09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3254 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

241. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Flm. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Þegar þetta frv. til l. um veiðar innan fiskv.lögsögunnar sér loksins dagsins ljós, hlýt ég í upphafi að biðja velvirðingar á því fyrir hönd undirbúningsnefndar, hversu seint það er á ferðinni. Sú var vissulega ætlun þeirrar þingmannanefndar, sem hefur unnið að undirbúningi frv., að það yrði tilbúið allmiklu fyrr, helzt ekki síðar en í öndverðum marzmánuði. En mörg og óskyld atvik hafa valdið því, að þrátt fyrir eindregna viðleitni hefur n. ekki tekizt að leggja síðustu hönd á frv. fyrr en nú. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um orsakir þessa dráttar, en meginástæðuna vil ég þó nefna og leggja áherzlu á hana. Meginástæðan er sú, að það hefur verið staðfastur ásetningur n. að leita eftir sem víðtækustu samkomulagi um hin margvíslegu álitamál og ágreiningsatriði, sem upp hafa komið, áður en frv. væri formlega lagt fyrir þingið. Þetta töldum við nm. og teljum svo mikilvægt, að þess vegna hefur reynzt óhjákvæmilegt að eyða nokkuð löngum tíma til að fjalla um málið og nú síðast ásamt þm. hinna einstöku kjördæma. Svo og hefur verið óhjákvæmilegt að ræða einstaka þætti málsins oftar en einu sinni við áhrifaaðila utan þings, eftir að meginhugmyndir n. voru mótaðar, en þó áður en frv. hlyti fullnaðargerð. Hvernig til hefur svo tekizt í þessu efni, hvort n. hefur náð þeim tilgangi sínum að samræma sjónarmið eftir föngum, það verður reynslan að leiða í ljós. Nm. hafa lagt sig fram um það að ná fullri samstöðu innbyrðis um öll atriðin, og það hefur tekizt. N. er algerlega einhuga um þetta mál, um flutning þess og einstök atriði. N. stendur sem sagt öll að þessu frv., og hún væntir þess, að hv. Alþ. geti á það fallizt, að frv. nái fram að ganga í megindráttum í þeirri mynd, sem það hefur nú hlotið.

Vissulega ber frv. þess víða merki, að það hefur verið reynt að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Það ber þess vafalaust merki, að þar er um að ræða tilraunir til þess að ná samkomulagi um ágreiningsatriði, fara miðlunarleið, sem leitt gæti til samkomulags, og á annan hátt getur það naumast verið, þegar um er að ræða mál af þessum toga, þar sem viðhorfin eru margvísleg og ólíkir hagsmunir rekast óneitanlega víða á. Þar verður að leita lausnar á þann veg, að sem flestir geti sæmilega við unað, enda þótt fáir eða kannske engir fái ítrustu óskir sínar uppfylltar.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum í fiskveiðilaganefndinni fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf. Þar er um að ræða alþm. Guðlaug Gíslason, Jón Árm. Héðinsson, Karvel Pálmason og Steingrím Hermannsson. Þrátt fyrir mismunandi sjónarmið og viðhorf til einstakra þátta þessa máls hefur tekizt, eins og ég sagði, innan n. að samræma sjónarmiðin og komast að niðurstöðu.

Þá vil ég geta þess, að við nm. höfum leitazt við að verða við eða koma a.m.k. til móts við margar ábendingar og till., sem þm. hinna einstöku kjördæma hafa hreyft eða komið á framfæri við n., eftir að viðræður fóru fram við þá.

Þá vil ég einnig nota þetta tækifæri til þess að þakka fyrir hönd okkar nm. allra ritara n., Þórði Ásgeirssyni skrifstofustjóra í sjútvrn., mjög ánægjulega samvinnu og mikið og ágætt starf, sem hann hefur innt af höndum.

Í des. s.l., þegar bráðabirgðatill. n. voru til meðferðar, gerði ég allítarlega grein fyrir starfs háttum hennar, og ég tel mig ekki þurfa að endurtaka það, sem ég þá sagði. Þess skal aðeins getið, að frá því að n. tók til starfa í sept. í haust, hefur hún haldið 55 skráða og formlega fundi auk almennra funda í öllum kjördæmum landsins, eins fundar í hverju. N. hefur veitt viðtöku nálægt 50 skrifl. till. frá stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum, sumum þeirra mjög ítarlegum, öðrum um einstök atriði, auk munnlegra till. og ábendinga, sem fram hafa komið á fundum, í símtölum og viðræðum, en slíkar till. eða ábendingar eru fleiri en tölu verði á komið í fljótu bragði. Auk þess sem sjútvrn. lagði n. til skrifstofustjóra sinn sem ritara, hefur það á margvíslegan annan hátt veitt n. aðstoð í starfi hennar. Þá hefur og hæstv. sjútvrh. fylgzt með störfum n., komið á fundi með henni, þegar þess hefur verið óskað og hefur öll sú samvinna verið mjög góð.

Um heildarstefnu fiskveiðilaganefndar, þá stefnu, sem á að vera sem rauður þráður í þessu frv., vil ég í upphafi segja þetta: N. hefur leitazt við að samræma óhjákvæmileg og nauðsynleg friðunar- og verndarsjónarmið annars vegar og eðlileg hagnýtingarsjónarmið hins vegar. Það er ljóst, þegar þetta frv. er skoðað, að í því felast mjög veruleg og veigamikil ákvæði um aukna friðun, aukna vernd fiskstofna. Það er skoðun n., að slíkt sé óhjákvæmilegt, eins og nú horfir, bæði með tilliti til veikrar stöðu hinna mikilvægustu fiskstofna okkar, svo sem þorsksins, svo og þeirrar baráttu, sem við heyjum nú fyrir fullum og óskoruðum yfirráðarétti yfir 50 mílna fiskveiðilögsögu og raunar yfir landgrunninu öllu. Þar er ein beittasta röksemd okkar sú, að við verðum að ráða veiðum á þessu hafsvæði umhverfis landið til þess að koma í veg fyrir ofnýtingu fiskstofna og algera örtröð á miðunum við landið. En slíkum friðunaraðgerðum verður að sjálfsögðu ekki beitt án þess að þrengja nokkuð og það jafnvel allverulega að veiðiheimildum íslenzkra skipa á grunnsævi á ýmsum viðkvæmum klak– og uppeldisstöðvum. Það verðum við að gera okkur ljóst. Hér er að sjálfsögðu vandratað meðalhófið, en það meðalhóf hefur fiskveiðilaganefnd viljað rata. Ýmsir munu vafalaust segja, að hér sé of lítið að gert, hér hefði átt að friða meira, taka stærra stökk í því efni. Aðrir segja vafalaust á hinn bóginn, að verið sé að þrengja mjög að togbátum og þó einkum togurum með ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður. Og þeir bæta þá gjarnan við,að aðalfriðunin hjá okkur eigi að vera fólgin í því, að veiðar erlendra skipa á íslenzkum miðum og íslenzkum hafsvæðum minnki. Þetta er vissulega rétt, svo langt sem það nær. Og við hljótum að gera ráð fyrir því og hafa hliðsjón af því, þegar við semjum okkar lög og reglur um veiðar íslenzkra skipa innan nýrrar fiskveiðilandhelgi, að við náum fljótlega fullum tökum á þessu efni og náum algerum yfirráðarétti yfir hinni nýju fiskveiðilögsögu og í því felst að sjálfsögðu mjög aukið athafnasvæði íslenzkra togskipa og togara utan við 12 mílur eða milli 12 og 50 mílna, ef eða þegar slíkt tekst.

Þegar hv. alþm. og aðrir meta þetta frv. og líta á einstaka þætti þess, er óhjákvæmilegt, jafnframt því sem þeir líta á hina einstöku þætti, t.d. þau atriði, sem snerta fyrst og fremst þeirra kjördæmi, að hafa málið allt í huga. Það nægir ekki að horfa á þetta mál frá sjónarmiði eins landshluta eða með tilliti til eins hafsvæðis einvörðungu. Það má vera ljóst, að aukin friðun á einum stað hefur nær undantekningarlaust í för með sér, að sókninni er þar með beint á önnur mið. Aukin friðun á einum stað veldur auknum sóknarþunga á öðrum, og þar kann þó ekki að hafa verið á bætandi. Þess vegna þarf að vera sem bezt samræmi og sem eðlilegast hlutfall milli ákvæða um fiskveiðar víðs vegar umhverfis landið, með nauðsynlegu tilliti þó til breytilegra staðhátta, sem eru til staðar og verður að hafa í huga.

Þær reglur, sem gilt hafa nú nokkurt skeið, þrjú undanfarin ár eða þar um bil, um togveiðiheimildir innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar, hafa þótt og hafa raunar verið nokkuð flóknar og margbrotnar, og allt eftirlit og gæzla hefur verið býsna torvelt af þeim sökum. Sá hefur verið vilji n., sem undirbjó þetta frv., að einfalda þessar reglur, gera mörkin hreinni og skýrari en áður og auðvelda á þann hátt landhelgisgæzlunni hið nauðsynlega eftirlit með lögunum, sem um þessi efni gilda. Að mati okkar nm. hefur talsverður árangur náðst í þessu efni, enda þótt hann sé e.t.v. ekki eins mikill og við höfðum gert okkur vonir um, um skeið. Það torveldaði þetta verk óneitanlega býsna mikið, að n. treysti sér ekki til, þegar á reyndi, að fella niður eða fækka í rauninni stærðarmörkum togskipa, en um það var rætt allmjög innan n. Þessi stærðarmörk eru óbreytt. Það eru eins og áður þrír flokkar, sem gengið er út frá í sambandi við þetta frv. Það eru í fyrsta lagi minnstu togskipin, 105 tonn og minni, sem hafa eins og áður rétt til togveiða næst landi. Þá koma meðalstóru skipin, 106—350 tonn, sem hafa allmiklu minni rétt, en þó meiri en stærstu skipin, sem eru yfir 350 tonn. Um þetta atriði var mikið rætt innan n. og bollalagt, en niðurstaðan varð sem sagt þessi, að halda óbreyttri skiptingu. Þó er vert að veita því athygli, að veruleg einföldun hefur fengizt með því, að á býsna stórum hafsvæðum, þ.e. fyrir öllu Norður- og Austurlandi og verulegum hluta Vesturlands, er þessari þrískiptingu sleppt og stærðarflokkarnir aðeins tveir, þ.e.a.s. undir og yfir 350 tonn. Það er á þeim svæðum, þar sem er tiltölulega lítið um togbáta eða togskip af meðalstærðinni, þ.e.a.s. stærðinni 105-350 tonn eða lítið af minnstu stærð skipa undir 105 tonn, þannig að eðlilegt þótti að hafa þau mörk ekki á þessum slóðum. Rökin fyrir því að halda þessari skiptingu eru í stuttu máli þau, að það ætti að vera hægt að nýta miðin skynsamlegar en ella. Það er þá eðillegt, að minnstu skipin fái að veiða nær landi, en þau stærri í fjær. En einnig réð hitt nokkru, að það var algerlega ósýnt, hvað tæki við hjá þeim hinum minni togbátum, ef forréttindi þeirra til veiða eitthvað nær landi en stóru togskipin, hefðu verið afnumin með öllu. En úr því að ekki þótti fært að fella þessa stærðaskiptingu niður, og ég býst við, að þegar menn athuga málið gaumgæfilega, þá komist þeir að raun um, að það eru mörg vandkvæði á því, — þá virtust ekki heldur nein haldgóð rök fyrir því að breyta um stærðarhlutföllin eins og þó hafði verið töluvert rætt um og ýmsar till. komu fram um. Það hafa óneitanlega komið upp ýmis vandkvæði. Í sambandi við þessi stærðarhlutföll, og þá m.a. hefur þess þótt gæta, að reynt hafi verið í einstaka tilfellum að smíða skip, sem yrðu mæld undir t.a.m. 105 tonna mörkunum, enda þótt þau væru í raun og veru stærri og burðarmeiri en sem því svaraði, og útkoman hefur að sumra dómi stundum ekki orðið nægilega góð frá skipasmíðalegu sjónarmiði. En þetta gæti vissulega alveg eins komið upp og kæmi vafalaust alveg eins upp, þó að mörkin væru færð til. Hér þurfa að sjálfsögðu þeir aðilar, sem þarna hafa eftirlit með, að vera á verði, og það yrði í sjálfu sér engin bót að því að færa stærðarmörkin til. Eina bótin í sambandi við þetta væri þá að fella þau algerlega niður.

Frv. það, sem hér er á ferðinni, á að koma í staðinn fyrir tvenn lög, sem nú eru í gildi. Fyrst og fremst á það að koma í stað laga um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, en þau lög eða meginákvæði þeirra falla úr gildi 1. júlí nú í sumar. En einnig þótti rétt að fella inn í þetta frv. lög um takmarkað leyfi til dragnótaveiða. Það urðu um það töluverðar umr. í n., hvort ekki væri eðlilegt og æskilegt að fella saman í ein lög alla þá löggjöf, sem fjallar um fiskveiðar íslenzkra skipa og raunar erlendra líka, gömul lög, sem fjalla m.a. um veiðar erlendra skipa, og stendur nú ekki nema hluti af þeim eftir, lög frá 1922 um rétt til fiskveiða við Ísland, lög um smáfiskveiði á fjörðum og ýmis önnur gömul lög, sem eru orðin býsna úrelt, en þó eru viss ákvæði í þeim, sem kynnu að eiga enn rétt á sér í löggjöf. En það fór svo, að þrátt fyrir nokkurn undirbúning að þessu og viðræður við sjútvrn., sem tók þessari hugmynd vel, vannst ekki tími til þess eða þótti ekki fært að láta slíka heildarendurskoðun tefja framgang þessa máls. Það er hins vegar skoðun mín, og ég held, að það sé skoðun okkar nm. allra, að, að þessu beri að vinna og það væri mjög æskilegt að koma á slíkri heildarlöggjöf í síðasta lagi í sambandi við þá endurskoðun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að fari fram á hinum væntanlegu lögum, en fyrir því er gert ráð í 18. gr. þessa frv., eins og ég kem að hér á eftir.

Eins og ég sagði áðan, heita gildandi lög um togveiðar: „Lög um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu.“ Okkur þótti þetta heiti órökrétt og í rauninni óeðlilegt, þar sem kjarni laganna og inntak þeirra er fyrst og fremst að veita ýmiss konar togveiðiheimildir til handa íslenzkum skipum innan fiskveiðilandhelginnar. Í sambandi við þetta er frv. n. þess vegna nefnt: „Frv. til l. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni.“ Það er rétt, að undirstrika það, að þessi breyting og sömuleiðis allveruleg orðalagsbreyting, sem gerð er á 1. gr. frv., miðað við gildandi lög, er einungis formleg breyting, en ekki efnisbreyting á neinn hátt.

Ég vík þá að helztu breytingunum, sem gert er ráð fyrir, og byrja á togveiðiheimildunum og verð einna fjölorðastur um þær, en mun stytta mál mitt um önnur efni. Til þess að verða þó ekki of langorður, leyfi ég mér að vísa til nánari upplýsinga um ýmis atriði, sem ég fer lauslega yfir, í aths. þeim, sem fylgja frv., og þá m.a. aths. við einstakar gr. þess. Svo vísa ég til þess korts, sem prentað er á öftustu síðu, aftan við grg. fyrir frv. — Ég vil skjóta því hér inn, að í vörzlu fiskveiðilaganefndar í Þórshamri eru allstór kort, sem skýra miklu nánar en hægt er að gera á þessu litla korti ýmis atriði, og eiga hv. alþm. að sjálfsögðu greiðan aðgang að þeim, eftir því sem þeir óska.

Togveiðiheimildir fyrir Norðurlandi taka verulegum breytingum frá því, sem verið hefur. Breytingarnar eru bæði fólgnar í mjög aukinni friðun og mikilli einföldun á þeim reglum, sem þar hafa gilt. Í frv. er gert ráð fyrir, að togveiðar verði hvergi leyfðar nær landi en 9 sjómílur, en nú eru togveiðar á þessu svæði heimilaðar upp að 4, 6 eða 8 mílum á mismunandi tímum árs og heimilaðar þrem mismunandi stærðum skipa. Frv. gerir ráð fyrir því, að um leið og friðun er aukin með því að færa togveiðiheimildirnar fjær landi, fái öll skip 350 smálestir og minni heimild til að toga allt árið upp að 9 sjómílum, en öll skip 350 smálestir og stærri yrðu að vera utan við 12 mílur, en megi veiða á svæðinu milli 12 og 50 mílna. Þó er sú undantekning, að á tímabilinu 1. apríl til 1. júní takmarkast togveiðiheimildir fyrir Norðausturlandi af ákvæðum reglugerðar, sem sett var á s.l. ári og bannar allar togveiðar þennan tíma innan 50 sjómílna á svæði frá Rifstanga að Langanesi. Það er sem sagt ætlunin, að þetta bann standi eins og það var ákveðið á s.l. ári. Aukin friðun fyrir Norðurlandi er talin brýn nauðsyn, ekki sízt vegna þess, að þar eru einhverjar mestu uppeldisstöðvar þorsks á íslenzku landgrunni. Því er ekki að leyna, að till. voru uppi um enn víðtækari takmarkanir á togveiðiheimildum fyrir Norðurlandi, en með hliðsjón af öllum atriðum þótti n. samt ekki fært að ganga lengra en hér var gert.

Úti fyrir Austurlandi eða á svæðinu frá Langanesi að Selskeri er friðun allverulega aukin frá því, sem nú er, og reglur um togveiðiheimildir, sem voru þar líka næsta flóknar, einfaldaðar mjög. Nú er ráð fyrir því gert, að togveiðiheimildir verði ekki lengur mismunandi eftir árstímum og togveiðar víðast hvar ekki heimilaðar nær landi en upp að 12 sjómílna mörkunum. Þó fá bátar undir 350 tonnum nokkrar heimildir innan þeirrar línu á svæðinu frá Langanesi að Ósnesi. Togveiðiheimildir kringum Hvalbak eru óbreyttar frá því, sem verið hefur.

Á hafsvæðinu fyrir Suðausturlandi frá Selskeri að Dyrhólaey eða Lundadrang, sem er grunnlínupunktur skammt frá Dyrhólaey, er gert ráð fyrir aukinni friðun og það verulega aukinni, enda er oft ungfiskur á þessum slóðum í miklum mæli. Með tilliti til bátaútgerðar frá verstöðvum þarna tókst hins vegar ekki að einfalda reglurnar, heldur eru þær enn óneitanlega nokkuð flóknar. Hinir minnstu bátar, 105 tonn og minni, halda þarna að mestu óbreyttum veiðiheimildum, en veiðiheimildir 106—350 tonna skipa eru skertar nokkuð, þannig að samkv. frv. fá þau hvergi að toga nær landi en 6 sjómílur. Heimildir skipa yfir 350 tonn eru þó skertar enn frekar. Þó fá þessi skip að vísu að toga upp að 9 sjómílum á nokkru svæði, þ.e.a.s. á svæðinu frá Selskeri að Ingólfshöfða, en að öðru leyti utan við 12 mílur, eins og er meginreglan. Þó gerir frv. ráð fyrir, að allar togveiðar á þessu svæði innan 12 mílna verði bannaðar 2 mánuði á ári, þ.e. frá 1. marz til 1. maí, og það er óbreytt frá því, sem nú er.

Fyrir Suðurlandi, á svæðinu frá Dyrhólaey að Reykjanesi, eru gerðar nokkrar breytingar, og þær hníga yfirleitt og raunar allar í þá átt að auka friðun og gera reglur einfaldari en verið hafa. Samkv. frv. eru togveiðar minnstu togskipanna hvergi leyfðar nær landi en 3 sjómílur. Þar með eru afnumin tvö togveiðisvæði, sem námu alveg upp að fjörumarki. Að öðru leyti eru togveiðiheimildir skipa undir 350 tonnum lítið breyttar. Hins vegar felur frv. í sér allverulega og raunar verulega skerðingu á togveiðiheimildum skipa, sem eru yfir 350 tonn. Meginreglan hér sem annars staðar við landið er sú, að stór togskip og togarar veiði ekki nær landi en 12 sjómílur. Þó þótti eftir atvikum rétt að heimila þessum skipum að toga upp að 9 sjómílum á nokkru svæði á Selvogsbanka. Ekki er hreyft við í þessu frv. ákvæði reglugerðar, sem sett var á fyrra ári, en sú reglugerð ákvað friðlýsingu tiltekins svæðis á Selvogsbanka, bæði utan og innan 12 mílna, á tímabilinu frá 20. marz til 20. apríl.

Á Reykjanes- og Faxaflóasvæðinu er gert ráð fyrir einföldun reglna og aukinni friðun. Þeirri línu, sem lokar Faxaflóa, er breytt lítilsháttar til einföldunar og eðlilegra horfs að dómi n. Utan þeirrar línu er skipum innan við 350 tonn heimilaðar veiðar allt árið. Hér sem annars staðar er ráð fyrir því gert, að skip stærri en 350 tonn veiði ekki nær landi en 12 sjómílur miðað við grunnlínur. Þó fá skip af þessum stærðarflokki heimild til togveiða inn að 9 sjómílum utan við grunnlínu á nokkru svæði í Jökuldjúpi.

Á Breiðafjarðarsvæðinu, þ.e.a.s. frá Snæfellsnesi að Bjargtöngum. frá Gáluvíkurtanga. sem við er miðað á Snæfellsnesi og að Bjargtöngum, gerir frv. enn ráð fyrir einföldun gildandi reglna og nokkuð aukinni friðun. Togveiðiheimildir togbáta undir 105 tonnum eru allmikið skertar á þessum slóðum, og er nú aðeins gert ráð fyrir einu svæði eða hólfi fyrir þessa báta inni á Breiðafirði í stað þriggja áður. Skip af stærðinni 106—350 tonn færast nokkru utar á þessu svæði, en þó er ekki um verulegar breytingar á togveiðiheimildum þeirra að ræða. Hér sem annars staðar er svo í megindráttum við það miðað, að togarar eða togskip yfir 350 tonn fiski utan 12 mílna markanna. Þó er gerð hér sú undantekning, að þessum skipum er heimilað að veiða upp að 9 sjómílum í svonefndum Kolluál, á nokkru svæði þar.

Loks er að nefna Vestfirði. .Á svæðinu frá Bjargtöngum að Horni breytast togveiðiheimildir að því leyti, að tvö allstór togveiðisvæði innan 12 mílna, sem ætluð voru skipum undir 350 tonnum, falla með öllu burt, og er því ekki gert ráð fyrir, að á þessu svæði verði neinar togveiðar leyfðar nær landi en 12 sjómílur miðað við grunnlínur. Rétt er, að það komi fram, að meðal Vestfirðinga voru uppi mjög sterkar raddir um, að bannaðar yrðu allar togveiðar út af 20 sjómílum frá grunnlínum. Fiskveiðilaganefnd hefur þó fulla ástæðu til að ætla, að náðst hafi nokkuð víðtækt samkomulag um till. eins og þær eru nú fluttar, og þá með sérstöku tilliti til ákvæða, sem eru í 4. gr. þessa frv., þar sem sjútvrh. er gert skylt að friða sérstök svæði fyrir öðrum veiðarfærum en línu á tilteknum stöðum og um tiltekinn tíma, þ.e.a.s. þar sem línuveiðar eru mjög mikið stundaðar, með sérstökum ákvæðum, sem segir í 4. gr. Þetta ákvæði, eins og það er úr garði gert, er ekki sízt til komið vegna hinnar miklu línuútgerðar á Vestfjörðum, enda þótt ekkert sé því til fyrirstöðu, eins og frv.gr. er orðuð, að aðrir geti hagnýtt sér ákvæði þessi, ef þeir uppfylla meginskilyrðið, að þarna sé línuútgerð stunduð í ríkum mæli.

Ég hef þá lokið þessari hringferð um landið og vík nú að öðrum atriðum. 5., 6. og 7. gr. þessa frv. eru algerlega shlj. þeim ákvæðum, sem samþ. voru hér á Alþ. í des. s.l. að tilhlutan fiskveiðilaganefndarinnar. Þessi ákvæði eru að mínum dómi og ég hygg okkar nm. allra mjög mikilvæg. Þau beinast öll að verndar– og friðunaraðgerðum. Þau eiga að auðvelda Hafrannsóknastofnun og sjútvrn. að grípa í taumana og koma á skyndifriðun, þar sem þess þykir vera brýn þörf. Á mjög miklu veltur, að framkvæmd þessara ákvæða 5., 6. og 7. gr. verði sem bezt og öflugust. Til þess að svo verði, þarf tvímælalaust verulega aukið eftirlit með veiðum. Nú hefur Hafrannsóknastofnunin samkv. ákvörðun Alþ. fengið heimild til að festa kaup á nýlegum og hentugum fiskibát að dómi stofnunarinnar, og ég vil láta það koma fram hér, að með fullri virðingu fyrir hinum hefðbundnu og venjulegu fiski– og hafrannsóknum, sem sízt ber að vanmeta og er sjálfsagt og eðlilegt að efla, þá vil ég láta það í ljós sem mína skoðun, að eins og nú standa sakir geti Hafranasóknastofnunin gert afar mikið og e.t.v. ekki minna gagn með því að nota skipakost sinn og mannafla að einhverjum hluta til bráðnauðsynlegs eftirlits með veiðum og til könnunar á því, hvað nauðsynlegt kunni að reynast til að beita ákvæðum um fyrirvaralitla eða fyrirvaralausa lokun, þar sem um viðkvæm veiðisvæði er að ræða, sem þarf að loka fyrirvaralaust eða um stundarsakir vegna óeðlilegs seiða– eða smáfiskadráps. Og ég vil fyrir hönd n., sem undirbjó þetta frv., leggja á það ríka áherzlu, að þess er að vænta, að viðkomandi stjórnvöld og stofnanir leggi sig fram um að halda uppi því eftirliti og framkvæma þær friðunaraðgerðir, sem um er fjallað og til er ætlazt samkv. þessum þremur gr. frv., hvenær sem þörf er talin á. Slíkt eftirlit er tvímælalaust mikilvægari friðunaraðgerð en strangar reglur, sem lítt eða ekki er framfylgt.

Um 8. og 9. gr. frv. tel ég óþarft að ræða og vísa um það efni til aths. við frv. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á því, að í 10. gr. eru færð á einn stað ákvæði um margvíslegar veiðiheimildir og veiðitakmarkanir, sem ráðh. getur sett að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Flestar eru þessar heimildir fyrir í eldri lögum, en þær eru þar nokkuð á víð og dreif. Hér eru í 1. tölul. heimildir, sem teknar eru úr lögum um dragnótaveiði í fiskveiðilandhelginni, þ.e.a.s. lögum nr. 40 frá 1960, en það varð að ráði, eins og ég sagði áður, að fella meginákvæði þeirra inn í þetta frv. og nema þau síðan úr gildi. Og meginákvæði laganna eru óbreytt, með einni undantekningu þó. Niður er fellt það ákvæði, að Fiskifélag Íslands skuli leita álits sveitarstjórna á viðkomandi svæði, áður en leyfi til dragnótaveiða er veitt. Þess í stað er ráðh. gert að skyldu að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar, áður en heimildir til dragnótaveiða eru gefnar út. Þá skal ráðh. einnig leita álits Fiskifélags Íslands eða annarra aðila, þegar honum þykir ástæða til. En í framhaldi af þessu er Hafrannsóknastofnuninni gert að skyldu samkv. frv. að fylgjast með dragnótaveiðum þeim, sem leyfðar kunna að verða, gera till. um tilhögun þeirra, svo sem hversu nálægt landi þær megi stunda á hverjum stað, hve langan tíma og þar fram eftir götunum. Að athuguðu máli þótti þetta fyrirkomulag eðlilegra heldur en hið fyrra. N. telur hins vegar, að með þessu breytta fyrirkomulagi sé alls ekki verið að gefa undir fótinn með það, að auka eigi dragnótaveiðiheimildir frá því, sem verið hefur. Þvert á móti kom það sjónarmið fram innan n., að kanna þyrfti, hvort ekki hefði verið á sumum stöðum heimilað að veiða of nærri landi. En ég fullyrði, að það var ekki hugmynd n., að þetta opnaði á neinn hátt frekar fyrir veiðiheimildir með þessu veiðarfæri en verið hefur.

Þá vil ég aðeins víkja að því ákvæði, sem bannar dragnótaveiðar í Faxaflóa. Áður, í 3. gr., er komið hið almenna bann við botnvörpuveiðum í flóanum, en eftir stóð þá það, hvort ætlunin var að nema úr gildi dragnótalögin eða fella þau inn í þetta frv., hvaða afstöðu n. skyldi taka til dragnótaveiðibannsins hér í Faxaflóa. N. komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri, að dragnótabannið héldist, ef það yrði tímabundið, það stæði enn í þrjú ár, þ.e.a.s. til 1. júlí 1976. Nm. eru þeirrar skoðunar, að þar sem bann þetta var sett fyrir tveimur árum, væri það allt of skammur tími til þess að sanna eitt eða neitt um ágæti eða gildisleysi slíkrar friðunar, það þyrfti til þess lengri tíma, og n. sýndist, að það væri ekki óeðlilegt, að sá reynslutími væri samtals fimm ár, það væri nær lagi, að það tímabil nægði til þess að sýna einhvern árangur eða árangursleysi eftir atvikum. Þegar þar að kemur, taka þeir, sem um slík mál fjalla, að sjálfsögðu ákvörðun um það, hvort framlengja eigi slíkt bann eða ekki. Niðurstaða n. varð að taka þetta ákvæði inn, en tímabinda það, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Um aðrar þær heimildir til takmarkaðra og tiltekinna veiðileyfa, sem fjallað er um í þessari gr., sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða. Það er lítið nýtt í þeim atriðum, en í vissum tilvikum er þar staðfest sú venja, sem þegar er á komin.

Í 11. gr. er kveðið á um sektir vegna brota gegn 1.—6. gr. þessa frv. Þar er um töluverða breytingu að ræða, sem ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um. Þó er þar enn miðað við gullkrónur, þegar um sektir er að ræða fyrir brot á botnvörpulögunum. Rætt var um það í n., hvort ástæða væri e.t.v. til að breyta þessu og finna einhverja aðra viðmiðun, en það varð ekki. Hér er um að ræða gamla hefð og að ýmsu leyti allgóða aðferð til viðmiðunar eða svo hefur reynzt. Ég skal geta þess, að ein gullkróna samsvarar nú rúmlega 43 ísl. kr., og því má margfalda þær fjárhæðir í gullkrónum, sem koma fyrir í 11. gr., með 43 til þess að finna út, hvað hér er um að ræða í venjulegri krónutölu.

Þá vil ég aðeins fara nokkrum frekari orðum um þær breytingar, sem n. hefur gert á ákvæðunum um viðurlög við brotum. Ég skal geta þess, að um þetta efni hefur verið farið í smiðju til færra lögfræðinga um að forma þessi atriði. Það felst sú meginbreyting í frv., að misháar sektir eftir mismunandi stærðarflokkum skipa eru nú í fimm flokkum í stað þriggja í þeim lögum, sem gilt hafa að undanförnu og lengi raunar. Það hefur löngum þótt, að í núgildandi lögum sé gerður mjög óeðlilegur og allt of mikill greinarmunur á því, hvort skip er stærra eða minna en 200 rúmlestir. Þetta hefur verið gagnrýnt mikið og með fullum rökum. Skip, sem er t.d. 190 rúmlestir, fær, að því er okkur hefur verið tjáð, venjulega um 45 þús. kr. sekt, en skip, sem er 20 tonnum stærra eða 210 tonn, fær yfirleitt um 700 þús. kr. sekt. Það er til að minnka þennan óeðlilega mismun, að stærðarflokkunum er fjölgað um tvo. Í frv. eru sektarfjárhæðirnar hækkaðar verulega, en þó er þess að gæta, að jafnframt er aukið svigrúm dómara til ákvörðunar sektar, þ.e.a.s. lágmarksupphæðin er e.t.v. í mörgum tilvikum svipuð og áður eða lítið hærri en áður, en hámarksupphæðin hækkuð verulega. Það eru ýmis rök, sem virðast hníga að því að gefa dómurum nokkru meira færi en verið hefur til að meta aðstæður og meta það, hversu sök er mikil, og hafa nokkra hliðsjón af því, en ekki svo einhliða sem verið hefur að hafa hliðsjón af stærðarmörkum skipa.

Þá er rétt að geta þess, að í ákvæðum, sem eru í þessari gr. um upptöku afla og veiðarfæra, er ekki að finna nein nýmæli. Það er einungis óbreytt það, sem stendur í gildandi lögum.

12., 13. og 14. gr. þessa frv. fjallar um ýmis viðurlög. Þar eru nokkrar breytingar og aðallega til samræmis við breytingarnar, sem gerðar hafa verið á 11. gr., aðalsektargr. Aðalbreytingarnar eru þær, að sektarfjárhæðir eru hækkaðar og sérstaklega eru þó sektarmörkin víkkuð verulega eins og áður, þ.e.a.s. bilið aukið milli hæstu og lægstu sektar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 18. gr. frv. Í henni er afdráttarlaust mælt fyrir um það, að sjútvrn. skuli láta endurskoða lög þessi fyrir 31. des. 1975, þ.e. innan hálfs þriðja árs frá gildistöku þeirra. N. hefur rætt um það og telur eðlilegt, að þeirri endurskoðun verði hagað líkt og áður, bæði svipað og þegar togveiðiheimildalögin voru sett fyrir þremur árum og þegar þessi endurskoðun fór fram nú, að ráðh. skipi sérstaka n. til að annast þetta verkefni. Ástæðurnar fyrir þessu ákvæði eru ýmsar, og skal ég geta um þær helztu.

Í þessu frv. eru gerðar allróttækar breytingar á gildandi lögum, og hér er um að ræða mál, sem er á allan hátt eðlilegt, að endurskoða þurfi eða breyta að fenginni reynslu. Í öðru lagi eru öll fiskveiðimál okkar í mjög mikilli deiglu um þessar mundir og óvissa ríkir um ýmis efni. Skal þar sérstaklega nefna hina miklu óvissu um þol helztu fiskstofna okkar. Við erum enn að berjast við að ná fullum tökum á yfirráðarétti yfir 50 mílna lögsögunni. Við erum í miðjum klíðum við uppbyggingu og endurnýjun skipaflotans. Og enn má nefna, að veiðitækni heldur vafalaust áfram að þróast, svo að nokkuð sé nefnt af ástæðum, sem við teljum mæla með því, að það verði ákveðið þegar í upphafi, að þessi lög skuli endurskoðuð, þegar nokkur reynsla, hófleg reynsla hefur fengizt af þeim. Þó má vel vera, þar sem eins margt er í óvissu um þessi efni og í deiglunni eins og ég áðan sagði, að einu og öðru kunni að þurfa að hnika til, áður en slík heildarendurskoðun fer fram. En við í n. teljum æskilegt að festa það í lög, að hún skuli fara fram, og við teljum þetta hóflegan reynslutíma, sem hér er tilgreindur, og við slíka endurskoðun teljum við eðlilegt, að athugað yrði, hvort ætti ekki að fella inn í þessi lög þau lög önnur, sem fjalla um fiskveiðar á einhvern hátt og ég áður nefndi, og e.t.v. einhver fleiri.

Ég hef nú rakið efni þessa frv. og gert grein fyrir helztu breytingum, sem í því felast, miðað við þá löggjöf, sem nú er í gildi. Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að vissulega þykir okkur nm. miður farið, hve seint það kemur fram. En sú er bót í máli, að hv. alþm. eru því ekki ókunnugir. Þeir hafa allir átt þess kost að kynnast meginefni þess. Það hefði að vísu þurft fyrr að vera og þeir að fá lengri tíma e.t.v. til þess að kanna einstök atriði málsins. En ég vona þó, að þeir hafi átt þess kost að kynnast þeim atriðum, sem þeir töldu máli skipta.

Ég vil að lokum minna á það, að hinn 1. júlí n.k. falla núverandi togveiðiheimildir úr gildi. Ég vænti þess, að þetta mál, sem vissulega er bæði viðkvæmt og vandasamt, eins og allir hv. þm. hafa vafalaust gert sér ljóst, fái tiltölalega greiðan aðgang í gegnum hv. Alþ. nú. Málið er þess eðlis, að um það þarf helzt að nást sem víðtækast samkomulag. Að því hefur fiskveiðilaganefndin reynt að vinna. Þetta mál, þetta viðkvæma mál, eins og ég orðaði það, er sízt af öllu til þess fallið að verða flokkspólitískt bitbein, enda eru viðhorfin til hinna einstöku þátta þess vafalaust misjöfn innan allra stjórnmálaflokka. Það eru allt önnur atriði, sem ágreiningi eða ólíku mati kunna að valda um einstaka þætti málsins, heldur en stjórnmálaskoðanir. Fiskveiðilaganefndin hefur reynt að vinna að málinu með því hugarfari, að sæmilegt samkomulag gæti orðið um það hér á hv. Alþ. Takist það ekki, óttumst við, að afleiðingarnar geti orðið býsna alvarlegar. Þar sem svo skammur tími er til stefnu, ef ljúka á afgreiðslu þessa máls fyrir þingslit, þar sem þingmannanefnd hefur haft málið til meðferðar og flytur það í raun og veru og þar sem helztu breytingarnar hafa áður verið kynntar fyrir hv. þm., þá ætla ég ekki að gera till. um, að málið fari til n. í þessari hv. d. Hins vegar er mér heimilt að lýsa því yfir fyrir hönd þeirrar undirbúningsnefndar, sem að þessu frv. hefur unnið, að hún er fús til að taka til athugunar á milli umr. allar þær ábendingar og brtt., sem fram kynnu að koma. Geti hv. þd. fallist á þessi vinnubrögð, kynni það að hraða málinu, en á því er vissulega full þörf.