orð fyrir því, — erlendum aðilum eða orðað við þá að selja raforkuna á kostnaðarverði, því að í sömu greinum er talað um 35 aura sem kostnaðarverð. Og ég benti á það, að í einmitt einu af þessu viðtali bætir hann við: Og eitthvað þyrfti að verða umfram kostnaðarverðið. Þetta líkaði mér vel, og þetta er einmitt það, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði. En svo er hægt að búa til ævintýrasögur um það, að ef svissneska álfyrirtækinu hefði verið seld raforka á 35 aura kwst., væri hægt að byggja Sigölduvirkjun fyrir það, sem Íslendingar hefðu hagnazt á þeirri sölu, frá því að byrjað var að selja raforkuna til álbræðslunnar. Það hefði engin álbræðsla orðið til með 35 aura verði á kwst., þegar samið var við Íslenzka álfélagið. Þetta er auðvitað alveg út í bláinn. Verðgildi peninganna breytist, og verðgildi raforkunnar breytist o.s.frv., og það er auðvitað mikilvægt, að á þessum tíma, sem nú er liðinn, hefði raforkan, sem Íslendingar sjálfir hefðu fengið frá þessari virkjun, Búrfellsvirkjun, orðið allt upp í fimmfalt dýrari án álbræðslu heldur en með álbræðslu. Það liggja fyrir skýlausar áætlanir sérfræðinga um það efni. Þær eru allar langt fram í tímann. Ég held, að ég muni það rétt, að 1980 mundi orkuverðið hafa verið frá álbræðslunni fyrir Íslendinga sjálfa um 60–70% hærra, ef virkjað hefði verið án álbræðslu heldur en með álbræðslu, svo að okkur hefur orðið stórkostlegur hagur af raforkusölusamningnum við Svisslendingana. Þetta er öllum ljóst, og ég veit, að hæstv. iðnrh. er það alveg fullkomlega ljóst. Hann er það glöggur maður, töluglöggur líka, eins op sagt er. En hann heldur sjálfsagt áfram að segja ýmislegt, sem hann sagði áður og vildi kannske hafa látið ósagt.

Það er gaman að telja sér sjálfum trú um, að það hafi verið gersamlega horfið frá stefnu fyrrv. ríkisstj. og tekin upp þveröfug stefna. Og svo er ráðh. sjálfur á þeytingi við að semja við erlenda aðila um stórfyrirtæki og kemur heim og segir, að það þurfi að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf Íslendinga, — maður kannast bara við orðalagið: að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Það er orðalag upp úr ýmsum ágætum ræðum, sem fluttar hafa verið í sambandi við stóriðju hér, þegar þessi hæstv. ráðh. var ekkert umhugað um stórvirkjanir eða stóriðju. Þegar við vorum að samþykkja hér frv. til l. um Sigölduvirkjun og Hrauneyjarfoss, vildi hæstv. ráðh. láta það bíða síns tíma, en virkja 30 megawatta virkjun annars staðar á Suðurlandi. En hinar virkjanirnar, sem um var að ræða, voru 150–170 megawatta virkjanir hvor um sig, virkjun Sigöldu og Hrauneyjarfoss. En það er alveg rétt, og það hef ég viðurkennt á opinberum vettvangi, að það er öfug stefna hjá hæstv. núv. iðnrh. frá því, sem áður var, að því leyti til, að hann vill byggja raforkuverin án þess að hafa nokkra hugmynd um, hvort hann getur selt raforkuna. Og það telur hann vera mestu búhyggindin.

Við litum á það á sínum tíma sem mjög mikilvægt, að hægt væri að hefja stóriðju hér á landi með byggingu stórvirkjunar í Þjórsá, stærsta vatnsfallinu, við Búrfell. og við, sem þá stóðum að þessum málum, töldum, að við værum í verulegu kapphlaupi við tímann. Eftir því sem við gætum hraðað okkur meira, værum við betur stæðir, vegna þess að engin orka, sem við þekkjum í dag, getur keppt við afskrifaðar vatnsaflsvirkjanir. Við höfum verið heppnir Íslendingar að því leyti, og það er heppni fyrir okkur, að þróunin í raforkuframleiðslu með kjarnorku hefur ekki gegnið eins hratt og sumir héldu og orkuverðið er alls ekki eins lágt og menn höfðu búizt við.

Ég skal svo ekki eyða meiri tíma í umr. eins og þessar hér. Ég legg auðvitað áherzlu á, að iðnlánasjóður verði efldur, og ég vil mælast til samstöðu við hæstv. iðnrh. um það á þinginu, annaðhvort með þessu móti eða öðru. Ég get sagt það, að mér finnst það ekki skipta máli, ef iðnaðurinn, — eins og hæstv. ráðh. vék aðeins að, — ef iðnlánasjóði væru tryggð einhver önnur tekjuefni í einhverju öðru formi. Aðalatriðið er að hann eflist sem iðnlánasjóður. En annað það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., finnst mér ekki ástæða til að ræða frekar.