11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafason):

Herra forseti. Í rauninni bar það mál, sem hér er brotið upp á, á góma, þegar ég svaraði fyrir mánuði fsp. hv. 6. landsk. þm., Helga F. Seljans, um starfsemi menningarsjóðs félagsheimila. Í svari sagði ég m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Haft hefur verið samráð við Menntamálaráð Íslands til þess að tryggja samstarf eftir því sem hagkvæmt þykir, vegna starfsemi þeirrar, sem menntamálaráð hefur beitt sér fyrir og nefnd hefur verið „List um landið.“ “

Ég get bætt því við, að strax og ljóst varð á s.l. sumri, að í ráði var að hefja stuðning við listflutning úti um land, ekki aðeins á vegum menningarsjóðs félagsheimila, heldur einnig á vegum Menntamálaráðs, efndi menntmrn. til fundar með forstöðumönnum beggja þessara stofnana. Þar voru þegar lögð drög að því, að starfsemin yrði samræmd, og einnig, að aðilar hefðu svo náið samráð, að komið yrði í veg fyrir allan tvíverknað. Þetta samstarf hefur haldið áfram síðan, að því er ég bezt veit snurðulaust, og fyllstu horfur eru á, að það haldi áfram á því ári sem yfir stendur.

Það stendur nokkuð svipað á um hvora tveggja þessa starfsemi. Á s.l. ári var hún algerlega á frumstigi hjá menningarsjóði félagsheimila, og hjá menntamálaráði var fitjað upp á ný á starfsemi, sem fallið hafði niður fyrir allmörgum árum. Af því stafar vafalaust sú staðreynd, sem hv. fsp. 7. þm. Reykv. benti á, að hvorugur aðili hefur komið í lóg nema hluta af því fé, sem til þessarar starfsemi mátti verja. Segja má, að það hefði verið æskilegra, að starfsemin færi myndarlegar af stað, en ég tel það þó ekki aðalatriðið, heldur að fénu, sem lagt er fram, sé raunverulega vel varið.

Hvað menningarsjóð félagsheimila varðar, er engu fé glatað frá þessari starfsemi. Það fé, sem ekki var notað á síðasta ári, geymist til þessa árs.

Varðandi ráðningu á starfsmanni fyrir menningarsjóð félagsheimila er mér tjáð, að þar sé ekki um neina fastráðningu að ræða, sá maður, sem í hlut á, sé ráðinn til þess að sjá um ákveðin verkefni, sem þar verði tekin fyrir, og fái þóknun í samræmi við það, hann sé alls ekki á föstum launum.

Megininntakið í ræðu frummælanda hér, var það, að hann taldi að þessa starfsemi alla ætti að sameina í menntmrn. á vegum menningarsjóðs félagsheimila.

Ég vil benda á, að menningarsjóður félagsheimila er samkv. reglum sínum bundinn við starfsemi, sem fram fer í félagsheimilum, sem byggð eru samkv. félagsheimilalögum. Til eru ýmsir staðir á landinu, þar sem ekki er til að dreifa slíkum félagsheimilum og menningarsjóður félagsheimila getur því ekki með góðu móti sinnt, svo að þegar af þeirri ástæðu getur verið ástæða til sérstakrar starfsemi utan hans vébanda, án þess ég vilji þar með segja, að frekari samhæfing þessarar starfsemi kunni ekki að reynast hagkvæm.