09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Í ræðu minni við 2. umr. málsins tók ég fram, að ég hefði verið þeirrar skoðunar frá upphafi, að ákvæði 2. gr. frv., síðari málsl., og einnig 6. gr. hefðu verið mér þyrnir í augum. Ég varð þess hins vegar var, að róðurinn í þessum efnum var allfast sóttur, og ég óttaðist, að harður ágreiningur um þetta efni kynni að hindra framgang málsins, og fyrir því var það, að ég tók það fram, að ef gott samkomulag gæti orðið í öðrum gr., sem og hefur orðið, þá gæti ég út af fyrir sig fellt mig við, að þetta mætti standa. Ég vil hins vegar segja, að eftir að hafa hlýtt á mál hæstv. forsrh. nú við 3. umr., þá læt ég alveg sannfærast um það af hans rökum, að þessi tvö atriði beri að fella brott úr frv. Hann sýndi fram á það ljóslega, að slík ákvæði eða slíkar ákvarðanir um skipan mála ættu ekki heima í lögum sem þessum, heldur þá í lögum um Stjórnarráð Íslands. Þess vegna mun ég eindregið fylgja þeim brtt. á þskj. 597, sem fluttar eru af hv. 2. þm. Vestf. o.fl. Ég vil einnig taka fram, og það snertir brtt. á þskj. 604, 607 og 608, að efni þskj. 604 og 607 hafði ég hreyft í n., þ.e. varðandi Patreksfjarðarumdæmi og Blönduósumdæmi, hins vegar ekki varðandi Húsavíkurumdæmi. Mér var hins vegar ljóst, að nokkur bót hafði verið ráðin á því, sem mönnum virtist á skorta við skiptingu þessara umdæma, með brtt. n. við 22. gr., þar sem segir, að:…„ ráðh. geti með reglugerð ákveðið að fjölga stöðum í umdæmum að höfðu samráði við Læknafélag Íslands,“ og eftir atvikum felldi ég mig við það. En úr því að þessar brtt. eru fram komnar á þessum þrem þskj.,—og einnig sú varðandi Húsavíkurumdæmi, sem er að mínu áliti alveg jafnsanngjörn og hinar, sem ég hafði sjálfur hreyft, — þá mun ég að sjálfsögðu fylgja þeim brtt.

Það er svo ekkert sérstakt annað, sem ég vildi fram taka um þetta. Ég vil ítreka það, sem fram hefur komið, að heilbr.– og trn. Nd. hefur af fremsta megni reynt að kynna sér ákvæði þessa frv. og bera fram þær brtt., sem henni hafa virzt helzt koma til greina. Það kann ýmislegt á að vanta. En menn verða að vera þess minnugir, að það má þá alltaf úr bæta, þótt síðar verði.