09.04.1973
Efri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum er afleiðing af því, að á síðasta þingi voru afgr. lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, og eru þau nr. 22 frá 3. maí 1972. Það er talið nauðsynlegt og sjálfsagt að færa gildandi lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum til samræmis við þessa löggjöf, sem þingið afgr. í fyrra um Stýrimannaskólann. Meginefni þessa frv. er einmitt að samræma öll gildandi lög um skipstjórnarréttindi lögum um Stýrimannaskólann, eins og frá þeim var gengið á síðasta þingi. Til þess að grandskoða þetta mál fékk rn. skólastjóra Stýrimannaskólans, Jónas Sigurðsson, og deildarstjóra í samgrn., Kristin Gunnarsson. Hafa þeir annazt þessa endurskoðun með samræmingu á þessum tvennum lögum fyrir augum. Það þótti rétt að prenta lögin upp í heild, þar sem um orðalagsbreytingar var að ræða við mjög margar greinar, og þess vegna er sá háttur hafður á. Efnisbreytingar frv. lúta fyrst og fremst að því að tryggja samræmingu á þessum lögum.

Megin breyt. er efnislega þessi, að þar sem samræmt hefur verið námsefni annars bekkjar farmannadeildar og annars bekkjar fiskimannadeildar, hljóta þeir, sem ljúka prófi úr öðrum bekk stýrimannaskólanna nú, sömu réttindi, en eftir eldra fyrirkomulagi voru þessi réttindi mismunandi. Þau réttindi, sem annars bekkjar próf veitir nú samkv. nýjum lögum um Stýrimannaskólann eða skólana, Vestmannaeyjaskólann líka, eru skipstjórnarréttindi á fiskiskipum, af hvaða stærð sem er og hvar sem er, og skipstjórnarréttindi á verzlunarskipum allt upp að 400 rúmlestum í innan- og utanlandssiglingum, eða sams konar réttindi og fiskimannapróf annars stigs veitir nú, enn fremur undirstýrimannaréttindi á verzlunar- og varðskipum, eða sams konar réttindi og farmannapróf annars stigs veitir nú. Þessi réttindi, þ.e.a.s. undirstýrimannsréttindi á verzlunarskipum og varðskipum, eru tímabundin samkv. gildandi l., en samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þau verði varanleg. Það þykir rétt, að skipstjórnarréttindi á hverri tegund skipa verði þó ekki veitt nema eftir ákveðinn siglingatíma á viðkomandi tegund skipa, þannig að ekki verði veitt skipstjórnarréttindi á fiskiskipum við veiðar nema eftir ákveðinn siglingatíma á fiskiskipum og ekki réttindi á verzlunar- og varðsk. nema eftir ákv. siglingatíma á þeim.

Í þessu frv. eru svo tekin upp orðin skipstjórapróf 1. 2. og 3. stigs í staðinn fyrir orðin farmanna- og fiskimannapróf, sem víða koma fyrir í gildandi l., því að nú eru réttindin samræmd. Þykir það heppilegra orðalag og lýsa betur þeim réttindum, sem fást að loknu viðkomandi prófi þ.e.a.s. skipstjórnarréttindi.

Um aðrar efnisbreyt., sem í frv. felast, vil ég segja það, að gerðar eru nokkru strangari kröfur um aldursmörk til skipstjórnar- og stýrimannaréttinda. Þeim er breytt úr 19 ára aldri í 20 ára og í öðrum tilfellum úr 20 ára í 21 árs aldur og þannig gerð nokkru strangari. Hitt eru mest, þó að hér sé mikið mál á ferðinni, að því er virðist, orðalagsbreytingar, að langmestu leyti til samræmingar við lög um Stýrimannaskólann frá því í fyrra.

Frv. var, þegar þessi endurskoðun hafði farið fram, sent til umsagnar Siglingamálastofnuninni. Hún lætur í ljós, að hún telji æskilegt, að skilyrði til slíkra réttinda væru gerð strangari en í þessu frv. felst. Landssamband ísl. útvegsmanna mælir hins vegar með, að frv. verði lagt fyrir Alþ. nú. Farmanna- og fiskimannasambandið lætur í ljós í sinni álitsgerð, að kennslan til skipstjórnarréttinda, kennslan í stýrimannaskólunum, og efni þessa frv. séu mjög nátengd. Álit þess fjallar allt um það, að það telji, að taka þyrfti upp kennslu í stýrimannaskólunum um mörg fleiri atriði en nú eru kennd þar, ekki eingöngu varðandi ný tæki og nýjar vélar, heldur einnig um meðferð afla og veiðarfæra, verkstjórnaratriði og fleira þess konar, sem skipstjórar og stýrimenn þurfa að kunna skil á. En það snertir í raun og veru ekki efni þessa frv.

Ég tel því, að með samþykkt þessa frv. sé eingöngu stefnt að því, að samræmi sé milli lagaákvæða um stýrimannaskólana og atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum, og á það beri að líta, þegar menn taka afstöðu til þess, hvort rétt sé að samþ. þetta frv. eða ekki.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.